Kærulausir klisjungar

Greinar

Ein sérkennilegasta ímyndun Íslendinga er, að umgengni þeirra við land sitt sé með slíkum ágætum, að forsætisráðherra geti grínlaust skipað hverja nefndina á fætur annarri til að undirbúa kynningu Íslands út á við sem hins hreina, heilbrigða og óspillta lands.

Í nýlegri könnun kom þó í ljós, að skolpmengun í fjörum er rúmlega tvöfalt meiri á Íslandi en í Evrópu, þótt þar séu miklu fleiri íbúar um hvern metra af fjöru. Hér er skolpi veitt óhreinsuðu niður í fjöru eða rétt niður fyrir fjöruborð, rottum og mávum og veirum að leik.

Í Reykjavík er skolpið volgt, þegar það kemur út í sjó. Það flýtur því ofan á sjónum og rýkur síðan á land aftur, ef áttin er óhagstæð. Skolpið skilur eftir hvíta húð á gluggarúðum borgarinnar. Og áratugum saman höfum við horft kærulaus á brúnan lit mengaðrar Tjarnar.

Við erum nokkrum áratugum á eftir nágrannaþjóðum í sorphirðu. Dæmi eru um, að sorp sé nýtt af mávi og hrafni í nokkra mánuði, áður en það er urðað. Brennsla sorps er þar á ofan mikill mengunarvaldur, því að reykurinn er fullur eiturefna og leggst oft yfir byggð.

Erlendis er sorp flokkað, baggað og brennt í ofnum. Á Reykjavíkursvæðinu verður brátt farið að bagga sorp, en síðan verður það urðað, í stað þess að brenna það í ofnum. Framför er þó í bögguninni eins og í ráðagerðum um að lengja skolpræsi langt niður fyrir sjávarmál.

Reykvíkingar hafa sæmilegt vatn, en víða annars staðar er vatn mun lakara en í iðnaðarlöndum Evrópu. Víðast hvar er vatn ekki fengið úr borholum, heldur úr lindum, brunnum eða frá yfirborðsvatni, sem er lélegt samkvæmt mælingum Hollustuverndar ríkisins.

7.900 manns búa hér við yfirborðsvatn. Um helmingur allra sýna úr slíku vatni er gallaður eða ónothæfur. 6.400 manns búa við brunnvatn, sem er lítið skárra. Og 80.000 manns búa við óhreinsað lindarvatn, þar sem fimmta hvert sýni bendir til gallaðs eða ónothæfs vatns.

Sem dæmi um ástandið má nefna, að á Ísafirði er fimmfalt til tífalt meira af saurgerlum og kólígerlum en leyfilegt er. Slíkt er náttúrlega afleitt, einnig fyrir útlendingana, sem á að glepja hingað á forsendum mengunarleysis. Við eigum á hættu, að upp um okkur komist.

Þá hafa vatnsból á Suðurnesjum verið að eyðileggjast vegna olíumengunar af Keflavíkurvelli. Og í Hafnarfirði eru menn svo sljóir fyrir þessu, að iðnaðarsvæði hefur verið skipulagt ofan á stærsta straumi grunnvatns á Íslandi. Þar er meðal annars ráðgerð malbikunarstöð.

Ekki er nóg með, að fjörur Íslands, sorphaugar og vatn sé afar mengað í samanburði við iðnaðarríki í Evrópu, heldur er loftmengun hér einnig yfir hættumörkum. Við ætlumst til, að vindar blási burt eitri frá álverum. Og við höfum engar reglur um útblástur bíla.

Við virðumst ekki gera okkur neina grein fyrir hraklegri frammistöðu okkar á flestum sviðum umhverfismála. Við virðumst hafa ákveðið í eitt skipti fyrir öll, að hér sé hreint og fagurt land ­ og að ekki þurfi síðan að hafa orð um það meira. Andvaraleysið er almennt.

Þar á ofan er meirihluti þjóðarinnar sáttur við, að hér sé stundað, á kostnað ríkissjóðs, stórfellt sauðfjárhald, sem eyðir um 40 ferkílómetrum lands á ári. Það samsvarar flatarmáli byggðarinnar í Reykjavík. Ofbeitin hér á landi er í stíl við aumustu lönd Afríku.

Forsætisráðherra hefur skipað tvær nefndir til að búa til af landinu ímynd, sem stenzt engan veginn, því að í umhverfismálum erum við kærulausir klisjungar.

Jónas Kristjánsson

DV