Fjórir flokkar vaðmáls

Greinar

Þeim fjölgar stöðugt, sem átta sig á, að afskipti ríkisins af landbúnaði eru eitt af því, sem veldur þjóðinni mestum vandræðum í lífsbaráttunni. Síðast lagði formaður Alþýðuflokksins orð í þennan belg í hreinskilnislegu spjalli við málgagn sitt um helgina.

Þar áður höfðu hagfræðingar í Háskóla og Seðlabanka tekið undir það sjónarmið, sem til skamms tíma var fáeinna sérvitringa, að ríkisrekstur landbúnaðarins væri orðinn þjóðinni óbærilegur. Jafnvel Morgunblaðið hefur stunið upp hliðstæðum athugasemdum í leiðara.

Yfirleitt eru það sömu atriðin, sem stinga í augu gamalla og nýrra gagnrýnenda kerfisins. Menn vilja ekki, að ríkið kaupi búvöruna og slíti þar með tengsl framboðs og eftirspurnar. Því vilja menn ekki framlengja búvörusamninginn illræmda, þegar hann rennur út.

Menn vilja ennfremur opna búvörukerfið með því að leyfa erlendum vörum að halda uppi samkeppni og lækka vöruverðið. Það mundi bæta hag neytenda og létta byrðum af skattgreiðendum. Flestir vilja líka, að stefnt verði að afnámi niðurgreiðslna og styrkja.

Jón Baldvin Hannibalsson gengur lengra í röksemdafærslunni á sama hátt og gert hefur verið hér í blaðinu. Hann bendir á, að fjórir stjórnmálaflokkar hafa bannhelgi á að orða nokkuð skynsamlegt í málinu, jafnvel þótt hinir sömu flokkar kveini um hátt matarverð.

Þessir flokkar eru auðvitað Framsóknarflokkurinn, Sjálfstæðisflokkurinn, Alþýðubandalagið og Kvennalistinn, fjórir öflugustu óvinir neytenda og skattgreiðenda í landinu. Framsóknarflokkurinn sker sig ekki úr, því að hinir yfirbjóða hann gjarna í ruglinu.

Munur Framsóknarflokks og Kvennalista er fyrst og fremst sá, að hinn fyrri telur sig vera að gæta hagsmuna bænda og að hinn síðari telur sig vera að gæta hagsmuna bændakvenna. Að öðru leyti eru vaðmálssjónarmiðin hin sömu hjá þessum miðaldaflokkum.

Munur Sjálfstæðisflokks og Alþýðubandalags er fyrst og fremst sá, að hinn fyrri er Framsóknarflokkur, sem telur sig styðja “varnir landsins”, en hinn síðari er Framsóknarflokkur, sem telur sig vera “gegn her í landi”. Að öðru leyti er vaðmálið sama hjá báðum.

Segja má Alþýðuflokknum til hróss, að þar hafa menn helzt viljað hrófla við glæpnum. Gylfi Þ. Gíslason lýsti stundum áhyggjum af landbúnaðarkerfinu. Og Jón Sigurðsson viðskiptaráðherra leyfir erlendu smjörlíki að keppa við innlent smjör í takmörkuðum mæli.

Hinn sami viðskiptaráðherra framdi þau helgispjöll á Alþingi í vetur að kvarta yfir ofbeitinni í landinu. Enginn studdi hann þar. Þvert á móti reis vaðmálslið allra flokka upp á afturfæturna og átti tæpast orð til að lýsa hneykslun sinni á sannleiksorðum ráðherrans.

Og nú hefur formaður Alþýðuflokksins stigið skrefið til fulls og upplýst, að ekki sé unnt að stjórna landinu fyrir landbúnaðarrugli, sem kostar þjóðina fjölda milljarða króna á hverju ári. Hann hefur greinilega séð ljósið og er kominn í raðir svonefndra sérvitringa.

Hitt flæktist meira fyrir honum að sannfæra lesendur um, að rétta leiðin út úr myrkrinu væri á vegum Alþýðuflokksins. Satt að segja hafa upphlaup í þeim flokki út af landbúnaði verið tilviljanakennd. Enginn markviss málafylgja hefur sézt innan ríkisstjórnarinnar.

En orð eru til alls fyrst. Viðtal formannsins er tákn um, að þinglið og þingfylgi fara senn að grisjast af vaðmálsliðinu, sem þjóðin lætur halda sér í gíslingu.

Jónas Kristjánsson

DV