Dropinn holar steininn

Greinar

Enn hefur hagfræðingur kvatt sér hljóðs og sett fram í tölum kostnað þjóðfélagsins af einokun í landbúnaði. Guðmundur Ólafsson í Háskóla Íslands hefur komizt að þeirri niðurstöðu, að einokunin kosti þjóðina sem svarar fimmtán milljörðum króna á ári hverju.

Áður hafði Markús Möller hjá Seðlabanka reiknað, að afnám einokunar í hefðbundnum landbúnaði gæfi níu milljarða króna. Ef við hans tölur er bætt hliðstæðum tölum vegna annarra afurða en hefðbundinna, kæmu tæpir þrettán milljarðar úr einokunardæminu.

Dagblaðið Tíminn gerði í fyrrasumar athugasemdir við reikning Markúsar. Samanlagt nam frádráttur Tímans tveimur milljörðum króna, svo að óbein niðurstaða blaðsins var ellefu milljarðar króna, þótt blaðið setti niðurstöðuna ekki fram á svo skýran hátt.

Þannig hefur að undanförnu verið fjallað í fjölmiðlum um herkostnað þjóðfélagsins af landbúnaði upp á ellefu, þrettán eða fimmtán milljarða. Þótt tölurnar séu misjafnar, enda byggðar á misjöfnum útreikningum, sýna þær sameiginlega stærðargráðu vandamálsins.

Mikil breyting hefur orðið á umræðunni síðan þetta dagblað var nánast eini hrópandinn í eyðimörkinni. En hugarfarsbreytingin er þó ekki meiri en svo, að enn er nokkur meirihluti þjóðarinnar fylgjandi áframhaldandi innflutningsbanni og einokun á landbúnaðarvörum.

Merkilegt er raunar, að Íslendingar skuli vera að væla um lífskjör sín og standa í vinnudeilum út af hærra kaupi, á sama tíma og þeir samþykkja, að teknir skuli af þeim ellefu til fimmtán milljarðar árlega til að halda uppi óhóflegri starfsemi í arðlausum landbúnaði.

Á einstaka stað í stéttarfélögunum er fólk þó farið að sjá ljósglætu. Verkamannafélagið Hlíf í Hafnarfirði hvatti nýlega til, að leyfður yrði frjáls innflutningur á landbúnaðarafurðum. Formaðurinn sagði af því tilefni, að launþegar væru búnir að fá nóg af háu búvöruverði.

Þá er forustulið Alþýðusambandsins og bandalags opinberra farið að setja fram hugmyndir um, að rofið verði örlítið skarð í Berlínarmúr landbúnaðarins með innflutningi á kjúklingum og eggjum. Það er ekki djörf tillaga, en sýnir þó mælanlega hugarfarsbreytingu.

Í stjórnmálunum er líka farið að tala opinskár um vandamálið. Jón Baldvin Hannibalsson segir á fundum, að ódýrara sé að senda bændum heim ráðherralaun í pósti en að halda uppi núverandi kerfi. Hér á DV hefur þó ekki verið talað um meira en kennaralaun.

Birting, nýja uppreisnarfélagið í Alþýðubandalaginu í Reykjavík, skellti inn á landsfund tillögum um, að opinn og frjáls markaður stjórnaði samkeppni milli innlends og erlends landbúnaðar. Þessu var ekki vel tekið, en dropinn holar steininn þar eins og annars staðar.

Ríkið leggur fram um átta milljarða króna árlega af peningum skattborgara til að halda uppi kerfinu. Þetta jafngildir þremur fjórðu af öllum tekjuskatti allra fjölskyldna í landinu. Til viðbótar skattleggur það þjóðina með því að neita henni um ódýrar búvörur að utan.

Þátttakendur í umræðunni eru ekki alveg sammála um, hversu mikil þessi viðbót sé, þrír, fimm eða sjö milljarðar. En enginn efast lengur um, að innflutt búvara mundi gera miklu betur en að spara niðurgreiðslur, útflutningsuppbætur og alla landbúnaðarstyrki.

En meðan fólk lætur innflutningsbann viðgangast, er réttast, að það sé ekki að væla um háa skatta og kröpp kjör og litla vinnu og annað slíkt sjálfskaparvíti.

Jónas Kristjánsson

DV