Gera vondan banka verri

Greinar

Sem oftar hafði forsætisráðherra rangt fyrir sér, þegar hann leitaði dæma til stuðnings gremju sinni í garð Seðlabankans. Í útlöndum eru seðlabankar alls ekki eins þjónustuliprir og ráðherrann lýsti og allra sízt Seðlabankinn í Bandaríkjunum, sem er afar sjálfstæður.

Meðan Reagan var við völd í Bandaríkjunum og rak þar ábyrgðarlitla seiðkarlastefnu í efnahagsmálum, svona á svipaðan hátt og Steingrímur Hermannsson gerir hér, stóð Volcker seðlabankastjóri eins og klettur úr hafinu og varðveitti skynsemina í brotsjóunum.

Flest vestræn lönd reyna að stæla seðlabanka Bandaríkjanna og Vestur-Þýzkalands, þar sem hæfustu menn eru fengnir til að gæta þess, að óskhyggja skammlífra ríkisstjórna skoli ekki þjóðarhag á glæ. Meðal þessara landa eru Norðurlönd, öll nema útkjálkinn Ísland.

Margt er við Seðlabankann á Íslandi að athuga, en einmitt ekki það, sem veldur gremju forsætisráðherra. Seðlabankinn hefur alls ekki lagt stein í götu ríkisstjórna, heldur gert sér far um að þjónusta sérhverja þá ríkisstjórn, sem að völdum hefur setið.

Í stað þess að gæta skynseminnar sem klettur í brotsjóm ábyrgðarlítilla seiðkarla, hefur Seðlabankinn hagað seglum eftir vindi og þjónustað verðbólguhvetjandi aðgerðir þeirra. Verst er, að bankinn hefur prentað peningaseðla eftir þörfum sérhverrar ríkisstjórnar.

Þar á ofan hefur Seðlabankinn tekið þátt í að rugla dómgreind þjóðarinnar með því að hafa forustu í notkun stofnanamáls, þar sem gengislækkanir heita “gengisbreytingar” og lánaforgangur gæludýra heitir “frysting” innlána, allt til að dylja veruleikann fyrir fólki.

Formaður bankastjórnar Seðlabankans er réttilega gagnrýndur fyrir að hafa látið bankann vaxa samkvæmt Parkinsonslögmáli á þrjátíu árum upp úr skrifborðsskúffu í Landsbankanum í að verða að svörtum steinkastala með hálft annað hundrað manna á launum.

Þar á ofan hefur formaður bankastjórnarinnar haft forustu um að venja forstjóra og aðra yfirmenn í þjóðfélaginu á óþarflega mikinn persónulegan lúxus, svo sem í skrifstofubúnaði, bílaútgerð, laxveiðum og veizluhöldum. Of margir vilja herma eftir Seðlabankanum.

Gagnrýnendur Seðlabankans hafa rétt fyrir sér, þegar þeir gagnrýna þaulsetur bankastjóra. Auðvitað ætti Jóhannes Nordal að vera hættur fyrir löngu. En gallinn er bara sá, að gagnrýnendur eru ekki að hugsa um að finna betri mann, heldur að finna sinn mann.

Stjórnmálaforingjar eru að eyðileggja Seðlabankann. Annars vegar gera þeir það með því að troða í bankastjórastólana stjórnmálamönnum, sem taldir eru þurfa hægan sess að loknum erilsömum ferli. Hins vegar gera þeir það með því að heimta aukna þægð bankans.

Pólitískir bankastjórar minnka reisn bankans, draga úr sjálfstæði hans og sjálfstrausti og gera hann háðari hvers konar rugli, sem efst er á baugi á stjórnarheimilinu hverju sinni. Þeir eru næmir fyrir kröfum ráðherra um hlýðni bankans við sjónhverfingar ríkisstjórna.

Eini kosturinn við núverandi formann bankastjórnar Seðlabankans er, að hann situr í sæti, sem annars gæti verið fyllt einhverjum Sverri Hermannssyni, Steingrími Hermannssyni, Jóni Baldvin Hannibalssyni, Ólafi Ragnari Grímssyni eða öðrum riddara íslenzkra burtreiða.

Enginn banki er svo vondur, ekki einu sinni Seðlabankinn, að forsætisráðherra og aðrir foringjar geti ekki gert hann verri með að fá vilja sínum framgengt.

Jónas Kristjánsson

DV