Beint til Bruxelles

Greinar

Evrópubandalagið er ekki andvígt tvíhliða viðræðum við einstök ríki Fríverzlunarsamtakanna, þótt íslenzk stjórnvöld hafi fullyrt slíkt í vetur. Í síðustu viku var forsætisráðherra Noregs, Jan Syse, í Bruxelles að ræða sjávarútveg og samskipti Noregs við bandalagið.

Hingað til hafa íslenzk stjórnvöld sagt, að rétta leiðin til að koma íslenzkum sjónarmiðum á framfæri við Evrópubandalagið sé á vegum samstarfsnefndar, sem Fríverzlunarsamtökin stofnuðu til að ræða við Evrópubandalagið. Við áttum formennsku í þeirri nefnd í fyrra.

Fríverzlunarsamtökin hafa fallizt á að gera íslenzka sjónarmiðið um fríverzlun með fisk að sínu sjónarmiði í viðræðunum við Evrópubandalagið. Samt er í Fríverzlunarsamtökunum lítill áhugi á slíkri fríverzlun. Við óttumst, að þetta stefnumál falli niður, þegar á reynir.

Reyndir samningamenn vita, að hliðaratriði, sem fáir hafa áhuga á, verða oftast að víkja, þegar herzlumuninn vantar í undirritun samninga. Þá er hætt við, að meirihlutinn í Fríverzlunarsamtökunum segi við okkur: Við reyndum eins og við gátum, en það tókst bara ekki.

Mikilvægt er, að við höldum dauðahaldi í ákvörðun Fríverzlunarsamtakanna um fríverzlun á fiski og reynum að gæta þess, að samtökin fari hvergi út af sporinu á leið sinni til samnings við Evrópubandalagið. Við þurfum því að taka virkan þátt í nefndarstarfinu.

Einnig þarf að halda áfram að leggja áherzlu á viðræður einstakra íslenzkra ráðherra við ráðherra sama starfssviðs í einstökum ríkjum Evrópubandalagsins, svo sem sjávarútvegsráðherra hefur gert. Hver fundur af slíku tagi er dropi, sem hjálpar til að hola steininn.

En okkar menn verða líka að fara beint og oft til Bruxelles og ræða við valda- og embættismenn bandalagsins sjálfs, því að þar eru hinar raunverulegu ákvarðanir teknar. Úr því að Syse fór þangað, hljóta Delors og menn hans að fást til að taka á móti Steingrími.

Mandarínarnir í Bruxelles hafa bitið sig fast í, að utangarðsríki verði að greiða aðgang að fiskmarkaði með því að veita aðgang að fiskimiðum. Þetta er ekki endilega sjónarmið einstakra ríkisstjórna í Evrópubandalaginu, en þetta er sjónarmið mandarínanna í Bruxelles.

Við höfum ljómandi góða röksemd gegn þessu og eigum að keyra á henni í síbylju í Bruxelles. Hún er, að fyrir aðgang að fiskmarkaði þar eigi að greiða með aðgangi að fiskmarkaði hér og fyrir aðgang að fiskimiðum hér eigi að greiða með aðgangi að fiskimiðum þar.

Ef mandarínunum finnst stórmál að hleypa okkur inn á fiskmarkað í löndum þess, eigum við að bjóða þeim inn á okkar fiskmarkað með sinn fisk. Ef þeim finnst stórmál að komast til veiða í íslenzkri lögsögu, eigum við að spyrja, hvaða veiði þeir bjóði á móti.

Þeir vita, að þeir geta ekki boðið okkur neina veiði í fiskveiðilögsögu neins ríkis Evrópubandalagsins. Þess vegna eiga þeir að vita, að við getum ekki boðið þeim neina veiði í okkar lögsögu. Þótt þeir þjarki og þrasi fram í rauðan dauðann, vita þeir, að þeir fara með rugl.

Þetta er veikleikinn, sem við eigum að hamra á. Við getum boðið gagnkvæmnina, sem þeir tala svo mikið um. En við viljum, að gagnkvæmnin sé í sömu mynt, markaður komi fyrir markað og veiðikvóti komi fyrir veiðikvóta, en óskyldum hlutum sé ekki ruglað saman.

Því eiga okkar menn að gera tíðreist til Bruxelles, unz mandarínarnir verða orðnir svo þreyttir á okkur, að þeir fallast á það, sem alltaf var siðferðilega rétt.

Jónas Kristjánsson

DV