Kreppusmiður

Greinar

Heimasmíðaða kreppan er smám saman að herðast. Atvinnuleysi síðasta mánaðar var þrefalt meira en í fyrra og fjórfalt meira en meðaltal áratugarins. 1500 einstaklingar og fyrirtæki urðu gjaldþrota í Reykjavík einni á fyrstu þremur fjórðungum þessa árs.

Vetrarhorfurnar eru enn dekkri. Könnun Þjóðhagsstofnunar bendir til, að fyrirtæki hyggist draga enn saman seglin í vetur. Þau ætla ýmist að segja upp starfsfólki eða ráða ekki fyrir þá, sem hætta störfum. Félag iðnrekenda býst við 3% atvinnuleysi á næsta ári.

Við erum af eigin rammleik að feta okkur inn á slóð, sem við þekkjum lítið hér á landi, en vitum af í útlöndum, þar sem laus störf eru færri en umsækjendur. Bráðum kynnumst við ýmsum hörmulegum hliðarvandamálum varanlegs atvinnuleysis hjá ungu fólki.

Við viljum gjarna losna við þessa vofu gjaldþrota og atvinnuleysis. Við höfum raunar búið við ákjósanleg skilyrði til að halda áfram langri göngu okkar undir merkjum fullrar atvinnu, en ekki borið til þess gæfu. Ólán okkar kemur allt að innan. Það er miðstýrt.

Við höfum ekki orðið fyrir neinu áfalli á erlendum markaði. Verðgildi afurða okkar er hátt og traust og kaupendur eru nægir. Við höfum ekki heldur orðið fyrir neinu áfalli í aflamagni. Niðurskurður á veiðikvóta byrjar ekki fyrir alvöru fyrr en á næsta ári.

Vegna aðgangshörku okkar að fiskistofnum á allra síðustu árum verðum við á næsta ári að minnka veiðikvóta um tíu af hundraði eða því sem næst. Þegar sá vandi bætist við þann, sem nú er að hrannast upp, má búast við, að kreppan taki snöggan kipp til hins verra.

Það er ríkisstjórnin, sem hingað til hefur smíðað kreppuna með handafli. Hún hefur látið eins og nógir peningar séu til gæluverkefna af ýmsu tagi. Með Atvinnutryggingar- og Hlutafjársjóði hefur hún byggt upp umfangsmikið kerfi félagslegrar velferðar fyrirtækja.

Þessir sjóðir hafa þokað málum í öfuga átt við það, sem til var ætlazt. Þeir hafa brennt allmarga milljarða af fjármagni, er betur hefðu verið komnir í höndum þeirra, sem eru færir um að borga markaðsvexti, af því að þeir eru með arðbæran rekstur á sínum snærum.

Þessi milljarðabrennsla fjármuna í gæludýrakerfi félagslegrar velferðar fyrirtækja bætist ofan á árlega milljarðabrennslu, sem fyrir var í hinum hefðbundna landbúnaði. Reikna má með, að í þessu tvennu brenni ríkisstjórnin samtals um 15 milljörðum á ári.

Um leið hefur ríkið sjálft gerzt aðgangsharðara á lánamarkaði. Það hefur sjálft yfirboðið markaðinn, en jafnframt haldið niðri vöxtum hjá öðrum. Afleiðingin hefur verið sú, að ekkert nýtt sparifé hefur bætzt við í lánastofnunum, síðan kreppustjórnin tók við völdum.

Ríkisstjórninni stýrir formannaþrenning, sem hefur ekki hinn minnsta skilning á fjármálum og er raunar fær um að gera heilt sólkerfi gjaldþrota, ef hún fengi til þess færi. Þar á ofan hafa forsætisráðherra og fjármálaráðherra ráðið sér vanhæfa efnahagsráðunauta.

Í þrjá áratugi hefur ekki verið önnur eins ofstjórn handafls- og vankunnáttumanna og þjóðin hefur mátt þola síðasta árið. Áður hafa verið hliðstæð ríkisstjórnarmynztur, án þess að þáverandi ráðherrar hafi hagað sér eins og forsætisráðherra og fjármálaráðherra gera nú.

Það er ríkisstjórnin, sem er að smíða kreppuna, gjaldþrotin og atvinnuleysið. Og kreppan á eftir að versna, áður en kreppusmiðurinn skilar af sér með skömm.

Jónas Kristjánsson

DV