Álver örvæntingar

Greinar

Í hvert sinn sem erlent álfyrirtæki hefur helzt úr lestinni í svokölluðum Atlantal-hópi, hefur iðnaðarráðherra túlkað það sem hálfgerðan sigur og bent á fyrirtækin, sem eftir voru í hópnum. Fyrst voru þau fjögur, en nú eru þau orðin tvö. Og alltaf er ráðherrann bjartsýnn.

Rekstur þessa máls er farinn að mótast af örvæntingu. Iðnaðarráðherra og ríkisstjórnin telja nauðsynlegt fyrir sig, að framkvæmdir við orkuver og álver hefjist strax á þessu ári. Nýtt álver er eina vonin um að lina þjáningar af kreppunni, sem staðið hefur í tvö ár.

Ekki hefur enn fundizt kaupandi að orku versins við Blöndu, sem er langt komið. Nýtt álver mundi leysa þann vanda og einnig kalla á stórvirki í Fljótsdal austur á Héraði og aukningu við Búrfell. Í stað 2­3% atvinnuleysis kæmi rífandi atvinna í landinu í þrjú eða fjögur ár.

Með nokkurri aðstoð næstsíðustu ríkisstjórnar hefur þessari ríkisstjórn tekizt að kaffæra atvinnulífið svo mjög í miðstýringu og fyrirtækjavelferð, að hér verður varanleg sérkreppa fyrir Ísland, nema reist sé svo sem eitt 200 þúsund tonna álver á nokkurra ára fresti.

200 þúsund tonna álver er næstum sjö sinnum stærra en Ísal var í upphafi. Það er svo stórt, að ál yrði þriðjungur allra útflutningstekna Íslendinga, ef það seldist allt. Við erum þess vegna komin með mjög mörg egg í eina körfu, ef álver Atlantal-hópsins verður reist.

Álverð er einstaklega sveiflukennt, svo sem við höfum áþreifanlega reynt, því að orkuverð til Straumsvíkur hefur verið háð heimsmarkaðsverði á áli. Með 200 þúsund tonna álveri verða sveiflurnar svo djúpar, að þær munu framkalla sífellda óvissu í efnahagslífinu.

Svo illa getur efnahag þjóðarinnar verið komið, að betra sé að stóla á ótryggt orkuverð og álverð en ekki neitt. En málið er komið í miklu alvarlegri stöðu, þar sem fyrirtækin tvö, er eftir sitja í Atlantal-hópnum, treysta sér ekki ein í dæmið án aðildar ríkisins.

Ef íslenzka ríkið gerist þriðjungs eignaraðili að fyrirhuguðu álveri, er verið að færa efnahagslífið hér á landi í átt til Albaníu á sama tíma og ríki Austur-Evrópu eru á hröðum flótta undan ríkisþátttöku í atvinnurekstri. Við verðum eitt mest miðstýrða land álfunnar.

Eignaraðild ríkisins mun kosta börnin okkar, skattgreiðendur framtíðarinnar, 15­20 milljarða króna á núverandi verðlagi ofan á þá 45 milljarða, sem orkuverin og orkuflutningurinn munu kosta. Miklu minni og ótryggari arður er af eignaraðildinni en orkusölunni.

Þar að auki munu byggðastefnumenn krefjast þess, að ríkið leggi fram að gjöf nokkra milljarða króna til að brúa hagkvæmnisbilið milli Straumsvíkur og Eyjafjarðar, svo að erlendu eignaraðilarnir fáist til að reisa álverið fyrir norðan. Slíkar kröfur sigra yfirleitt.

Óséð er, hvaðan embættismönnum á að koma einkarekstrarvit og markaðsástríða til að fá súrál og rafskaut á lægsta verði og til að selja ál á hæsta verði. Líklegt er, að úr þessu verði rugl á borð við ríkisrekstur. Ríkið á ekki að koma nálægt svona sérhæfðum áhætturekstri.

En ráðherrarnir sjá, að eignaraðild aflar málinu fylgis í Alþýðubandalaginu og að Eyjafjörður aflar því fylgis byggðastefnumanna. Ráðherrarnir eru ekki að hugsa um þjóðarhag til langs tíma, heldur hvernig þeir geti mætt í næstu kosningar án kreppu og atvinnuleysis.

Verst er þó, að augljós örvænting ríkisstjórnarinnar eyðileggur samningsaðstöðuna gagnvart þeim tveimur erlendu aðilum, sem eftir sitja í dæmi Atlantals.

Jónas Kristjánsson

DV