Ruglast á hagsmunum

Greinar

Ætla mætti af málatilbúnaði forustusveitar stéttarfélaga, að félagsmenn þeirra snæði lambakjöt með smjöri nokkrum sinnum í viku, séu í hópi þekktustu skulda- og vaxtakónga landsins og séu hluthafar í mestu offjárfestingarhúsum frystiiðnaðarins í landinu.

Að óreyndu hefði mátt ætla, að oddamenn launþega hefðu allt annað að leiðarljósi, til dæmis að fá fyrir sitt fólk stærri bita af þjóðhagskökunni, ­ og líklega enn frekar að fá þessa köku stækkaða, svo að allir geti fengið meira, án þess að það sé á kostnað annarra.

Ef verkalýðsrekendur hefðu áhuga á kjörum umbjóðenda sinna, heimtuðu þeir ekki auknar niðurgreiðslur á lúxusvörur, sem almenningur hefur hvort sem er ekki ráð á að nota nema einstöku sinnum. Þeir beindu frekar athyglinni að ódýrari matvöru almennings.

Almenningur borðar hversdagslega fisk, kornvöru og grænmeti, en ekki kjöt og smjör. Ef niðurgreiðslur eiga á annað borð rétt á sér, eiga þær heima í fiski, kornvörum á borð við brauð, hveitilengjur og hrísgrjón og í grænmeti á borð við kartöflur og lauk.

Þetta má líka orða á annan hátt. Ef umbjóðendur fínu mannanna við samningaborðið lifa á dýru lambakjöti og dýru smjöri, þurfa þeir ekki hærri laun. Það er tómt mál, þótt gert sé, að tala um niðurgreiðslur á kjöti og smjöri sem lið í að bæta kjör almennings í landinu.

Að óreyndu hefði mátt ætla, að helzta krafa verkalýðsrekenda væri, að matvöruverð í landinu yrði lækkað um marga milljarða með því að leyfa frjálsan innflutning allra landbúnaðarafurða, sem eru og verða til í óskaplegu offramboði á lágu heimsmarkaðsverði.

Forusta Alþýðusambandsins og Bandalags starfsmanna ríkis og bæja hefur þó ekki meiri áhuga á lífskjörum almennings en svo, að hún lætur sér nægja að biðja um innflutning á kjúklingum og kartöflum og það á 70% tolli. Af hverju bara kjúklinga og kartöflur

Samningamenn stéttarfélaga hafa ennfremur gerzt umboðsmenn fyrir gæludýrin í atvinnulífinu, sem hafa meiri aðgang en aðrir að naumt skömmtuðu lánsfé í landinu. Þeir heimta lækkun vaxta, svo að verðgildi forréttindanna aukist enn frá því, sem nú er.

Almenningur skuldar peninga, sérstaklega þeir, sem hafa staðið í kaupum á íbúð. Það eru þó smámunir í samanburði við skuldir gæludýranna. Með kröfunni um lækkun vaxta er verið að heimta tilfærslu fjármuna frá þjóðarheildinni til óráðsíufyrirtækjanna í náðinni.

Einnig hefur forustusveit félaga launafólks tekið að sér umboð fyrir illa rekin frystihús, sem ekki geta greitt sjómönnum heimsmarkaðsverð fyrir aflann og ekki einu sinni verðið á Faxamarkaði í Reykjavík. Hún hefur heimtað, að dregið verði úr útflutningi á ísfiski.

Útflutningur á ísfiski hefur gert þjóðfélaginu í heild kleift að ná hærra verði fyrir fiskinn og með miklu minni tilkostnaði. Ísfiskútflutningurinn er ein af beztu leiðunum til að stækka kökuna, sem er til skiptanna, en hann er andstæður hagsmunum frystihúsanna.

Ætla mætti, að samtök frystihúsa, stjórnmálaflokkar, landbúnaðarráðuneyti og stofnanir landbúnaðarins væru einfær um að gæta hagsmuna illa rekinna frystihúsa, gæludýra atvinnulífsins og þess búvöruskrímslis, sem árlega brennir fimmtán milljarða af þjóðarfé.

Hvað verkalýðsrekendur eru að gera í þessari ógæfulegu sveit, er engan veginn ljóst. Altjend eru þeir ekki að gæta hagsmuna fátæka fólksins í landinu.

Jónas Kristjánsson

DV