Sínum gjöfum líkastur

Greinar

Erró er kominn heim eftir rúmlega þriggja áratuga útlegð. Hann hefur treyst Reykjavíkurborg umfram aðra til að varðveita listasögu sína. Hann hefur gefið henni um 2000 listaverk eftir sjálfan sig, og borgin ætlar að koma þeim veglega fyrir í safni á Korpúlfsstöðum.

Erró er dæmi um, að menn geta verið spámenn í sínu föðurlandi. Fyrir rúmlega þremur áratugum seldi hann grimmt á sýningu í Listamannaskálanum, áður en hann hélt út í hinn stóra heim til varanlegrar útivistar. Þá þegar hafði þjóðin viðurkennt hann sem listamann.

Hann hefur haft mikið að gera þessa þrjá áratugi. Hann er hamhleypa til verka og vinnur frá morgni til kvölds, dag eftir dag, viku eftir viku. Auk þess hefur hann ferðast um heiminn til að safna í hugmyndabankann. Hann hefur raunar tæpast litið upp í 30 ár.

Þess vegna hefur hann haft lítinn tíma til að halda tengslum við föðurlandið. Nokkrum sinnum hefur hann þó komið heim, en mest í mýflugumynd. Núna loks má segja, að hann sé varanlega kominn heim. En þeim mun glæsilegri er bragurinn á heimkomu listamannsins.

Erró hefur með sér um 2000 listaverk, sem spanna allan listferil hans, frá því að hann var tíu ára gamall til allra síðustu ára. Meðal annars eru nokkur sýnishorn úr öllum 42 myndflokkum hans, sem frægir hafa orðið. Þessi gjöf er raunar sjálfsævisaga hans.

Erró er þekktur að gjafmildi. Hann hefur frá barn æsku alltaf verið að gefa af sjálfum sér. En þessi gjöf er miklum mun stórfenglegri en nokkurn gat órað fyrir. Hún gerir Reykjavík skyndilega að menningarsögulegum punkti á korti alþjóðlegrar listasögu.

Hann fylgir í kjölfar Bertels Thorvaldsen, sem er hinn Íslendingurinn, er hefur öðlazt veigamikinn sess í listasögunni. Og það er til marks um, að þjóðin hefur gengið götuna fram eftir vegi, að nú þarf ekki að velja Kaupmannahöfn sem öruggan samastað listaverkanna.

Hann er einn af fremstu málurum popptímans í málaralist. Þetta tímabil poppsins spannar yfir sömu þrjátíu árin og eru starfsvettvangur Errós. Hann er að því leyti þátttakandi í forustusveit alþjóðlegra málara, umsetinn af listaverkasöfnum og listaverkasöfnurum.

Um leið hefur Erró ætíð haft sinn persónulega stíl, sem er hvarvetna auðþekkjanlegur, ólíkur stíl annarra þekktra málara þessara þriggja áratuga. Þennan stíl hefur hann mótað og þróað á sjálfstæðan hátt við góðar undirtektir alþjóðlegra listunnenda samtímans.

Íslendingar hafa áður þegið stórar gjafir listamanna, Einars Jónssonar, Ásgríms Jónssonar, Ásmundar Sveinssonar og Jóhannesar Kjarval. En gjöf Errós er sérstök, ekki vegna verðmætisins, sem nemur hundruðum milljóna, heldur vegna stöðu hennar í listasögunni.

Ætlunin er að gera Korpúlfsstaði upp og koma þar fyrir hinni miklu listasögu, sem felst í höfðinglegri gjöfinni. Það verður mikið og dýrt fyrirtæki, því að rakastig og lofthiti verða að vera í fullkomnu jafnvægi og öryggisbúnaður svo fullkominn, sem hæfir verkunum.

Enginn aðili á Íslandi er líklegri til að gera þetta með sóma en einmitt Reykjavíkurborg, sem nýlega endur reisti Viðeyjarstofu með glæsibrag og er nú að ljúka við nýtt og stórfenglegt Borgarleikhús. Um leið varðveitir borgin Korpúlfsstaði, minnisvarða íslenzks framtaks.

Þannig verður gjöfin bezt þegin og bezt svarað hinu mikla örlæti Errós, sem borgarstjóri lýsti á laugardaginn réttilega svo: “Hver er sínum gjöfum líkastur”.

Jónas Kristjánsson

DV