Farandráðherrar

Greinar

Vegna skorts á aðhaldi af hálfu fjölmiðla komast ráðherrar enn upp með að láta skattgreiðendur greiða sér tvöfalt fyrir ferðalög. Ráðherrar láta greiða sér dagpeninga, sem eru meiri en annarra. Síðan láta þeir að auki greiða fyrir sig allan kostnað af ferðalögum.

Þetta þýðir, að reikningar, sem ráðherrar leggja fram vegna ferðalaga sinna, nægja til að greiða kostnað þeirra af þessum ferðalögum. Hinir ríflegu dagpeningar eru ofan á þetta. Þeir eru því hreinn kaupauki, sem þar að auki fær fremur milda skattameðferð.

Athyglisvert er, að ráðherrar eru einnig á þessum sérkennilegu kjörum, þegar þeir eru í ferðum, sem koma ekki við ráðherrastarfi þeirra, heldur starfi þeirra sem formanna eða framámanna í stjórnmálaflokkum. Þannig ferðast forsætisráðherra fyrir Framsóknarflokkinn.

Þetta stangast á við almennt siðferði á Vesturlöndum. Venja er að gera greinarmun á mismunandi hlutverki manna. Steingrímur ráðherra má ekki greiða fyrir Steingrím formann eða Steingrím afmælisbarn. Um þetta hefur verið fjallað í brennivínsumræðunni.

Steingrímur Hermannsson hefur afsakað misnotkun sína á ferðapeningum ríkisins með því, að stjórnmálamenn í Bandaríkjunum ferðist í flokkserindum fyrir almannafé. Hann hefur hins vegar ekki lagt til, að hér fái stjórnarandstaðan sömu fríðindi og ráðherrarnir.

Athyglisvert er, að stjórnvöld hafa hert reglur um skattlagningu ferðapeninga þess fólks, sem ekki er í hópi ráðherra. Ef ferðapeningar fara fram úr ákveðinni upphæð, sem er ekki nema brot af því, sem ráðherrar fá, þurfa menn að greiða skatt af mismuninum.

Ýmislegur munur Jóns og séra Jóns minnir á Austur-Evrópu, þar sem önnur lög hafa gilt um ráðamenn en venjulegt fólk. En þar eystra er óðum verið að höggva þessa tegund spillingar, sem Steingrímur Hermannsson ver í opnuviðtali við málgagn sitt um helgina.

Tvöföldu greiðslurnar á ferðum ráðherra eru ekkert annað en tilraun gráðugra manna til að komast yfir meiri peninga en sem svarar kaupi þeirra. Að því leyti eru ráðherrar svo sem ekki spilltari en ýmsir aðrir landsmenn, sem gæla við svipaðar hugmyndir fyrir sig.

Steingrímur Hermannsson veit, að siðferði hans er svipað og siðferði margra annarra landsmanna. Þess vegna telur hann sig sæmilega öruggan um að geta kvartað um, að fjölmiðlar gefi ranga mynd með skrifum um stjórnmálamenn sem varhugaverða skúrka.

Fjölmiðlar gefa ekki rétta mynd af stjórnmálamönnum. En skekkjan í fjölmiðlunum er ekki í þá átt, sem Steingrímur segir. Hún er í hina áttina. Stjórnmálamenn okkar eru því miður margir hverjir varhugaverðir og siðlitlir, án þess að fjölmiðlar segi nægilega frá því.

Ástæðan er sumpart sú, að fjölmiðlar sæta ákúrum fólks fyrir að segja skítugar staðreyndir. Skíturinn, sem fjölmiðlar segja frá, nuddast utan í þá sjálfa. Fjölmiðlar eru taldir velta sér í svaðinu. Þetta er afbrigði aldagamallar staðreyndar, að sögumanni er kennt um ótíðindin.

Því eru fjölmiðlar dasaðir eftir uppljóstranir um ráðherrabrennivín. Fjölmiðlar hafa verið skammaðir og treystast ekki til að fara aftur ofan í ræsið til ráðherra til að segja frá græðgi þeirra í ferðapeninga. Þeir óttast, að tvískinnungsþjóð vilji ljá farandráðherrum frið.

Það breytir ekki því, að það eru ráðherrar, sem liggja í ræsinu fyrir tilstuðlan kjósenda, og að það eru meinlausir fjölmiðlar, sem þora ekki að fá sletturnar á sig.

Jónas Kristjánsson

DV