Papa, Gandhi, Salinas…

Greinar

Búizt er við, að tæplega þriðjungur Grikkja muni kjósa flokk Andreas Papandreou í þingkosningunum í nóvember, þótt komizt hafi upp um ógeðfelld og ólögleg vinnubrögð hans sem forsætisráðherra Grikklands í átta ára stjórnartíð hans, sem lauk í sumar.

Jafnvel er talið hugsanlegt, að honum takist að mynda ríkisstjórn með kommúnistaflokknum, þótt siðferðilega og lagalega sé hann með allt á hælunum. Upplýst er, að hann lét hlera símtöl stjórnmálaandstæðinga, blaðamanna, ráðherra sinna og meira að segja kærustunnar.

Margir Grikkir halda áfram að kjósa Papandreou, þótt reynslan sýni, að hann tróð sínum vinum og flokksbræðrum í allt að níu stjórnunarstöður af hverjum tíu hjá ríkinu og misnotaði ríkissjónvarpið svo heiftarlega, að slíkt þekkist ekki lengur austan járntjalds.

Andreas Papandreou þykir maður með mönnum í Grikklandi, þótt hann hafi tekið þátt í banka- og blaðaútgáfusvindli með alþjóðlegum glæpamanni, George Koskotas, sem stal sem svarar 13 milljörðum króna af grískum banka og lét hluta renna til Papandreous.

Rannsókn bendir til, að sem svarar 36 milljónum króna af þýfi Koskotas hafi lent í klóm Papandreous. Sjálfur heldur Koskotas því nú fram, að rúmlega milljarður króna hafi lent hjá forsætisráðherranum, en ekki hafa fundizt sönnunargögn því til stuðnings.

Indverjar kjósa um svipað leyti og Grikkir. Reiknað er með, að um þriðjungur þjóðarinnar muni kjósa flokk Rajivs Gandhi forsætisráðherra, þótt hann sé siðferðilega og lagalega með allt á hælunum á svipaðan hátt og félagi hans, Andreas Papandreou í Grikklandi.

Komið hefur í ljós í Svíþjóð, að einn helzti kaupmaður dauðans í heiminum, sænska vopnaverksmiðjan Bofors, greiddi ýmsum stuðningsmönnum Gandhis og áhrifamönnum í stjórn Indlands sem svarar um hálfum þriðja milljarði íslenzkra króna í mútur.

Ef málið hefði ekki komizt upp, hefði klíkan í kringum Gandhi fengið alls sem svarar fimm milljörðum íslenzkra króna, því að umsömdum mútugreiðslum var þá ekki lokið. Komið hefur í ljós, að Bofors og indverska ríkisstjórnin reyndu saman að hindra uppljóstrunina.

Ekki er vitað, hvort eitthvað af þessu fé fór til Gandhis sjálfs. Ef hann heldur völdum, kemur það sjálfsagt aldrei í ljós. En alltaf er að koma betur og betur fram, að hann er brenndur svipuðu marki og Papandreou, gráðugur og kærulaus og einstaklega ósvífinn.

Gandhi ofsækir dagblöð, sem segja frá mútunum. Hann lætur neita þeim um innflutningsleyfi fyrir pappír og lætur höfða innihaldslaus mál gegn þeim fyrir fjárglæfra. Hann þvingar fyrirtæki, sem eiga hlutabréf í blöðunum, til að reyna að láta reka óþæga ritstjóra.

Um allan heim eru dæmi af þessu tagi. Gerspilltir stjórnmálamenn njóta töluverðs fylgis meðal þjóða, þótt hin alþjóðlega fjölmiðlun hafi komið upp um sumt af framferði þeirra. Víða beinist reiði fólks meira að fjölmiðlum, sem segja satt, heldur en að glæpamönnunum.

Þannig heldur glæpaflokkur Salinas de Gortari völdum í Mexíkó með því að leggja saman annars vegar þriðjungs fylgi með þjóðinni og hins vegar skipulegt kosningasvindl. Verst er, að í flestum tilvikum komast stjórnmálamenn upp með opinskátt siðleysi sitt.

Ástandið á Íslandi er betra, en samt ekki nógu gott. Ómerkilegir peningasukkarar í stjórnmálum njóta töluverðs almannafylgis, þótt þeir hafi allt á hælunum.

Jónas Kristjánsson

DV