Greiðar eftir geðþótta

Greinar

Sala Samvinnubankans er mikilvægur þáttur í því, sem hér á landi er talið verið aðalhlutverk stjórnmála, kommissara og stjórnmálamanna. Hlutverkið felst í að gera fólki og fyrirtækjum greiða á kostnað almannahagsmuna og yfirleitt eftir geðþótta hverju sinni.

Stundum kemur þetta fram í litlum myndum. Núverandi fjármálaráðherra tók marklaus veð fyrir skattaskuld Svarts á hvítu og gaf hreinlega eftir skattaskuld næstsíðasta útgáfufélags dagblaðsins Tímans, áður en hann sigaði lögreglunni á önnur fyrirtæki í landinu.

Sumir halda, að stjórnmál snúist um fallegar stefnur, sem samþykktar eru á aðalfundum stjórnmálaflokka. Aðrir halda, að stjórnmál snúist um stjórnmálamenn, sem kjósendur treysti misvel til farsældar. Nokkrir vita, að þau snúast um stóla, völd, skömmtun og greiða.

Fyrirlitningin á góðum siðum og lýðræði kom vel fram rétt fyrir ævilok ríkisstjórnarinnar, sem núverandi forsætisráðherra stýrði fram til ársins 1987. Þá kvaddi sú stjórn með því að skuldbinda næstu ríkisstjórnir til að borga búvörusamning í fjögur ár.

Samkvæmt þessum samningi hefur verið erfitt fyrir þær þrjár skammtímastjórnir, sem síðan hafa setið, þar á meðal þá, sem tók við um helgina, að gera nokkuð af viti í fjármálum hins opinbera. Búvörusamningurinn er svo fyrirferðarmikill á herðum skattgreiðenda.

Þegar ráðherrum var á sínum tíma réttur litlifingur með heimild til ráðningar pólitískra aðstoðarmanna þeirra, tóku þeir alla hendina. Forsætis- og fjármálaráðherra hafa nú þrjá kommissara hvor, aðstoðarmann, efnahagsráðgjafa og lyga- eða sannleiksfulltrúa.

Slíkir kommissarar virðast vera ráðnir eftir geðþótta ráðherra og taka laun eftir geðþótta ráðherra. Þau laun eru svo miklu betri en önnur laun, að ríkisstjórnir hafa síðan 1985 talið sér ljúft að hætta að gefa út skrá um opinbera starfsmenn og launagreiðslur til þeirra.

Á einu æviári ríkisstjórnarinnar, sem hætti formlega séð um helgina, tókst henni að efna í atvinnulífinu til millifærslusjóða, sem hafa að verkefni að færa tólf milljarða til rekstrar, sem er þess eðlis, að peningarnir hafa meiri möguleika á að brenna upp þar en annars staðar.

Þessari sömu ríkisstjórn hefur líka tekizt að verja hálfum þriðja milljarði króna eftir eigin geðþótta til útgjalda, sem engin heimild er fyrir á fjárlögum ársins eða öðrum lögum. Þetta eru kallaðar aukafjárveitingar, en eru í rauninni ekkert annað en þjófnaður.

Eins og í Austur-Evrópu er skömmtun í hávegum höfð í íslenzkum stjórnmálum. Síðan gengur skömmtunin kaupum og sölum. Menn kaupa og selja kvóta til fiskveiða, fullvinnslurétt til hefðbundins búskapar og meira að segja kvóta til flutnings á gámafiski til útlanda.

Geðþótti í greiðasemi einkennir ýmis ævintýri ársins, stuðninginn við Álafoss, loðdýrarækt, Sigló-síld, lagmetið á Þýzkalandsmarkaði, Patreksfjarðartogarana. Eitt helzta tækið til slíkra afreka er byggðastefnan, sem er höfuðverkefni margvíslegra sjóða og stofnana.

Landsbankinn keypti Samvinnubankann til að bjarga SÍS frá gjaldþroti. Með kaupunum yfirtók bankinn tveggja milljarða skuldir samvinnuhreyfingarinnar og létti á átta milljarða skuldasúpu Sambandsins. Þetta var pólitísk ákvörðun pólitískra kommissara í bankanum.

Bankakaupin eru í anda íslenzkra stjórnmála, sem snúast um stóla og völd, skömmtun og greiða, sem farið er með að geðþótta. Þetta er fyrirgreiðslukerfið.

Jónas Kristjánsson

DV