Hafna þriðju leiðinni

Greinar

Austur-Evrópa er ekki að leita þriðju leiðarinnar milli hins gamla þjóðskipulags, sem er að hrynja, og vestræns þjóðskipulags. Þessi heimshluti er ekki að finna nýja útgáfu af sósíalisma, heldur ætlar hann að halla sér að sigursælum kapítalismanum í vestri.

Til skamms tíma töldu sumir, að Austur-Þýzkaland væri dálítið sér á parti í þessum hópi ríkja, þar sem forsenda ríkisins væri hvorki þjóðernisleg né landfræðileg, heldur hugmyndafræðileg. Þeir héldu, að Austur-Þjóðverjar hefðu stolt fyrir hönd ríkisins.

Þetta hefur reynzt vera misskilningur. Mikill meirihluti Austur-Þjóðverja vill ekkert hafa með hinn hugmyndafræðilega tilbúning “Lýðræðislýðveldisins” að gera. Þeir vilja einfaldlega sameinast keppinautnum, Vestur-Þýzkalandi, og renna inn í sigursælt hagkerfi.

Að vísu kunna kratar að verða sterkari í eystri hluta Þýzkalands en þeir eru í vestri hlutanum. Það stafar þó einfaldlega af, að austurþýzkir kratar eru óflekkaðir af samstarfi við kommúnista, en kristilegir hafa hins vegar gert sig seka um samstarf við kommúnista.

Víðs vegar um Austur-Evrópu og í Sovétríkjunum sjálfum eru kosningar í uppsiglingu á næstu þremur mánuðum. Þessar kosningar verða meira eða minna frjálsar og heiðarlegar. Þær munu flýta þróun Austur-Evrópu yfir í vestrænt þjóðskipulag kapítalismans.

Í lok þessa mánaðar verða frjálsar kosningar í Litháen og Moldavíu: í marz í Austur-Þýzkalandi, Ungverjalandi, Úkraínu, Lettlandi, Eistlandi og Georgíu: í apríl í Póllandi: líklega í maí í Búlgaríu og Rúmeníu: og loks sennilega 6. júní í Tékkóslóvakíu.

Um miðjan júní verður búið að koma upp fjölflokkakerfi um nær alla Austur-Evrópu og tilkynna brottför Litháen og væntanlega fleiri landa úr Sovétríkjunum. Við völd verða stjórnmálamenn, sem kjósendur hafa úrskurðað, að séu óflekkaðir af kommúnisma.

Kommúnistaflokkar munu fá lítið fylgi í kosningunum, yfirleitt innan við 10%. Undantekningar verður helzt að finna í sumum löndum Sovétríkjanna. Í Litháen er flokkurinn sæmilega vinsæll, af því að hann rauf tengslin við móðurflokkinn í Moskvu.

Mikhail Gorbatsjov og aðrir kommúnistaforingjar á frjálslyndari kantinum í Austur-Evrópu hafa til skamms tíma vonað, að frelsisgjöfin mundi skapa flokkum þeirra fylgi til að taka þátt í stjórn landsmála eftir kosningar. Slíkar vonir dofna með hverjum deginum, sem líður.

Skipti á leiðtogum og flokksnafni hafa lítil áhrif. Kjósendur vilja ekki sjá neitt, sem lyktar af fyrra valda kerfi. Sósíalismi austursins hefur beðið varanlegt skipbrot. Úr rústum hans rís félagslegur markaðsbúskapur að hætti Ludwigs Erhards í Vestur-Þýzkalandi.

Til þess að lönd austurs geti fetað þröngan stíginn frá sósíalískri fátækt til kapítalískrar velsældar munu nýir valdhafar hefjast handa við að hreinsa út kerfiskarla og færa völd þeirra til markaðarins. Það mun taka langan tíma og verður engan veginn sársaukalaust.

Í efnahagslegu og peningalegu erfiðleikunum, sem framundan eru, munu þjóðir Austur-Evrópu og Sovétríkjanna soga sér andlega orku úr stórflóði átaka í menningu og fjölmiðlun. Nýfengið frelsi til sjálfstæðrar hugsunar mun leita sér öflugrar útrásar á ótal sviðum.

Byltingin í austri er ekki bara ósigur kerfisins. Hún mun líka reynast verða ósigur þeirra, sem ímynda sér, að til sé þriðja leiðin, vinstra megin við Vesturlönd.

Jónas Kristjánsson

DV