Silfurstjarna í barmi

Greinar

Stefán Valgeirsson alþingismaður og fjármálamaður er eitt helzta einkennistákn ríkisstjórnar, sem hefur sagt skilið við hefðbundin siðalögmál stjórnmála á Vesturlöndum. Hann er gangandi dæmi um, hvernig óhollustan grefur um sig í kerfi miðstýringarinnar.

Fjölmiðlar hafa að undanförnu rakið furðuleg dæmi um þóknun kerfisins til eins þingmanns fyrir stuðning hans við ríkisstjórnina, til frænda hans og til fyrirtækja á hans vegum. Þessar fréttir hafa veitt innsýn í siðlítinn hugarheim þeirra, sem með völdin fara í landinu.

Hvorki ríkisstjórnin í heild né einstakir ráðherrar hafa viðurkennt, að stöðu Stefáns í kerfinu þurfi að breyta. Ólafur Ragnar Grímsson fjármálaráðherra hefur raunar fullyrt, að Stefán sé lítilþægur að krefjast ekki að fá fleiri aðstoðarmenn setta á launaskrá ríkisins.

Stefán Valgeirsson vissi, hvað hann vildi, þegar hann hafnaði stöðu samgönguráðherra í ríkisstjórn Steingríms Hermannssonar. Hann kaus í staðinn að vera formaður stjórnar Búnaðarbankans og Stofnlánadeildar landbúnaðarins og stjórnarmaður í Byggðastofnun.

Stefán kaus einnig að koma tveimur frændum sínum á framfæri ríkisins, öðrum sem formanni Atvinnutryggingarsjóðs og hinum sem deildarstjóra í forsætisráðuneytinu. Sá síðarnefndi er um leið stjórnarformaður Silfurstjörnunnar, fjölskyldufyrirtækis Stefáns.

Byggðastofnun hefur lánað Silfurstjörnunni 140 milljónir króna og hefur þar að auki lagt fram 20% hlutafjárins. Þá hefur Byggðastofnun lánað öðru fjölskyldufyrirtæki Stefáns, Fiskeldisþjónustunni, níu milljónir króna til að kaupa hlutafé í Silfurstjörnunni.

Þessi óráðsía og þetta siðleysi í meðferð opinberra peninga ætti að varða brottrekstri forstjóra og stjórnar Byggðastofnunar. En allir sitja þeir sem fastast í skjóli ríkisstjórnar, sem streitist svo við að sitja í hlýjunni, að hún hefur misst sjónar á hefðbundnum siðalögmálum.

Þá hefur forsætisráðherra tekið á ráðuneyti sitt að greiða stórfé í ólögleg mánaðarlaun til stjórnarformanns Silfurstjörnunnar fyrir að vera aðstoðarmaður Stefáns á þingmannsskrifstofu hans í Þórshamri. Þetta jafngildir opinberum stuðningi við átta manna þingflokk.

Peningalegur ribbaldaháttur einkennir ríkisstjórnina á ýmsan hátt. Hún hefur sprengt ramma pólitískra mannaráðninga. Forsætisráðherra og fjármálaráðherra hafa hvor um sig misnotað heimild til eins aðstoðarmanns til að ráða þrjá pólitíska kommissara hvor.

Ríkisstjórninni hefur samtals tekizt að verja hálfum þriðja milljarði króna úr ríkissjóði til ýmissa gæluverkefna og annarra útgjalda, sem engin heimild er fyrir í neinum lögum. Þetta er kallað hinu fína nafni “aukafjárveitingar á tungumáli siðspillingarinnar.

Verst er þó millifærslukerfið, sem ríkisstjórnin hefur eflt. Hún hefur komið á fót sjóðum, sem eiga að brenna tólf milljörðum í arðlausum rekstri á borð við pappírsfyrirtæki Stefáns Valgeirssonar. Þessir sjóðir eru undir stjórn sérfræðinga á borð við Stefán Valgeirsson.

Engri ríkisstjórn hefur miðað betur við að breyta stjórnmálum í baráttu um stóla og völd til að úthluta á kostnað skattgreiðenda nægtabrauði til gæludýra og annarra, sem leggjast niður við að væla út undanþágur og leyfi eða aðra fyrirgreiðslu skömmtunarkerfisins.

Mikilvægasta verkefni almennings á næstunni er að segja upp störfum formönnum flokka sinna og öðrum þeim, sem hafa gert landið að leikfangi ribbalda.

Jónas Kristjánsson

DV