Nýtt ráðuneyti verklítið

Greinar

Ríkisstjórnin er í þann veginn að gera nýja umhverfisráðuneytið óþarft með því að kippa mikilvægustu verkefnunum undan því og halda þeim hjá hagsmunaaðilum, sem áratugum og öldum saman hafa spillt náttúru Íslands, í seinni tíð með aðstoð landbúnaðarráðuneytis.

Verðandi umhverfisráðherra segist ekki hafa áhyggjur af þessu, enda er hann ekki áhugamaður í umhverfismálum. Hann telur sig hafa öðrum hnöppum að hneppa í Hagstofunni, skipasmíðum og norrænu samstarfi. Hann segist óttast, að umhverfisverkefnin verði of stór.

Framsóknarflokkurinn hefur undanfarna mánuði verið að grafa undan umhverfisráðuneytinu. Nú síðast hefur forsætisráðsherra og formaður Framsóknarflokksins sagt, að hann telji landgræðslu og skógrækt bezt komið fyrir sem fyrr í landbúnaðarráðuneytinu.

Þessi hættulega skoðun þarf raunar ekki að koma á óvart. Framtíðar- og óskhyggjunefnd á vegum forsætisráðherra hélt því blákalt og grínlaust fram um daginn, að Ísland hefði svo góðan orðstír í umhverfismálum, að gera mætti landið að alþjóðamiðstöð þeirra.

Staðreyndin er hins vegar sú, að frá upphafi Íslandsbyggðar hefur hver landsmaður, núlifandi og áður lifandi, eytt sem svarar einum fermetra gróðurs á hverju einasta ári að meðaltali. Við erum án efa nálægt heimsmeti nokkurra Afríkuþjóða í eyðingu umhverfis.

Þrátt fyrir eldgos og frostavetur var Ísland viði vaxið milli fjalls og fjöru og meira að segja vaxið saman um Kjöl, áður en landnámsmenn komu til skjalanna með sauðfé sitt. Okkur og forverum okkar hefur svo tekizt að breyta miklum hluta hálendisins í hreina eyðimörk.

Ætlunin með umhverfisráðuneytinu var að feta í fótspor annarra vestrænna ríkja, sem eru farin að taka slík mál mun fastari tökum en áður. Veigamikill liður viðleitninnar felst í að taka ábyrgðina af verndun umhverfis frá hagsmunaráðuneytum mengunarvalda.

Það kemur sí og æ í ljós, að landbúnaðarráðuneytið gætir hvorki hagsmuna þjóðarinnar né ríkisins. Það stundar hreinræktaða hagsmunagæzlu fyrir búskap með kýr og kindur. Það höfðar meira að segja vonlaus mál gegn þeim, sem gagnrýna landbúnaðarstefnuna.

Ein afleiðingin er, að Landgræðsla ríkisins telur verkefni sitt felast í að útvega beitiland fyrir sauðfé. Hún lætur gróðureyðingarlið vaða uppi, svo sem í Mývatnssveit og afréttum Mývetninga. Hún höfðar ekki mál gegn þeim, sem hleypa sauðfé í landgræðslugirðingar.

Landgræðsla ríkis hefur verið undir húsaga hjá landbúnaðarráðuneytinu og þar með hagsmunaaðilum gróðurspillingar. Með því að hindra flutning hennar yfir í umhverfisráðuneyti er Steingrímur Hermannsson að tryggja hagsmuni, sem eru andstæðir gróðurverndun.

Ráðherrar Alþýðubandalagsins, með ráðherra landbúnaðarmála í broddi fylkingar, hafa tilhneigingu til að yfirbjóða Framsóknarflokkinn í hagsmunum hins hefðbundna landbúnaðar. Þeir styðja hugmyndina um, að umhverfismálin fari ekki í umhverfisráðuneytið.

Þegar svo við bætist, að verðandi ráðherra umhverfismála ber við önnum og hefur lítinn sem engan áhuga á að fá hin raunverulegu umhverfismál í nýja ráðuneytið, er ekki við að búast, að hin upprunalega hugmynd um alvöruráðuneyti umhverfismála nái fram að ganga.

Með marklausu umhverfisráðuneyti er ríkisstjórnin í þann mund að breyta einu mesta framfaramáli þjóðarinnar í skrípaleik, eins konar Þjóðarbókhlöðumál.

Jónas Kristjánsson

DV