Græðgi í pólitíkinni

Greinar

Ronald Reagan, fyrrum Bandaríkjaforseti, hefur að undanförnu verið í Japan að selja sig og virðingartitil sinn. Hann fékk sem svarar 124 milljónum króna til að koma þar fram og láta hafa við sig blaðaviðtöl. Í heild kostar ferð hans Japani rúmar 430 milljónir króna.

Á sama tíma og Reagan var opinberlega að verja kaup japanska fyrirtækisins Sony á bandaríska kvikmyndafélaginu Columbia, voru fulltrúar Sony og fleiri japanskra fyrirtækja á fundi um, hvort gefa ætti nokkra milljónatugi til bókasafns forsetans fyrrverandi. Ronald

Reagan er óvenjulega mikill siðleysingi í stétt stjórnmálamanna. Hann er ekki bara siðlaus sjálfur, heldur safnaði hann á valdaárunum um sig fjölmennri hirð siðleysingja. Enn er verið að rekja ofan af ævintýralegum þjófnaði hans manna í húsnæðismálastjórn.

Það einkenndi hirðmenn Reagans að þeir notuðu fyrsta tækifæri til að gera sér mat úr virðingarstöðum sínum. Michael Deaver stofnaði fyrirtæki til að selja aðgang að ráðamönnum í Hvíta húsinu. Donald Regan skrifaði bók með rógi um fyrrverandi yfirmann sinn.

Einkennistákn valdaferils Reagans var æðsti stjórnsýslumaður laga og réttar í landinu, Edwin Meese dómsmálaráðherra. Hann var allan sinn tíma sjálfur á kafi í margvíslegri spillingu og þar fyrir utan önnum kafinn við að hindra, að lögum yrði komið yfir hirðmennina.

Spillingin hefur haldið áfram með nýjum forseta, en hún hefur breytt um svip. Það eru ekki þjófnaðir og fjárglæfrar, sem einkenna George Bush og menn hans, heldur óvenjulega mikið siðleysi í notkun ímyndafræðinnar við að ata auri pólitíska andstæðinga.

Tveir helztu ruddar kosningabaráttunnar síðustu hafa verið verðlaunaðir í forsetatíð George Bush. Annar kosningastjórinn, James Baker, er orðinn utanríkisráðherra og hinn, Lee Atwater, er orðinn flokksformaður. Baker flýgur raunar um heiminn eins og fínn maður.

Rotnunin hófst á sínum tíma með Richard Nixon, sem smám saman varð innilokaður í þröngum hring siðleysingja. Nixon hefur þó á síðari árum gert margt til að rétta aftur stöðu sína í sagnfræðinni. Hann léti sér ekki detta í hug að haga sér eins og Reagan í Japan.

Gerald Ford var lærifaðir Reagans í tilraunum til að gera sér fjárhagslegan mat úr því að hafa verið forseti. Hann notar fjölmennt starfslið, sem kostað er af almannafé, til að útvega sér peninga fyrir að halda ræður og mæla með hinu og þessu, svo sem fasteignabraski.

Alger andstæða þessara gráðugu manna er Jimmy Carter, sem neitar þátttöku í fjárplógsstarfsemi og ver tíma sínum til mannúðarmála. Hann reynir að halda virðulegri minningu forsetatíðar sinnar á lofti, enda eru menn smám saman að átta sig á sögulegu gildi hans.

Að baki siðferðisvanda bandarískra forseta og margra annarra stjórnmálamanna þar í landi er óvenjuleg græðgi, annaðhvort í peninga eða völd, í báðum tilvikum með öllum tiltækum aðferðum, þar á meðal siðlausum. Ríkisvaldið er notað til að fullnægja þessari græðgi.

Á Vesturlöndum hefur verið reynt að hafa hemil á græðgi af þessu tagi. Í þriðja heiminum leikur hún hins vegar lausum hala, enda er aðhald þar minna og vald miklu meira þjappað saman á einum stað. Hér á landi vottar fyrir græðgi, einkum í kringum sjóði ríkisins.

Við þurfum að vera vel á verði gegn þeirri skoðun, sem hefur breiðzt út í Bandaríkjunum og frá þeim, að flest sé leyfilegt í pólitísku braski með auð og völd.

Jónas Kristjánsson

DV