Eina kreppuþjóðin

Greinar

Við erum allt í einu sér á báti í hópi þjóða Stofnunar efnahagsþróunar, OECD. Íslendingar voru í fyrra eina aðildarþjóðin, sem bjó við kreppu, og svo verður einnig á þessu ári, samkvæmt spá stofnunarinnar. Móðurskipið siglir sinn sjó, en íslenzka skektan hrekst undan veðri.

Yfirleitt höfum við farið í humátt á eftir öðrum þjóðum í nágrenni okkar. Þegar vel hefur árað í viðskiptalöndum okkar, hefur okkur gengið vel að koma afurðum okkar út á góðu verði. Þegar samdráttar eða stöðnunar hefur gætt umhverfis okkur, hefur þetta gengið verr.

Fá dæmi eru þess, að alger skilnaður verði á siglingu okkar og allra annarra þjóða í Stofnun efnahagsþróunar, sem er klúbbur ríku þjóðanna í heiminum. Við bjuggum þó í fyrra við næstum 3% samdrátt efnahags, en hinar þjóðirnar allar við hagvöxt, flestar vel yfir 3%.

Samkvæmt fyrri reynslu ætti okkur að hafa gengið vel í fyrra og ganga vel á þessu ári. Vegna velgengni viðskiptaþjóða okkar ætti verð íslenzkra afurða að vera hátt. Og það er einmitt hátt um þessar mundir. Einkakreppa okkar stafar af öðru en utanríkisviðskiptum.

Íslenzka einkakreppan er að verulegu leyti framleidd af stjórnvöldum, einkum ríkisstjórninni, sem nú hefur setið nokkuð á annað ár. Aðrir þættir hafa þó stuðlað að vandræðum okkar. Ber þar hæst, hversu erfitt okkur hefur reynzt að læra að laga okkur að raunvöxtum.

Þótt vextir hafi í nokkur ár oft verið jákvæðir, höfum við haldið áfram að haga okkur eins og lánsfé væri eins konar happdrættisvinningur. Við höfum ekki hert arðsemiskröfurnar í kjölfar breytingarinnar úr neikvæðum vöxtum og gjafvöxtum yfir í raunverulega vexti.

Við mörg gjaldþrot og ríkisforsjá síðustu mánaða hefur stungið í augu, að mörg gæludýra hins opinbera hafa efnt til fjármagnskostnaðar, sem fyrirfram mátti vita, að mundi leiða til ófarnaðar. Arðsemi fjárfestingarinnar gat ekki staðið undir raunverulegum vöxtum.

Annað atriði, sem líka hefur stuðlað að óförum Íslendinga, er fastgengisstefna ríkisstjórnarinnar, sem sat næst á undan þeirri, er nú situr. Stefnan var fundin upp í nefnd bjargvætta undir stjórn núverandi formanns vinnuveitenda og varð að tízkufyrirbæri, faraldri.

Fastgengisstefnan fór illa með sjávarútveginn árið 1988. Hún skekkti samkeppnisaðstæður hans og var upphaf mikils taprekstrar, sem sjávarútvegurinn hefur síðan ekki náð sér eftir. Hún veikti mótstöðu atvinnulífsins, þegar ógæfan skall á með núverandi ríkisstjórn.

Ofan á hefðbundna fjármunabrennslu í landbúnaði upp á 7­8 milljarða árlega bætti nýja ríkisstjórnin annarri eins 7­8 milljarða fjármunabrennslu í atvinnutryggingarsjóðum og hlutafjársjóðum og í margvíslegri annarri fyrirgreiðslu af hálfu velferðarríkis fyrirtækja.

Ríkisstjórn hefur frá upphafi verið önnum kafin við að strengja björgunarnet undir hvers konar rekstur, sem ekki stenzt arðsemiskröfur raunvaxta. Hún hefur tekið ábyrgð af herðum stjórnenda fyrirtækja, sem nú geta dansað á línu í trausti öryggisnetsins fyrir neðan.

Ríkisstjórnin hefur leitt arðleysi og tap til vegs með margvíslegri fyrirgreiðslu. Svigrúm vantar til hagvaxtar, því að jarðvegurinn er frátekinn handa gæludýrum, sem brenna verðmætin. Ríkisrekin velferðarstefna hnignandi atvinnurekstrar kæfir framtak þjóðarinnar.

Óbeit þjóðarinnar á vöxtum, fastagengi síðustu stjórnar og björgunarforsjá núverandi stjórnar hafa framleitt langvinna einkakreppu, séríslenzka.

Jónas Kristjánsson

DV