Einn hengdur fyrir alla

Greinar

Athyglisvert er, að vörn utanríkisráðherra fyrir losaralegri umgengni við ódýrt ríkisáfengi byggist að verulegu leyti á, að gerðir hans sjálfs séu ekki einsdæmi, heldur hafi aðrir ráðherrar, bæði fyrr og síðar, gert sig seka um hliðstæð mistök í meðferð ríkisáfengis.

Í rauninni felst gagnsókn í vörninni. Hann óskar eftir, að ríkisendurskoðunin og yfirskoðunarmenn ríkis reikninga geri hreint fyrir sínum dyrum. Hann vill, að öll hliðstæð tilvik séu lögð á borðið og að þessir aðilar útskýri, af hverju þau séu leyfilegri en hans tilvik.

Þetta er alveg rétt hjá utanríkisráðherra. Brýnt er að moka flórinn í eitt skipti fyrir öll og ekki gera hann einan að blóraböggli þess þriðja heims siðferðis, sem tíðkast hefur allt of lengi meðal landsfeðra okkar og að mestu leyti verið látið óátalið til þessa.

Ekki er sjáanlegur eðlismunur á kostnaði skattgreiðenda við afmæli Ingólfs Margeirssonar og á kostnaði þeirra við hóf, sem aðrir ráðherrar hafa af ýmsu tilefni haldið flokksbræðrum sínum og vildarvinum eða látið skattgreiðendur taka þátt í að greiða.

Ólafur Ragnar Grímsson bauð Lúðvík Jósepssyni og öðrum flokksbræðrum: Friðrik Sophusson bauð bekkjarbræðrum sínum úr menntaskóla, og Halldór Ásgrímsson bauð oftar en einu sinni framsóknarmönnum til hófs, svo að nokkur kunn dæmi séu nefnd.

Ef reynt verður í alvöru að koma þessum málum í lag, þarf margs að gæta. Í fyrsta lagi er nauðsynlegt að framvegis verði aðeins eitt verð á víni, útsöluverð í áfengisverzlunum. Sérstakt ríkisverð, sem er mun lægra, kallar á misnotkun, svo sem dæmin sanna.

Í öðru lagi verður að láta risnu ríkisins falla í fastan farveg, hvort sem um er að ræða úttektir í áfengisverzlun ríkisins, reikninga frá veitingahúsum eða uppgjör frá veizlusölum, sem ríkið rekur sjálft. Tilefni risnunnar og gestalista ber að skrá nákvæmlega hverju sinni.

Þetta tvennt mundi án efa draga talsvert úr spillingunni. Möndl með skil á lánuðu ríkisvíni mundi verða illframkvæmanlegt, svo að dæmi sé nefnt. Sömuleiðis akstur úr Ríkinu með litlar og stórar vínbirgðir heim til ráðherra til meira eða minna óljósrar notkunar.

Í þriðja lagi kemur svo það, sem mest hefur verið talað um, að sett verði skýr mörk milli risnu ráðherra vegna stöðu sinnar sem ráðherra annars vegar og hins vegar risnu þeirra sem stjórnmálamanna og flokksforingja eða sem hverra annarra einstaklinga.

Risnu ríkisins á ríkið að greiða, risnu stjórnmálaflokkanna eiga stjórnmálaflokkarnir að greiða og risnu einstaklinganna eiga einstaklingarnir að greiða. Ráðherrar mega ekki rugla saman persónu sinni og flokksböndum annars vegar og ríkinu hins vegar.

Þessu fylgir, að ríkið á ekki að borga risnu fyrir ráðherra vegna svonefndra vinnufunda, morgunfunda, hádegisfunda eða annarra samkvæma með pólitískum samherjum, svo sem í þingflokkum, flokksstjórnum, kjördæmahópum eða á flokksþingum og ráðstefnum.

Þessu fylgir líka, að ríkið á ekki að borga risnu fyrir ráðherra vegna afmæla eða annarra tímamóta í ferli pólitískra samherja, vina og vandamanna eða vegna afmæla eða tímamóta á eigin ferli. Slík samkvæmi eiga ekki að varða ríkið frekar en pólitísku samkvæmin.

Ráðherrar, ríkisendurskoðun og yfirskoðunarmenn ríkisreikninga þurfa að taka sig betur á en að hengja bara utanríkisráðherra til friðþægingar út á við.

Jónas Kristjánsson

DV