Hriktir í stoðum Nató

Greinar

Varnaráðherra Belgíu hefur óvænt látið byrja að skipuleggja brottför belgíska herliðsins frá Vestur-Þýzkalandi. Þetta er rúmlega þriðjungur af öllum landher Belgíu. Er stefnt að því að leggja þennan hluta niður og flytja vopnabúnaðinn á haugana eða selja hann.

Þannig eru byltingin í Austur-Evrópu og hrun Varsjárbandalagsins farin að hafa áhrif á varnarsamstarf vestrænna ríkja. Hver ríkisstjórnin á fætur annarri í Atlantshafsbandalaginu mun nú sjá sér hag í að spara útgjöld til hermála og nota á öðrum brýnum sviðum.

Að vísu þýðir undirbúningur Belga ekki, að ákveðið hafi verið að leggja niður herinn í Vestur-Þýzkalandi. Ráðamenn í Belgíu segjast bara vilja vera tilbúnir með skipulagið, ef árangur verði af viðræðum austurs og vesturs í Vínarborg um hefðbundin vopn í Evrópu.

En óþolinmæði Belga er augljós og veldur miklum áhyggjum í aðalstöðvum Atlantshafsbandalagsins, sem eru í Belgíu. Á skrifstofunum þar sjá menn fram á, að fleiri verði óþolinmóðir og muni fylgja eftir Belgum, svo sem Hollendingar, Danir og Kanadamenn.

Þetta er gamla sagan, að enginn veit, hvað átt hefur, fyrr en misst hefur óvin sinn. Atlantshafsbandalagið stendur nú andspænis hættunni á að verða talið úrelt, þegar hinn mikli óvinur í austri er búinn að missa vígtennurnar og virðist jafnvel vera að gufa upp.

Deila má um, hversu tímabær er óþolinmæði á Vesturlöndum. Ástand er ótryggt í Sovétríkjunum um þessar mundir. Opnunarstefna Gorbatsjovs flokksformanns sætir vaxandi óvinsældum heima fyrir. Enginn veit, hversu lengi endist valdaskeið hans eða stefnu hans.

En óneitanlega er á líðandi stund ekki unnt að sjá annað en, að Rauði herinn sé kominn á fremsta hlunn með að undirbúa brottför sína frá Austur-Evrópu og að herir Austur-Evrópu verði ófáanlegir til að taka þátt í aðför að Vesturlöndum um ófyrirsjáanlega framtíð.

Þjóðir Vesturlanda hafa komið sér upp margvíslegum þörfum, sem ríkin geta ekki fullnægt. Þegar spenna austurs og vesturs hefur hríðfallið um skeið, er óhjákvæmilegt, að ríkisstjórnir Vesturlanda renni hýru auga til peninganna, sem nú fara til varnarmála.

Útgjöld til varnarmála minna mjög á útgjöld Íslendinga til landbúnaðar. Í báðum tilvikum er um að ræða fé, sem brennt er og kemur engum að gagni. Og í báðum tilvikum er um að ræða umtalsverðan hluta ríkisútgjalda, sem menn vildu gjarna nýta á öðrum sviðum.

Belgar, Hollendingar, Danir og Kanadamenn eru líklegir til að láta fljótlega undan freistingunni. Enn stærri vandi verður Atlantshafsbandalaginu á höndum, þegar menn átta sig á, að mikill meirihluti Austur-Þjóðverja vill sameinast samlöndum sínum í Vestur-Þýzkalandi.

Þungamiðja Atlantshafs- og Evrópubandalagsins er í Vestur-Þýzkalandi. Allar áherzlur munu nú breytast á þeim sviðum, þegar Vestur-Þjóðverjar fara að einbeita sér að sameiningu Þýzkalands og verða tilleiðanlegir að semja um vopnalaust friðarsvæði í Mið-Evrópu.

Þar sem Atlantshafsbandalagið er að flosna upp í kjölfar uppgufunar Varsjárbandalagsins, er tímabært að skoða, hver verður framtíð eftirlitsstöðvar á Keflavíkurflugvelli. Hugsanlegt er, að gildi slíkra stöðva vaxi, ef austur og vestur semja um aukið hernaðareftirlit.

Afvopnunarhræringar í Belgíu eru bara lítill hluti af þeim litla hluta ísjakans, sem sést ofan sjávarmáls. Undir niðri eru mun stærri friðarhræringar á ferð.

Jónas Kristjánsson

DV