Rotþró helmingaskipta

Greinar

Vel er við hæfi, að formaður Sjálfstæðisflokksins skuli afneita bankastjóra sínum í Landsbankanum. Formaðurinn hafði sem forsætisráðherra ekki svo lítið fyrir, gegn góðra manna ráðum, að troða Sverri Hermannssyni þar inn og að troða öðrum um tær í leiðinni.

Formanni Sjálfstæðisflokksins var þá vel kunnugt um, hvernig núverandi yfirbankastjóri Landsbankans tók mikilvægar og rándýrar ákvarðanir, þegar hann var ráðherra. Formaðurinn hafði ekki svo lítið fyrir að bjarga ráðherranum eftir kaupin á Mjólkurstöðinni.

Þegar Þorsteinn Pálsson sýndi takmarkalaust ábyrgðarleysi með því að troða Sverri Hermannssyni upp á Landsbankann, sagði bankaráðsmaðurinn Árni Vilhjálmsson prófessor af sér, og bankinn missti frá sér Tryggva Pálsson, verðandi stjóra Íslandsbanka.

Ráðning Sverris og björgun Sambands íslenzkra samvinnufélaga eru hvort tveggja liðir í gamalgrónu helmingaskiptafélagi Framsóknarflokksins hins minni og Framsóknarflokksins hins meiri, sem kallar sig Sjálfstæðisflokk. Þetta er bara sýnishorn úr rotþrónni.

Sem liður í þessu samkomulagi hefur Samband íslenzkra samvinnufélaga átt bankastjóra í Landsbankanum í hálfa öld. Þessi nánu tengsl eru persónugerð í Vilhjálmi Þór, Jóni Árnasyni, Helga Bergs og nú síðast Val Arnþórssyni. Sverri er bara att á foraðið.

Með kaupum hlutabréfa Samvinnubankans af Sambandi íslenzkra samvinnufélaga á yfirverði er Landsbankinn að gefa Sambandinu fé, sem er af stærðargráðunni hálfur milljarður króna. Með þessu er helmingaskiptafélagið að bjarga Sambandinu frá gjaldþroti.

Landsbankinn bjargaði Sambandinu á svipaðan hátt fyrir örfáum árum, þegar hann keypti af því verðlausa skreiðarvíxla frá Nígeríu á nafnverði fyrir 250 milljónir króna. Sambandið var eini handhafi slíkra víxla, sem fékk þess háttar fyrirgreiðslu Landsbankans.

Samanlagt fela kaupin á Nígeríuvíxlunum og Samvinnubankabréfunum í sér gjöf þjóðarinnar í gegnum Landsbankann til Sambandsins upp á þrjá fjórðu úr milljarði króna. Og þetta eru bara tvö dæmi um aðstöðuna, sem Sambandið hefur í stærsta banka þjóðarinnar.

Fyrir tíu mánuðum sagði fjármálaráðherra, að Sambandið ætti bara eftir fjórtán mánuði til gjaldþrots. Nú eru fjórir mánuðir eftir af spá Ólafs Ragnars Grímssonar. Enginn vafi er á, að Sambandið rambar nálægt barmi gjaldþrots vegna óheyrilegs aðgangs að ódýru lánsfé.

Árið 1989 verður fjórða tapár Sambandsins í röð. Á þessum tíma hefur það tapað tæplega tveimur milljörðum, sem er meira en helmingur af eigin fé þess. Skuldir þess hafa á sama tíma vaxið að raungildi um rúmlega tvo milljarða og eru komnar í átta milljarða króna.

Þegar Landsbankinn tekur að sér Samvinnubankann og skuldir Sambandsins í þeim banka, verður hlutfall eins skuldara orðið miklu hærra í bankanum en lög og reglur heimila. Þeim mun meiri verður skellur bankans, ef Sambandið heldur áfram að tapa peningum.

Athyglisvert er, að bankastjóri Landsbankans hefur skrifað nafn sitt undir kröfulista Sambandsins, sem fylgir kaupsamningnum, þar á meðal undir ákvæði um óbreyttar útlánahefðir til Sambandsins næstu fimmtán árin og um miklar greiðslur til þess framhjá skuldajöfnun.

Lúðvík Jósepsson bankaráðsmaður á skilið þakkir fólks fyrir að segja dæmisögu úr rotþró helmingaskiptafélags, sem hefur blóðmjólkað þjóðina áratugum saman.

Jónas Kristjánsson

DV