Við þökkum ráð Dana

Greinar

Við eigum að taka vel eftir því, sem Uffe Ellemann-Jensen, utanríkisráðherra Dana, hefur sagt okkur um stöðu Norðurlanda gagnvart Evrópubandalaginu. Við eigum að gera það, þótt við séum ekki á þeim buxunum að ganga í bandalagið, eins og hann vill.

Ellemann-Jensen heldur fram, að viðræður Fríverzlunarsamtakanna við Evrópubandalagið gangi ekki eins vel og norrænir utanríkisráðherrar vilja vera láta. Er það raunar staðfesting á grun, sem áður hefur komið fram, meðal annars nokkrum sinnum í leiðara DV.

Við vitum af annarri reynslu, að Sten Andersson, utanríkisráðherra Svíþjóðar, hefur sérkennilegar skoðanir á utanríkismálum. Hann hefur reynzt Litháum þungur í skauti, meðal annars með yfirlýsingum um, að sjálfstæðissinnar séu öfgasinnaður minnihlutahópur.

Erfitt er að skilja fullyrðingar Anderssons, sem sumar hverjar eru studdar af Jóni Baldvin Hannibalssyni utanríkisráðherra, um, að Ellemann-Jensen sé að sá misklíð og klofningi á Norðurlöndum með klunnalegum afskiptum af viðkvæmu máli, og beri að afþakka slíkt.

Hér í DV og víðar hefur verið haldið fram, að við eigum að reyna að koma á tvíhliða viðræðum við Evrópubandalagið og einstök ríki innan þess. Þetta jafngildir ekki tillögu um að hætta viðræðum á vegum Fríverzlunarsamtakanna, eins og Jón Baldvin gefur í skyn.

Einnig er rangt, sem stundum er fullyrt, að Evrópubandalagið hafi bannað tvíhliða viðræður. Þeir, sem óska eftir viðræðum, fá yfirleitt viðræður, hvort sem er í viðskiptum milli fyrirtækja, ríkja eða samtaka. Við þurfum sjálf að gæta okkar fiskveiðihagsmuna.

Við verðum að viðurkenna, að Evrópubandalagið er orðið að öflugum segli. Útflutningsafurðir okkar fara í vaxandi mæli til ríkja innan þess, miklu frekar en til ríkja í Fríverzlunarsamtökunum og til Bandaríkjanna. Og Japan er of langt í burtu til að vera sambærilegt.

Austur-Evrópa beinir augum sínum að Evrópubandalaginu, en alls ekki að Fríverzlunarsamtökunum, þótt þau hafi stundum verið kölluð biðstofa bandalagsins. Fríverzlunarsamtökin eru að verða norrænn klúbbur, sem gagnast íslenzkum útflutningi ekki nógu vel.

Evrópubandalagið er engin fyrirmyndarstofnun. Það er verndarstofnun gamalla atvinnugreina og fyrirtækja í Evrópu gegn hagkvæmara atvinnulífi í Norður-Ameríku og Suðaustur-Asíu. Bezta lýsingin á bandalaginu er, að það sé risavaxið landbúnaðarráðuneyti.

Aðdráttarafl bandalagsins felst ekki í, að það sé að flestu leyti indælt, heldur stafar það af, að þjóðir í nágrenni þess vilja ólmar komast inn fyrir dyr. Það eru viðbrögð annarra þjóða, til dæmis hugsanlega Norðmanna, sem knýja okkur til að ræða við bandalagið.

Við höfum að mörgu leyti góðan viðskiptasamning við bandalagið, þótt saltfisktollar valdi okkur erfiðleikum. Við viljum gjarna geta haldið áfram að haga seglum eftir vindi og stunda gagnkvæma fríverzlun við önnur viðskiptaveldi, svo sem einkum Japan og Bandaríkin.

Bezt væri fyrir okkur að geta verið utan bandalaga í þjóðbraut siglinga og flugs milli hinna stóru viðskiptasegla heimsins og bjóða hér fríhöfn fyrir hvers konar vörur og þjónustu. En íslenzkir stjórnmálamenn eru því miður ekki nógu víðsýnir til að efla slíka sérstöðu.

Og raunar hefur í vetur verið meira vit í orðum Ellemann-Jensens heldur en orðum Andersons og Jóns Baldvins. Verið getur, að við eigum engra kosta völ.

Jónas Kristjánsson

DV