“Umsamin úrslit”

Greinar

“Fyrirfram umsamin úrslit gætu raskazt” segir í grein í Alþýðublaðinu, þar sem lýst er áhyggjum aðstandenda nýja listans í Reykjavík út af opnu prófkjöri, sem verður 7.­8. apríl vegna borgarstjórnarkosninganna 26. maí. Er áhyggjunum rækilega lýst í greininni.

Davíð Oddsson borgarstjóri hefur leyst vandamál af þessu tagi á miklu þægilegri hátt. Hann hefur alls ekkert prófkjör, hvorki opið né lokað. Hann hefur sumpart raðað umhverfis sig sömu jábræðrunum og fyrir voru í borgarstjórn og sumpart sams konar jábræðrum.

Auðvitað hefðu Alþýðuflokkurinn og alþýðubandalagsfélagið Birting getað haft þann hátt á, að úrskurða í þrjú efstu sætin þau Bjarna P. Magnússon, Kristínu Á. Ólafsdóttur og Ólínu Þorvarðardóttur, hér talin í stafrófsröð til að draga úr líkum á misskilningi.

Til að spara langvinnar þrætur um misjafnt eignarhald þremenninganna á væntanlegu fylgi hins nýja framboðslista, hefði mátt draga nöfn þeirra úr hatti og raða á listann eftir því. Þá hefði enginn getað kvartað um baktjaldamakk og listinn orðið snyrtilegur að ofan.

Alþýðublaðið hefur sem fyrr segir miklar áhyggjur af þessum lista, sem blaðið stendur óbeint að. Í fréttaskýringunni eru rakið ýmislegt, sem gæti farið úrskeiðis, úr því að stjórnendur listans ákváðu í lýðræðiskasti að láta Reykvíkinga raða á hann í opnu prófkjöri.

Í fyrsta lagi gæti þátttakan orðið of mikil. Um það segir blaðið: “… er þó hugsanlegt, að eitthvað gæti farið úrskeiðis og niðurstöðurnar orðið aðrar en þær, sem um var samið”. Þar á ofan geti sem hægast farið svo, “að aðstandendur prófkjörsins missi tökin með öllu”.

Í öðru lagi gæti þátttakan orðið of lítil. Um það segir blaðið, að hægt sé “að hugsa sér, að fyrirfram umsamin úrslit gætu raskazt”. Það gæti til dæmis gerzt á þann hátt, “að innan annars hvors armsins yrði á síðustu stundu tekin ákvörðun um að rjúfa samkomulagið”.

Alþýðublaðið telur, að stjórnendur prófkjörsins muni á næstu dögum reyna að ákveða úrslit þess. Orðrétt segir blaðið: “Á næstu dögum verður væntanlega reynt að ná óformlegu samkomulagi milli alþýðuflokksmanna og birtingarfólksins um annað og þriðja sætið”,

Eftir allan þennan lestur er óhjákvæmilegt, að spurt sé, hvort ekki hefði verið vandaminna, að Alþýðuflokkurinn og Birting hefðu samið um málið og varpað hlutkesti í ágreiningsefnum án þess að klæða málið innan í opið prófkjör með fyrirfram ákveðnum úrslitum.

Greinin í Alþýðublaðinu sýnir vel, hvílík vandræði fylgja prófkjörum. Þau geta hæglega leitt til annarrar niðurstöðu en flokkseigendur telja heppilega. Hjá sjálfstæðismönnum hefði til dæmis getað risið upp öflugur eftirmaður Davíðs án tilverknaðar flokkseigenda.

Líklegt er, að flokkseigendur í Sjálfstæðisflokknum stefni að innreið Davíðs í landsmálin á næsta kjörtímabili, kjöri hans til Alþingis og síðan beint í forsætisráðherrastólinn. Þá er betra að geta í þröngum hópi valið eftirmann án þess að prófkjörsljón standi í vegi.

Afnám prófkjörs í Sjálfstæðisflokki og flókin vandræði aðstandenda hins nýja lista við framkvæmd prófkjörs sýna vel, hve erfitt eigendur flokka og lista eiga með að sætta sig við þá tilhugsun, að eitthvert fólk úti í bæ hafi áhrif á, hverjir komist til stjórnmálavalda.

Það heitir, að mál “,fari úrskeiðis”, menn “missi tökin” og úrslit “raskist”, enda sé hugsanlegt, að “óformlegt samkomulag” um “umsamin úrslit” verði “rofið”.

Jónas Kristjánsson

DV