Málamynda-kveinstafir

Greinar

Þegar lækka þarf kaupmátt í landinu með handafli eða vinna önnur óvinsæl verk, er hagkvæmt, að Alþýðubandalagið sé báðum megin við borðið. Þetta sýna viðbrögð stærstu samtaka launþega í landinu við vanefndum ríkisstjórnarinnar á tólf loforðum frá í apríl.

Oft hafa Alþýðusambandið og Bandalag starfsmanna ríkis og bæja rekið upp hærri kveinstafi og gripið til róttækari aðgerða af minna tilefni en því, að almennt verðlag hefur hækkað um 3,3% umfram laun frá því að gengið var frá samningum í vor, fyrir hálfu ári.

Ríkisstjórnin er komin nærri hálfa leið að því mark miði sínu að skerða kaupmátt um 7% á þessu ári. Markmiðið birtist í fjárlagafrumvarpi og þjóðhagsáætlun fyrir þetta ár og var ítrekað í nýrri þjóðhagsspá eftir samningana í vor. Þetta er hornsteinn tilvistar stjórnarinnar.

Eitthvað verður undan að láta, þegar ríkisstjórn stefnir jafnmarkvisst að brennslu verðmæta og þessi gerir. Einhverjir verða að borga, þegar stofnaðir eru milljarðasjóðir til að þeyta sáðkorni fjármagns í grýtta jörð gæludýra innan og utan við byggðastefnu.

Auðvitað borgar alþýðan, bæði sú, sem nú á óbeina aðild að áðurnefndum heildarsamtökum, og sú, sem enn er ófædd og á eftir að fást við erlendu skuldirnar, sem gjafmildir ráðherrar hafa stofnað til. Þess vegna er mikilvægt, að alþýðan haldi kjafti, svo að friður ríki.

Alþýða manna verður að átta sig á, að gæludýrin hafa forgang. Ríkisstjórnin heldur fullum dampi á milljarðaútgjöldum til hefðbundins landbúnaðar og hefur bætt við öðrum eins milljarðaútgjöldum til ævintýra á borð við Silfurstjörnu Stefáns Valgeirssonar.

Ef forustulið Alþýðusambandsins og Bandalags starfsmanna ríkis og bæja hefði tilfinningasnauðari taugar í garð Alþýðubandalagsins, hefði það ekki tekið gild loforð ríkisstjórnarinnar við undirritun kjarasamninganna í apríl í vor. En þetta er agað lið og hlýðið.

Formaður bandalags opinberra starfsmanna kvartaði að vísu í haust og sagði við DV: “Það fer mest fyrir brjóstið á mér, að þegar gerðir eru samningar af félagslegri sanngirni og þjóðfélagslegri ábyrgð, skuli þeir samningar ekki virtir. Það vekur hjá manni reiði.”

Þá hefur Alþýðusambandið sent ríkisstjórninni kveinibréf, þar sem spurt er, hvers vegna aðeins hafi verið efnd fjögur loforð af tólf frá kjarasamningunum í vor. Þessi kvörtunarefni hafa síðan verið reifuð með Þjóðhagsstofnun og efnahagsráðgjafa stjórnarinnar.

Annar af tveim helztu málfundamönnum ríkisstjórnarinnar hefur svarað fullum hálsi, enda óþarft af formönnum úti í bæ að vera að amast við ríkishöfðingjum. Hann hélt fund með fréttamönnum og sagðist hafa staðið við gefin loforð við samtök launamanna.

Aldrei þessu vant var sannleikskorn að baki gagnsókn ráðherrans. Unnt er að finna 71 lágtekjumann í Bandalagi starfsmanna ríkis og bæja, sem fékk meiri kjarabót í samningunum í vor en sem nemur verðhækkunum síðan. Þetta eru tæplega 1% félagsmanna.

Samkvæmt rökfræði, sem kennd er við hunda, ber ráðherrann sér á brjóst og segist hafa gert gott betur en að efna loforðið handa hinum lægstlaunuðu. Og satt að segja gleymdu viðsemjendur hans í vor að láta skilgreina nánar, hversu stóran hóp ætti að vernda.

Með ári hverju lækkar gengi munnlegra og skriflegra loforða ráðherra og annarra höfðingja. Sumir kvarta eins og áðurnefndir formenn, mest fyrir siðasakir.

Jónas Kristjánsson

DV