Þverstæð þjóðarviðhorf

Greinar

Þótt mikill meirihluti þjóðarinnar sé andvígur landbúnaðarstefnunni og vilji njóta lægra verðs á búvöru, vill fólk samt ekki taka afleiðingum þeirrar skoðunar og leyfa innflutning ódýrari búvöru. Þessi þverstæða kom fram í skoðanakönnun Neytendasamtakanna.

Þótt 80% hinna spurðu hafi verið óánægð með landbúnaðarstefnuna, voru 70% á móti innflutningi búvöru. Eini ljósi punkturinn við þetta var, að andstaðan við innflutning var þó mun minni meðal fólks, sem er innan við fimmtugt, en þess, sem er fimmtugt eða eldra.

Margir virðast halda, að unnt sé að ná mun lægra verði á landbúnaðarafurðum, þótt innflutningur sé ekki leyfður. Það er hins vegar erfitt í raun, því að hefðbundinn landbúnaður verður alltaf afar dýr í rekstri á okkar slóðum á hnettinum, á jaðri freðmýrabeltisins.

Nokkuð má spara með því að draga svo úr landbúnaði, að ekki þurfi að greiða uppbætur með útflutningi. En þær upphæðir skipta litlu í samanburði við upphæðirnar, sem má spara með því að fá landbúnaðarafurðir, sem í eðli sínu er ódýrari en hinar íslenzku.

Ef skoðanir fólksins í skoðanakönnuninni eru leiddar til eðlilegrar niðurstöðu, mundu stjórnvöld hætta að greiða fyrir framleiðslu bænda og fara að greiða þeim föst laun í staðinn. Slíkur stuðningur hvetur ekki til framleiðslu eins og núverandi stuðningur gerir.

Á þessu mundi mikið sparast, því að töluvert ódýrara er að borga bændum laun fyrir að framleiða ekki búvöru heldur en að styrkja framleiðslu þeirra. Í síðara tilvikinu brennur mikið fjármagn í margvíslegum tilkostnaði, sem ekki er í fyrra tilvikinu.

Ekki er þá talinn sparnaðurinn, ef samdráttur búvöruframleiðslu leiddi til, að loka mætti fyrir sauðfé stórum landsvæðum, til dæmis Reykjanesi öllu, afréttum Mývetninga öllum, flestum afréttum Sunnlendinga og öðrum viðkvæmum og ofbeittum svæðum.

Stefna almennings, sem kemur fram í könnun Neytendasamtakanna, tekur þó ekki tillit til, að umtalsverður sparnaður næst ekki fyrr en á borð fólks kemur búvara, sem framleidd er við betri aðstæður en eru hér á landi eða unnt er að ná hérna. Það er erlendis.

Það er ekki vonzka bænda, heldur dýr framleiðslukostnaður, sem heldur uppi búvöruverði hér. Aldrei verður unnt með neinum töfrabrögðum að ná lágum framleiðslukostnaði á búvöru á borð við lambakjöt, smjör og osta. Ekki heldur með minni framleiðslu.

Þótt innflutningur búvöru kostaði 2,1 milljarð á ári, sparaði hann á móti 1,6 milljarð í aðföngum landbúnaðar. Mismunurinn er ekki nema hálfur milljarður á ári og er þá eftir að gera ráð fyrir, að taka megi upp gjaldeyrissparandi iðju í stað hefðbundins landbúnaðar.

Meðalstarf á Íslandi aflar gjaldeyris eða sparar hann fyrir tæpa milljón króna á ári. Ekki þurfa nema 500 bændur af um það bil 4000 að taka upp arðbær störf til að allt gjaldeyrisdæmið hér að ofan standi á jöfnu. Innflutningur búvöru kostar því í rauninni ekki gjaldeyri.

Innflutningur búvöru skerðir ekki matvælaöryggi okkar á tímum ófriðar eða annarrar hættu. Matarbirgðir þjóðarinnar verða meira en nægar í fiskvinnslustöðvum og vörugeymslum, þótt minna verði af gömlu kjöti og smjöri í geymslum vinnslustöðva landbúnaðarins.

Þegar þjóðin fellst loks á þessi sjónarmið innflutningsfrelsis, verður fyrst hægt að snúa vörn í sókn í lífs kjörum okkar og tryggja varanlega búsetu í landinu.

Jónas Kristjánsson

DV