Opinber aflamiðlun

Greinar

Ekki er unnt að ákveða opinbert fiskverð í landinu vegna valdabaráttu ráðuneyta og hagsmunaaðila um fyrirkomulag opinberrar aflamiðlunar, sem ætlunin er að koma á fót til að tryggja, að Ísland verði enn ofanstýrðara og miðstýrðara en nokkru sinni fyrr.

Íslendingar eru orðnir sér á parti í hópi þjóða Evrópu. Meðan þjóðir Austur-Evrópu eru á harðahlaupum frá opinberri ofanstýringu og miðstýringu í átt til markaðshyggju, erum við að stíga skref í hina áttina. Ríki og hagsmunaaðilar eru greinilega sammála um áttina.

Stjórnmálamenn, embættismenn og forustumenn hagsmunasamtaka eru haldnir alkunnri áráttu. Þeir vilja stjórna. Þeir eru valdshyggjumenn, sem telja andstætt hagsmunum sínum, að fólk og fyrirtæki úti í bæ fái að ráða gerðum sínum á frjálsum markaði.

Í ofanstýringunni og miðstýringunni er opinbert fiskverð gamall þáttur, sem hefur verið á undanhaldi að undanförnu vegna stofnunar innlendra fiskmarkaða og aukins útflutnings á ísfiski framhjá fiskverðskerfinu. Þetta hefur hækkað raunverulegt fiskverð mjög mikið.

Frjálst fiskverð hefur verið að þróast, annars vegar eftir verðlagi á erlendum fiskmarkaði og hins vegar á fiskmörkuðunum í Reykjavík og Hafnarfirði. Þetta hefur raskað högum margra, sem vilja hafa lágt fiskverð, og rýrt völd þeirra, sem ákveða opinbert fiskverð.

Aflamiðlun er tilraun kerfiskarla til að koma ofanstýringu og miðstýringu á nýfengið frelsi í fiskverði. Með sameiginlegri aflamiðlun hagsmunaaðila á að tryggja hagsmuni þeirra, sem vilja lágt fiskverð, og koma böndum á hina, sem vilja, að fiskverð sé sem hæst.

Eitt mikilvægasta grundvallaratriði markaðshagkerfis er að ná sem mestu vinnsluvirði með sem minnstri fyrirhöfn. Því lögmáli er vel þjónað með því, að fiskur sé vel ísaður og seldur í miklum flýti til útlanda sem fersk vara, er fer á hærra verði en annar fiskur.

Menn bölsótast yfir þessu og kalla það útflutning á “óunnum” fiski, rétt eins og ferskur ísfiskur sé eitthvert hráefni, sem misþyrma beri og frysta í sérstökum vinnslustöðum, sem kosta mikla fjárfestingu og mikinn mannskap, svo að út komi vara, er kostar minna.

Íslendingar virðast almennt vera þeirrar sérkennilegu skoðunar, að mikilvægt sé að hafa mikið fyrir fiski í landi til að skapa atvinnu, þótt hin mikla fyrirhöfn leiði ekki til hækkunar á verði vörunnar. Hugarfar af þessu tagi leiðir auðvitað til efnahagslegrar stöðnunar.

Ef markaðslögmál fengju að ráða hér á landi, væri ekkert opinbert fiskverð, engin opinber aflamiðlun og ekkert opinbert gengi krónunnar. Þá fengi sjávarútvegurinn í heild tækifæri til að hagræða sér á sjálfvirkan hátt og njóta stöðu sinnar í gjaldeyrisöfluninni.

Bezt er, að allt verð á fiski ráðist af framboði og eftirspurn, eins og verð á flestum öðrum vörum í útlöndum. Bezt er, að allt verð á gjaldeyri ráðist af framboði og eftirspurn, eins og verð á gjaldeyri í erlendum kauphöllum. Á þann hátt einan kemur í ljós, hvað er hagkvæmt.

Þetta gerist ekki, af því að valdahagsmunir stjórnmálamanna, embættismanna og forstöðumanna hagsmunasamtaka fara saman við útbreidda hræðslu Íslendinga við óvissuna. Hér á landi trúa menn almennt, að ofanstýring og miðstýring komi í veg fyrir öngþveiti.

Annars staðar, til dæmis í Austur-Evrópu, hafa menn hins vegar séð, að ofanstýring og miðstýring leiðir til öngþveitis og hruns, en markaðsfrelsi skapar auð.

Jónas Kristjánsson

DV