Pólskt kál í ausunni

Greinar

Ekki er sopið kálið, þótt í ausuna sé komið. Þótt ástæða sé til að fagna kosningu Tadeuszar Maziowiecki sem forsætisráðherra í Póllandi, er rétt að minna á, að slíkir atburðir hafa áður gerzt í löndum Austur-Evrópu, án þess að það leiddi varanlega til aukins lýðræðis.

Alexander Dubcek ætlaði á sínum tíma að feta í átt til lýðræðis í Tékkóslóvakíu, en fékk það ekki fyrir skriðdrekainnrás nágrannaríkjanna. Imre Nagy ætlaði að gera hið sama í Ungverjalandi, en varð líka að sæta innrás Sovétríkjanna og var myrtur að lokum.

Nagy á meira að segja sameiginlegt með Maziowiecki, að hann var ekki kommúnisti. Hann var upprunalega fulltrúi flokks á borð við þá, sem nú hafa myndað stjórn með Samstöðu í Póllandi. Maziowiecki er því ekki fyrsti valdamaður þar eystra, sem er ekki úr Flokknum.

Aðstæður eru aðrar núna, svo að ástæða er til að vona, að betur fari í þetta skipti. Stjórnarskiptin í Póllandi fylgja í kjölfar mikilla umbóta í Sovétríkjunum, svo að minni hætta en áður er á innrás úr austri. Hættan á því er samt engan veginn úr sögunni.

Varnarbandalag er að myndast í Austur-Evrópu með harðlínumönnum kommúnistaflokksins, sem sjá sæng sína upp reidda. Ráðamenn í Austur-Þýzkalandi og Tékkóslóvakíu sitja á svikráðum með skoðanabræðrum sínum frá Póllandi, Ungverjalandi og Sovétríkjunum.

Hugsanlegt er, að Gorbatsjov verði að víkja í Sovétríkjunum eða að hann verði að láta af umbótastefnu sinni til þess að halda velli. Augljóst er, að efnahagsstefna hans mun ekki færa Sovétmönnum neinn skjótan lífskjarabata. Það verður notað gegn stefnunni.

Enn flóknari vandamál mæta Maziowiecki í Póllandi. Hann er fulltrúi stjórnmálaafls, sem hefur ekki fastmótaða stefnu í efnahagsmálum. Í Samstöðu togast á hefðbundin verkamannasjónarmið um varðveizlu atvinnutækifæra og hefðbundin frjálshyggjusjónarmið.

Að baki hans er almenningur í verkalýðsfélögunum, sem ætlast til, að sinn maður í forsætisráðherrastóli bæti lífskjörin og það ekki bara seinna, heldur strax. En það getur Maziowiecki ekki gert, ef hann ætlar að reyna að bjarga Póllandi úr öngþveiti miðstýringar.

Hann þarf að leyfa verðlagi að hækka á matvælum. Hann þarf að láta loka vanhæfum fyrirtækjum og skapa atvinnuleysi í röðum Samstöðumanna, ef hann á að geta fengið hjól atvinnulífsins í gang að nýju, svo að þau fari smám saman að mala gull eins og á Vesturlöndum.

Ofan á spennuna, sem óhjákvæmilega mun myndast milli markaðshyggjumanna og atvinnuvarðveizlumanna í Samstöðu, kemur svo hin þögula og seiga andstaða möppudýra og kerfiskarla, sem hafa þegið stöður sínar og embætti fyrir hlýðni við kommúnistaflokkinn.

Skrifræðið í stjórnmálum og atvinnulífi Póllands leggst ekki niður á nokkrum árum, þótt kommúnistar verði að gefa eftir flest ráðherraembættin. Hin breiða fylking gæludýra kommúnistaflokksins mun nota aðstöðu sína í kerfinu til að spilla fyrir Maziowiecki.

Síðast en ekki sízt er hinn nýi forsætisráðherra hálfgerður gísl kommúnista. Til að hindra innrás Sovétríkjanna hefur hann neyðst til að bjóða kommúnistum ráðherraembætti hermála og lögreglu. Að mati kommúnista felast raunveruleg völd einmitt í þessu tvennu.

Kjör Maziowiecki er mikilvægt. En of snemmt er að úrskurða, að það sé mikilvægasti atburðurinn í Austur-Evrópu frá því að járntjaldið var dregið fyrir.

Jónas Kristjánsson

DV