Gamalt afl með nýjan kraft

Greinar

Þótt járntjaldið sé fallið í Evrópu, er spennan ekki horfin á jaðri hins vestræna heims. Þótt kommúnisminn hafi beygt sig fyrir skínandi birtu Mammons og Aristótelesar og biðji um aðgang að vestrænu samfélagi, er jörðin ekki orðin að Iðavelli vestrænnar hugmyndafræði.

Gamalt og nýtt afl í heiminum er með hverju árinu að verða fyrirferðarmeira við mörk hins vestræna heims. Það er íslam, sem ógnaði hinni kristnu Evrópu á miðöldum, en varð síðan að lúta í lægra haldi. Nú eru íslamar aftur komnir á kreik og láta að sér kveða.

Nýjast í fréttum er, að íslamar í Tadzhíkístan Sovétríkjanna hafa efnt til uppþota gegn stjórninni í Kreml, gegn kristnum mönnum frá Armeníu og gegn rússneska heimsveldinu. Þetta kemur í kjölfar uppreisnartilraunarinnar í Azerbajdzhan fyrir aðeins örfáum vikum.

Rauði herinn var sendur á vettvang til Bakú til að brjóta á bak aftur uppreisnarmenn íslams, sem höfðu í rauninni tekið völdin af kommúnistaflokknum í Azerbajdzhan og voru farnir að reka kristna Armena úr landi. Eldur uppreisnarinnar kúrir enn undir niðri.

Tadzhíkar sækja sér styrk yfir landamærin til Afganistan, sem Rauði herinn yfirgaf í fyrravor. Azerar sækja sér styrk til Íran, sem um nokkurra ára skeið hefur verið í fararbroddi íslamsks andófs erkiklerka gegn vestrænni hugmyndafræði og efnishyggju nútímans.

Í Azerbajdzhan og Tadzhíkístan eru íslamar í meirihluta meðal íbúanna og eru að reyna að losna við hinn kristna eða kommúníska minnihluta, um leið og þeir vilja komast undan erlendu valdi. Þessi barátta íslams í Sovétríkjunum er hin sama og víða annars staðar.

Uppþotin á vestri bakka Jórdan og á Gazasvæðinu halda áfram dag eftir dag, viku eftir viku og mánuð eftir mánuð. Hinn íslamski meirihluti íbúanna er að rísa upp gegn kúgun gyðinga, sem eru í miklum minnihluta á þessum svæðum og beita meirihlutann mikilli hörku.

Svipað er uppi á teningnum í Líbanon, nema hvað andstæðingurinn er kristinn og að íslömum hefur gengið betur þar. Báðar fylkingar eru að vísu margklofnar, en meginlínan hefur verið ljós áratugum saman. Þar í landi eru það stóru trúarbrögðin, sem takast á.

Í Kosovo í Júgóslavíu er íslamskur meirihluti í hálfgerðri styrjöld við minnihluta Serba og miðstjórnarvald þeirra í Belgrað. Átökin gætu hæglega færzt til Bosníu, þar sem íslamar eru öflugir. Raunar er ríkjasamband Júgóslavíu að riða til falls um þessar mundir.

Kasmír í Indlandi er enn annað dæmi um baráttu meirihluta íslama gegn völdum minnihlutans. Þar snýst barátta þeirra gegn hindúasið, sem ræður ríkjum í Indlandi. Á síðustu vikum hafa meira en hundrað íslamar fallið í átökum við indverskar hersveitir.

Í Afríku eru íslamar líka í stríði. Í Súdan er borgarastríð milli íslama í norðri og kristinna svertingja í suðri. Þannig eru hvarvetna átök á mörkum hins íslamska heims, í suðri, í austri, í vestri og í norðri. Alls staðar eru íslamar hægt og sígandi í sókn.

Lítill vafi er á, að mikið mun reyna á samskipti hins vestræna heims við heim íslams eftir að hin innri spenna í Evrópu hefur hraðminnkað við fall járntjaldsins. Vesturlandabúar verða að átta sig á, að Múhameð spámaður er aftur mættur á vettvang eftir alda hlé.

Máttur íslams nær til hjarta Vesturlanda. Þar verður rithöfundur að fara huldu höfðu, af því að erkiklerkar í fjarlægu landi hafa kveðið upp yfir honum dauðadóm.

Jónas Kristjánsson

DV