Millileiðin er ófær

Greinar

Í Sovétríkjunum búa 104 þjóðir í síðasta vígi fjölþjóðaríkja fyrri alda. Allar þessar þjóðir hugsa sér til hreyfings að fordæmi þjóðanna við Eystrasalt og í Kákasus. Í Litháen hefur Flokkurinn skorið á tengslin við Kreml. Blóðug átök eru hafin í Kákasus.

Sovétríkin eru ekki bara að missa tök á leppríkjunum í Austur-Evrópu, heldur líka að springa sjálf að innan. Engin leið er að sjá fyrir endann á eitthundrað-og-fjórfaldri þjóðfrelsishreyfingu innan landamæra Sovétríkjanna. Opnunarstefna Gorbatsjovs er ferð út í óvissuna.

Gegn þjóðfrelsisstefnu allra hinna þjóðanna í ríkinu hefur myndazt íhaldssöm þjóðfrelsishreyfing í gamla Rússlandi og meðal Rússa, sem búa úti á meðal hinna þjóðanna í ríkinu. Þetta hefur leitt til mikillar innri spennu í Eystrasaltslöndunum og raunar víðar.

Hugsanlegt er, að Rússar myndi með sér samsæri um að steypa annað hvort Mikhail Gorbatsjov eða opnunarstefnu hans úr stóli. Þótt flokksforinginn sé vinsæll í útlöndum, er ekki sama uppi á teningnum heima fyrir. Þar standa spjótin á honum, róttæk og íhaldssöm í senn.

Ekki er öruggt, að Sovétríkin séu varanlega komin á braut lýðræðis, þótt mikil breyting hafi orðið til batnaðar að sinni. Millileið Gorbatsjov er eins konar framsóknarstefna, sem fer bil beggja milli íhaldssemi og róttækni og leysir engan vanda í stjórnmálum og efnahag.

Gorbatsjov er að reyna að bjarga flokknum og miðstýringunni um leið og hann er að opna stjórnmál og efnahag. Hann vill ekki fórna forustuhlutverki flokksins, sem stangast á við opin stjórnmál. Hann vill ekki fórna miðstýringunni, sem stangast á við opinn markað.

Að sinni virðast Sovétríkin sameina verstu og óvinsælustu þætti austurevrópsku og kínversku leiðanna. Á annan veginn er reynt að opna fyrir stjórnmálaumræðu og opinn markað, og hins vegar er reynt að halda dauðahaldi í forsjá Flokksins og miðstýringu kerfisins.

Efnahagsástandið í Sovétríkjunum er verra en í Póllandi og er þá mikið sagt. Opnunin hefur ekki fært þjóðunum betri lífskjör. Þvert á móti hafa þau versnað og munu áfram versna. Lögmál viðreisnar fela í sér, að ástandið versnar fyrst, áður en það fer að batna.

Annaðhvort heldur opnunin áfram í Sovétríkjunum eins og í sumum ríkjum Austur-Evrópu eða þá, að hún verður stöðvuð með ofbeldi eins og í Kína. Millileið Gorbatsjovs er dauðadæmd. Annaðhvort leitar þjóðfélagið jafnvægis fram á við eða aftur á bak.

Leið Sovétríkjanna fram á við er þyngri en leið Austur-Evrópu. Flokkurinn hefur verið lengur við völd í Sovétríkjunum. Hann er þar ekki kominn til valda í skjóli kúgunar frá útlendu stórveldi í austri. Og hann baðar sig enn í ljóma sigurs í heimsstyrjöld.

Þrjár kynslóðir hafa lifað í Sovétríkjunum á lágu, en tryggu kaupi samyrkjubúa. Fólk þekkir lítið til markaðarins og óttast það litla, sem það sér núna. Þetta er ekkert óeðlilegt. Á Íslandi ríkir einnig mikil andstaða við markaðsöfl og stuðningur við miðstýringu.

Vegna alls þessa má búast við sviptingum í Sovétríkjunum í náinni framtíð. Vesturlönd geta lítil áhrif haft á gang mála, önnur en þau að taka vel í samdrátt vígbúnaðar. Það sparar Gorbatsjov mikla fjármuni, sem auðveldar honum að stíga fremur fram en aftur.

Veraldarsagan er að gerast í Austur-Evrópu og Sovétríkjunum um þessar mundir. Endir þessa kafla sögunnar er hulinn mun meiri þoku en almennt er talið.

Jónas Kristjánsson

DV