Frá sjónarmiði fólks, sem hefur milljón á mánuði, kann að vera hér uppgangur og góðæri. Mikill makríll, góður afli, ferðamenn í milljónatali. Segja má jafnvel, að þeir geti bjargað sér, sem hafa hálfa milljón á mánuði. Sama verður tæpast sagt um þá hálfu þjóð, sem hefur innan við það. Svo sem ekki um þá, sem skríða upp í 300.000 eftir þrjú ár samkvæmt nýjustu kjarasamningum. Þetta fólk tekur ekki þátt í hinum meinta uppgangi og hinu meinta góðæri. Unga fólkið í þessum hópi getur hvorki leigt sér íbúð né keypt. Raunar er hinn mesti dónaskapur við alþýðu þessa lands að þvaðra gáleysislega um uppgang og góðæri í Undralandi.