Sérhagsmunir ofar öllu

Greinar

Fólk hugsar lítið um óáþreifanlega hagsmuni, sem það hefur af, að áþreifanlegir sérhagsmunir tröllríði ekki sameiginlegum hagsmunum. Þess vegna er þrýstingur af hálfu sérhagsmuna yfirleitt miklu öflugri en þrýstingur af hálfu hinna, sem verjast sérhagsmunum.

Til dæmis er mjög erfitt að verjast óskum um beinan og óbeinan stuðning við 120 fjölskyldur, sem lifa af loðdýrarækt, af því að þar er um áþreifanlega sérhagsmuni að ræða. Kostnaðurinn við stuðninginn dreifist á 250.000 manns, sem finna ekki fyrir þessu hver og einn.

Á þennan hátt hefur verið byggt upp kerfi til stuðnings hefðbundnum landbúnaði. Það hefur gífurleg áhrif á sérhagsmuni þeirra, sem kerfisins njóta, en þynnist út, þegar kostnaðurinn dreifist á skattgreiðendur í heild. Fólk rís því ekki upp gegn hinu dýra styrkjakerfi.

Þótt margir verði varir við óréttlætið í að sameiginlegir hagsmunir verða yfirleitt að víkja fyrir sérhagsmunum, draga þeir ekki þá ályktun, að hamla verði gegn sérhagsmununum, heldur hina, að reyna að finna eitthvert svið, þar sem þeir geti sjálfir notið sérhagsmuna.

Þetta er óskin um að fá hlutdeild í herfanginu, sem myndast við, að Stóri bróðir tekur til sín umtalsverðan hluta af fjármunum þjóðfélagsins og dreifir þeim á nýjan leik, sumpart til félagslegra þarfa, en einkum þó til sérhagsmuna, sem hafa góðan aðgang að ríkiskerfinu.

Stundum leiðir þetta til sérkennilegrar niðurstöðu, svo sem komið hefur í ljós í deilunni um, hvort húsnæðismálastjórn hafi, aldrei þessu vant, hlunnfarið sérhagsmuni landsbyggðarinnar í úthlutun fjármagns til byggingar íbúða, sem kallaðar eru félagslegar.

Sjálfvirkir hagsmunagæzlumenn strjálbýlisins með alþingismenn í broddi fylkingar hafa mótmælt harðlega. Þeir hafa bent á, að nýja úthlutunin muni auka mjög vinnu í byggingariðnaði í Reykjavík og í Reykjaneskjördæmi, en draga úr slíkri vinnu annars staðar.

Þessi viðbrögð stafa meðal annars af, að mjög auðvelt er að sjá hagsmuni þeirra, sem hafa atvinnu af byggingaframkvæmdum. Hins vegar gleymast hagsmunir hinna, er eiga fasteignir utan Reykjavíkur og Reykjaneskjördæmisins, sem þeir geta ekki losnað við.

Stuðningur við byggingaframkvæmdir á landsbyggðinni hefur víða leitt til, að verðgildi eigna, sem fyrir eru, hefur fallið stórlega. Í sumum tilvikum hafa þær orðið óseljanlegar og standa jafnvel ónotaðar. Á sama tíma er verið að byggja nýtt til að búa til vinnu.

Svo virðist sem hagsmunir byggingariðnaðarins séu áþreifanlegir og hafi áhrif á æsing og gerðir stjórnmálamanna. Hins vegar virðast hagsmunir húseigenda, sem eru þó mun fleiri á hverjum stað, ekki vera áþreifanlegir og því ekki jafna út hina hagsmunina.

Breiðustu og dreifðustu hagsmunir þjóðarinnar eru óáþreifanlegir hagsmunir neytenda og skattgreiðenda, almennra kjósenda. Þetta eru líka um leið hagsmunirnir, sem mest er traðkað á, þegar stjórnmálamenn og embættismenn eru að velja sérhagsmuni til að þjóna.

Meðan fólk neitar að verja hina ótalmörgu litlu hagsmuni sína sem neytendur og skattgreiðendur, en vill klífa fjöll til að krækja í hlutdeild í herfangi sérhagsmuna, mun íslenzka lýðveldið halda áfram að vera eins konar sjálfsafgreiðslustofnun sérhagsmuna.

Raunar hafa kjósendur sjálfir ákveðið og eru að ákveða, að ástandið skuli vera eins og það er. Meðan svo er, má ekki búast við skorðum við sérhagsmunum.

Jónas Kristjánsson

DV