Ofanstjórn tekst ekki

Greinar

Nýjustu spár um hagvöxt í ríku löndunum, sem sitja í Efnahags- og þróunarstofnuninni, benda til, að Ísland sé komið í varanlegan vítahring og mundi dragast ört aftur úr öðrum aðildarlöndum á síðasta áratug þessarar aldar, jafnvel þótt linni kreppunni, sem nú ríkir hér.

Spáð er, að hagvöxtur iðnríkjanna muni nema um 3% árlega til aldamóta. Hér er hins vegar samdráttur. Ef hagvöxtur byrjar að nýju hér á landi, er reiknað með, að hann verði um 1,6%. Á heilum áratug leiðir þessi munur okkar og nágrannanna til breiðrar gjár.

Þetta er okkur sjálfum að kenna. Við höfum ekki lagt traustan grunn að lífskjörum okkar, heldur byggjum á tveimur nýfengnum auðlindum, sem við höfum þegar nýtt. Önnur auðlindin er stækkun fiskveiðilögsögunnar og hin er stóraukin atvinnuþátttaka íslenzkra kvenna.

Með stækkun fiskveiðilögsögunnar náðum við í okkar hendur nokkurn veginn öllum afla á Íslandsmiðum, þar á meðal öllum hinum mikla afla, sem brezkir togarar höfðu sótt hingað. Um leið náðum við tökum á að skammta afla, svo að fiskistofnar hafa ekki hrunið.

Við vorum lengi eftirbátar nágranna okkar í þátttöku kvenna í atvinnulífinu. Á skömmum tíma höfum við náð svipaðri stöðu og aðrar auðþjóðir á því sviði. Þessu hefur fylgt mikill hagvöxtur, sem stöðvast, þegar árangur hefur náðst, alveg eins og við stækkun lögsögunnar.

Um leið höfum við látið undir höfuð leggjast að leggja grundvöll að nýjum atriðum, sem geti tekið við af stækkun fiskveiðilögsögunnar og aukinni atvinnuþátttöku kvenna sem burðarás í hagvexti næstu ára og áratuga. Í velsældinni höfum við einfaldlega sofið á verðinum.

Við höfum vanizt happdrættisvinningum á borð við stærri fiskveiðilögsögu og atvinnuþátttöku kvenna. Við teljum okkur hafa efni á alls konar lúxus, sem brennir þjóðarauð. Við teljum okkur líka hafa efni á ofanstýrðu þjóðfélagi í stíl fallkandídatanna í Austur-Evrópu.

Við verjum til dæmis árlega átta milljörðum af skattfé til hefðbundins landbúnaðar og sjö milljörðum af neytendafé í bann við innflutningi búvöru. Við verjum árlega milljörðum af skattfé til að láta opinbera sjóði fjármagna tímabær gjaldþrot og fresta þeim um sinn.

Við neitum okkur um markaðsfrjálsræði auðugra þjóða á borð við Svisslendinga, Bandaríkjamenn og Japani. Við látum stjórnvöld og stofnanir um að skrá gengi krónunnar og við látum þau um að banna innflutning á sumum vörum og útflutning á öðrum vörum.

Um þessar mundir erum við að láta stjórnvöld og stofnanir um að koma upp aflamiðlun, sem eykur miðstýringu sjávarútvegs ofan á fyrri miðstýringu kvótakerfisins. Við höfum þegar látið stjórnvöld um að koma upp harðskeyttu kvótakerfi í hefðbundnum landbúnaði.

Við stefnum óðfluga yfir í ofanstýringu og miðstýringu á sama tíma og Austur-Evrópa stefnir óðfluga frá ofanstýringu og miðstýringu. Við höldum, eins og harðlínukommarnir í Austur-Evrópu, að unnt sé að reka þjóðfélagið að ofan eins og hverja aðra fjölskyldu.

Ríkisvaldið og ríkissjóður eru að þenjast út hér á landi á kostnað annarra þátta þjóðfélagsins á sama tíma og allar þjóðir í austri og vestri eru að draga saman seglin í ríkisvaldi og ríkissjóði. Við erum að missa af lestinni sem Albanían í Efnahags- og þróunarstofnuninni.

Ekki má kenna stjórnmálamönnum einum um þessa ógæfu. Það eru kjósendur sjálfir, sem ímynda sér, að hér sé unnt að reka ofanstjórn og ráðherraalræði.

Jónas Kristjánsson

DV