Fíkniefnaverzlun ríkisins

Greinar

Dómsmálaráðherra Kólumbíu sagði nýlega af sér vegna hótana fíkniefnafursta um að drepa hana. Þessar hótanir eru liður í atlögu þeirra að lögmætum stjórnvöldum í Kólumbíu, sem eru að reyna að ná lögum yfir þá, en hafa hingað til náð afar litlum árangri.

Styrjaldarástandið í Kólumbíu sýnir, að fíkniefnafurstar eru orðnir svo voldugir, að stjórnvöld fá ekki við neitt ráðið, jafnvel þótt þau séu öll af vilja gerð. Dómarar og stjórnmálamenn, blaðamenn og borgarstjórar eru drepnir, ef þeir amast við furstunum.

Aðstoð frá Bandaríkjunum hefur hingað til ekki gert stjórnvöldum í Kólumbíu kleift að ná undirtökum í baráttunni við fíkniefnin. Furstarnir hafa meira að segja flutt hluta baráttunnar á bandarískan heimavöll með hótunum um að ryðja Bandaríkjaforseta sjálfum úr vegi.

Ólögleg fíkniefni eru að breiðast út í Bandaríkjunum eins og raunar víðast hvar í heiminum. Samt hefur fjármagn til baráttunnar gegn þeim verið þrefaldað þar vestra á fáum árum, dómum í fíkniefnamálum fjölgað um 161% og dómarnir í þeim þyngzt að marki.

Ástandið minnir í mörgu á bannárin í Bandaríkjunum, þegar ítalska mafían ruddist til valda í skjóli þess, að menn töldu sig neydda til að komast yfir áfengi með ólöglegum hætti, úr því að það fékkst ekki löglega. Banninu fylgdu hinir illræmdu glæpir mafíusögunnar.

Með banni áfengis tókst að draga úr skaðlegum áhrifum áfengisneyzlu, en það var of dýru verði keypt, því að það hleypti glæpaöldu mafíunnar af stað. Nú stríða stjórnvöld við afleiðingar áfengisneyzlu, en eru að mestu laus við glæpi, sem tengjast áfengissölu og -dreifingu.

Flestir telja fávíslegt að hverfa aftur til bannáranna. Áfengisvandamál á Vesturlöndum hafa náð eins konar jafnvægi, þótt enn sé of lítið gert af því að nota hluta af áfengisgróða ríkisvaldsins til að fræða fólk um skaðsemi áfengis og áhættuna, sem fylgir notkun þess.

Á síðustu mánuðum hefur aukizt fylgi þeirri skoðun, að betra sé að höggva að rótum ólöglega sölukerfisins með því að afnema fíkniefnabann, eins og áfengisbannið var afnumið á sínum tíma. Þar með verði stólnum kippt undan valdi fíkniefnafursta um allan heim.

Fremstir í flokki þessa sjónarmiðs eru leiðarahöfundar brezka tímaritsins Economist, sem hingað til hefur ekki lagt sérstaka rækt við róttækar skoðanir. Þeir telja, að aukin fíkniefnanotkun verði minni og viðráðanlegri vandi en glæpirnir, sem fylgja ólöglegri dreifingu.

Sama sinnis eru ýmsir borgarstjórar í Þýzkalandi, Hollandi og Sviss og áhrifamiklir einstaklingar á borð við forseta Réttarfarsstofnunarinnar í Bandaríkjunum. Enn eru þeir þó í miklum minnihluta. Flestir áhrifamenn eru algerlega andvígir slíkum hugmyndum.

Þeir, sem vilja leyfa sölu fíkniefna, til dæmis í ríkisverzlunum, vilja, að tekjum hins opinbera af fíkniefnasölu verði að hluta varið til fræðslu og meðferðar og einkum til að vara fólk við notkuninni. Þetta er í stórum dráttum svipað og nú gildir um tóbak og áfengi.

Búast má við, að þessari minnihlutaskoðun aukist fylgi, ef veldi fíkniefnifursta fer enn vaxandi, ef þeim tekst að halda heilum þjóðfélögum í gíslingu, ef löggæzlu Vesturlanda mistekst að halda niðri glæpum, sem tengjast ólöglegri dreifingu og sölu fíkniefna.

Furstarnir hafa skákað ríkisvaldinu í Kólumbíu og eru allsráðandi í fjölda fátækrahverfa í Bandaríkjunum. Einhvern tíma munu þeir líta augum til Íslands.

Jónas Kristjánsson

DV