Gott tilboð úr austri

Greinar

Sovétmenn segjast nú vera reiðubúnir að fórna yfirburðunum, sem þeir hafa í hefðbundnum vopnabúnaði í Evrópu og greiða þannig fyrir, að Vesturlönd geti fallizt á frekari samdrátt kjarnavopnabúnaðar, til dæmis afnám skammdrægra eldflauga, sem deilt hefur verið um.

Margir Vesturlandabúar, einkum forustumenn Bandaríkjanna og Bretlands, hafa óttazt, að samningar um sífellt viðameiri samdrátt og afnám ýmissa tegunda kjarnavopna mundu gera Sovétríkjunum kleift að nýta yfirburði sína í hefðbundnum vopnum á meginlandinu.

Lengi hefur verið stefna Atlantshafsbandalagsins að spara sér að halda til jafns við Sovétríkin í hefðbundnum vopnum með því að halda uppi ógnarjafnvægi á sviði kjarnorkuvopna. Vesturlönd hafa kjarnorkuvopn að skjóli gegn hugsanlegri skriðdrekainnrás úr austri.

Nú hefur Gorbatsjov enn einu sinni komið á óvart. Þar er ekki átt við tilboð hans um einhliða fækkun sovézkra kjarnaflauga gegn því, að Atlantshafsbandalagið hefji viðræður um afnám skammdrægra kjarnaflauga í Evrópu. Því boði hefur þegar verið hafnað.

Eitt atriðanna, sem máli skiptir, er, að sovézkir samningamenn féllust í síðustu viku á mikla fækkun í hefðbundnum herjum Sovétríkjanna og Varsjárbandalagsins í nágrenni járntjaldsins, raunar meiri samdrátt en samningamenn Vesturlanda höfðu áður heimtað.

Það skiptir líka máli, að við sama tækifæri lögðu samningamenn Sovétríkjanna til, að Atlantshafsbandalagið fækkaði ekki eins mikið í hefðbundnum herjum sínum í nágrenni járntjaldsins og það var sjálft búið að bjóða. Þetta eflir traust á hinum nýja friðarvilja.

Annað atriði, sem skiptir miklu, er, að Sovétríkin hafa fallizt á að flytja fastaherinn, sem er að baki framherjanna, langt inn í Sovétríkin og fækka þar með mjög mikið í herliði og vopnabúnaði af hefðbundnu tagi á mörg hundruð kílómetra svæði í Mið- og Austur-Evrópu.

Þetta er einmitt það, sem Vesturveldin þurfa. Það eykur öryggi, þegar herlið og vopnabúnaður eru flutt úr árásarstöðu í varnarstöðu. Það gefur hinum aðilanum tíma til að búast til varnar, þegar hann verður var við óeðlilega herflutninga langt að baki landamæranna.

Staðreyndin er, að til skamms tíma voru samningar um kjarnavopn komnir langt fram úr samningum um önnur vopn. Nú er kominn tími til að huga að hefðbundnum vopnum, svo að frekari samningar í afvopnunarkapphlaupinu leiði til raunhæfara öryggis.

Skyndiárás er það, sem menn óttast mest í Atlantshafsbandalaginu. Því fjær, sem her er fluttur frá landamærunum, þeim mun meiri tíma tekur að skipa liði til sóknar. Og njósnatækni gerir varnaraðila kleift að fylgjast sæmilega vel með slíkum liðsflutningum.

Opnunin í viðræðum um samdrátt í hefðbundnum vopnabúnaði, einkum í nágrenni járntjaldsins, er annað af tveimur mikilvægustu sviðunum í friðarviðræðum austurs og vesturs. Hitt sviðið felst í viðræðum um gagnkvæmt eftirlit með því, sem málsaðilar eru að gera.

Tillögur, sem varða kjarnavopn, eru gjarnan í sviðs ljósinu, enda notaðar sem áróðurstæki. Sem betur fer er fleira að gerast í viðræðum austurs og vesturs en tilboð um slík vopn eingöngu. Og tillögur Sovétríkjanna frá því í síðustu viku eru tímamótaskref í átt til öryggis.

Með hverjum mánuðinum sem líður verður friðvænlegra og öruggara að búa í Evrópu. Það er bjartasta hlið líðandi stundar. Vonleysi er að víkja fyrir von.

Jónas Kristjánsson

DV