Krónugengi sjávarplássa

Greinar

Oft er talað um, að íslenzk sjávarpláss njóti ekki afraksturs af framlagi íbúanna til þjóðarbúsins. Sumir segja, að gengi krónunnar sé of hátt skráð og þannig sé hagnaði af útflutningi sjávarafurða dreift til annarra sviða þjóðlífsins, einkum suður til Reykjavíkur.

Engin leið er að komast að hinu sanna í máli þessu nema með því að sannprófa það. Fólk getur endalaust deilt um mál af þessu tagi, svo sem hversu margar tennur séu í hestinum. Einhvern tíma kemur að því, að heppilegast er að gá upp í hestinn og telja tennurnar.

Svo vel vill til, að fordæmi eru fyrir því hjá ríkustu þjóðum jarðarkringlunnar, að gengi gjaldmiðils þeirra er rétt skráð. Það gerist samt ekki með því, að kölluð sé saman nefnd færustu sérfræðinga og embættismanna til að ákveða gengi jens og dollars frá degi til dags.

Það er einfaldlega frjáls markaður, sem ákveður daglegt gengi jens og dollars og margra fleiri gjaldmiðla. Myntir þessar eru keyptar og seldar í kauphöllum um heim allan. Útlendir seðlabankar taka þátt í þessari ákvörðun með því að verzla í öfuga átt við sveiflurnar.

Úr óbeinu samspili tugþúsunda sjálfstæðra aðila verður til daglegt markaðsgengi á jeni og dollar. Við getum haft á svipaðan hátt hér á landi, þótt í smærri stíl hljóti að verða. Við getum einfaldlega farið að kaupa og selja krónuna og erlenda gjaldmiðla í kauphöll.

Seðlabankinn fengi að taka þátt í þessum leik sem einn aðili að mörgum. Hann fengi það hlutverk að reyna að hamla á móti sveiflum, en missti hlutverk sjálfrar gengisskráningarinnar. Á þennan hátt einan getum við komizt að raun um verðgildi gjaldeyrisöflunarinnar.

Ef svo færi, sem telja má líklegt, að gengi krónunnar mundi skrá sig lægra á þennan sjálfvirka markaðshátt en Seðlabankinn gerir í dag, má jafnframt gera ráð fyrir, að fjármagn mundi sogast til sjávarplássa landsins í stað þess að sogast frá þeim til annarra staða.

Frjálst markaðsgengi gjaldmiðla er meira hagsmunamál fólks í sjávarplássum en bandalag þess við fólk í strjálbýli um að sníkja lán og styrki frá ríki og opinberum sjóðum til að ná til baka einhverju af fénu, sem umbjóðendur sjávarsíðunnar telja hafa runnið á brott.

Í bandalagi sjávarsíðu og strjálbýlis gegn Reykjavíkursvæði hefur sjávarsíðan alltaf fengið ruðurnar og mun alltaf fá. Mestur hluti herfangsins, sem byggðastefnan aflar, rennur til landbúnaðar, þar sem þjóðfélagið brennir um fimmtán milljörðum króna á hverju ári.

Það er nefnilega ekki Reykjavíkursvæðið, sem gengur harðast fram í að eyða aflafé sjávarútvegs. Byggðastefnan er dýrasta lóðið á vogarskálinni gegn sjávarplássum. Hún dreifir til landbúnaðar fé, sem hefur fengizt með því að núllkeyra sjávarútveg á röngu krónugengi.

Sjávarsíðan ætti að segja skilið við hagsmunabandalag núverandi byggðastefnu, sem færir henni ruður einar af herfangi landbúnaðar og sökkvir fólki og fyrirtækjum sjávarplássa í fen skuldbindinga við opinbera sjóði. Hún ætti að heimta hreint afnám þessarar byggðastefnu.

Í staðinn ætti fólk í sjávarplássum landsins að segja umbjóðendum sínum, að skynsamlegt sé að vinna að afnámi opinberrar skráningar á gengi krónunnar, líkt og gert hefur verið í mörgum auðugum löndum, án þess að heimsendir eða öngþveiti hafi hlotizt af.

Markaðsgengi á gjaldeyri leysir eitt ekki allan vanda, en er samt með beztu aðferðum til að komast að raun um, hvað borgar sig að hafa fyrir stafni hér á landi.

Jónas Kristjánsson

DV