“Fullunnið” “hráefni”

Greinar

Íslendingar hafa almennt mjög sérkennilegt verðmætamat í fisksölu. Í augum mikils meirihluta þjóðarinnar er fiskur því verðmeiri sem meira er fyrir honum haft í vinnslustöðvum. Það heitir, að fiskurinn verði að “fullunninni” vöru, sem sé merkari en “hráefni”.

Þeir, sem vilja miða verðmætamatið við verðið, sem fæst fyrir fiskinn í útlöndum, fá litla sem enga áheyrn þjóðarinnar. Sama er um þá, sem reyna að segja fólki, að bezt sé að fá sem hæst verð með sem minnstri fyrirhöfn, því að það gefi þjóðinni bezt vinnsluvirði.

Ekkert getur rótað þeirri bjargföstu sannfæringu þjóðarinnar, að “fullunnin” vara sé eftirsóknarverðari en “hráefni”, jafnvel þótt hið síðarnefnda sé betri matur og seljist útlendingum á hærra verði. Sannfæringu þessa má daglega sjá hjá fólki, sem kemur fram í fjölmiðlum.

Klisjuburðarmenn, sem telja “fullunna” vöru göfugri en “hráefni”, mundu samt margir hverjir ekki láta bjóða sér “fullunna” vöru í fiskbúð. Þeir vilja nýja ýsu, það er að segja “hráefni” og engar refjar. Ýsuflökin renna út í búðum eins og heitar lummur, en freðfiskurinn ekki.

Nú er okkar einræðishneigði sjávarútvegsráðherra beinlínis búinn að banna, að fersk ýsuflök séu seld úr landi. Hann segist gera þetta til að varðveita góðan orðstír íslenzkra fiskafurða. Undir þetta sjónarmið taka sérfræðingar í rannsóknastofnunum sjávarútvegs.

Ekkert þýðir að segja, að fersku ýsuflökin séu verðmæt vara, sem seljist í útlöndum á hærra verði en margs konar fiskur, sem hefur runnið um færibönd og vélar frystihúsa. Sjávarútvegsráðherra og fiskaldursfræðingar hans hafa ekki áhuga á slíku verðmætamati.

Engu máli skiptir, þótt DV hafi upplýst, að einræðisherra sjávarútvegs setti bannið að ósk einokunarstofnunar. Það hefur þegar verið játað, að Sölusamband íslenzkra fiskframleiðenda bað ráðherra um bannið til að reyna að ná bannfiskinum í saltfiskverkun.

Ráðherra taldi brýnt að búa til aukna fyrirhöfn í framleiðslu “fullunninnar” vöru til að hindra, að “hráefni” væri selt úr landi á 300 krónur kílóið. Ekki er vitað, að neinn hamagangur í fiskvinnslustöðvum geti komið verði á fiskkílói upp í annað eins verð.

Gaman væri, að ráðherra og geymsluþolsfræðingar hans öfluðu sér upplýsinga um, hvílíkir sjálfspyndingamenn það hljóti að vera í útlöndum, sem vilja kaupa á 300 krónur kílóið af fiski, sem ráðherra og öldrunarfræðingarnir telja stórlega varasaman fyrir elli sakir!

Þetta er auðvitað sami ráðherrann og er sífellt að reyna að bregða fæti fyrir flutning á öðrum ferskfiski til útlanda. Í þessari viku hefur verðið á slíkum fiski frá Íslandi verið að meðaltali í Bretlandi 133 krónur fyrir kílóið af þorski og 164 krónur fyrir kílóið af ýsu.

Mikill meirihluti þjóðarinnar er sammála ráðherra sínum um, að betra sé að fá lágt verð fyrir fisk í útlöndum, svo framarlega sem fólk fái vinnu í fiskvinnslustöðvum við að breyta dýru “hráefni” í “fullunna” vöru ódýra. Fólk vill einfaldlega vernda vinnuafl og einokun.

Þegar þjóð er svona gersamlega lokuð fyrir verðmætamati markaðshyggjunnar, er ekki við öðru að búast en hún styðji ráðherra, sem vill skipuleggja allan sjávarútveg að ofan og frá miðju. Hún styður útflutningsbann, útflutningshöft, kvóta og “fullvinnslu”.

Ofanstýrð þjóð, sem styður einræðishneigða ráðherra til stjórnvaldsaðgerða af slíku tagi, er dæmd til að magna fátækt sína og dragast aftur úr markaðshyggjuþjóðum.

Jónas Kristjánsson

DV