Norræn svik

Greinar

Innrás Rauða hersins í Litháen virðist ætla að takast, því að umheimurinn lætur sig í raun litlu varða þetta smáríki við Eystrasalt. Gorbatsjov hefur tekizt að telja vestrænum stjórnvöldum trú um, að framtíð hans í valdastóli skipti þau meira máli en framtíð Litháa.

Innrás Rauða hersins í Litháen er innrás, þótt ekki hafi verið hleypt af skoti. Ljóst er, að vopnin hefðu verið látin tala, ef Litháar hefðu gripið til varna. Þeir sáu, að það var vonlaust, en það breytir hvorki eðli innrásarinnar sem innrásar né lexíunni, sem hún kennir okkur.

Bezt hefði verið, að Ísland hefði viðurkennt sjálfstæði og fullveldi Litháens, áður en Rauði herinn réðist inn í landið, svo sem lagt var til hér í blaðinu á þeim tíma. Þá hefði íslenzk viðurkenning haft hagnýtt gildi fyrir Litháa, en nú hefur hún aðeins táknrænt gildi.

Halda má fram, að táknrænt gildi sé ekki nægilega mikið gildi. En utanríkisráðherra okkar er ekki rétti aðilinn til að halda slíku fram, því að hann ákvað sjálfur, að viðurkenna ekki Litháen fyrir innrás. Hann bjó því sjálfur til kringumstæðurnar, sem hann vitnar til.

Utanríkisráðherra hefur í annað sinn á ferli sínum tekið í utanríkismálum alvarlega ákvörðun, sem hlýtur að sneiða að sjálfsvirðingu Íslendinga sem nýsjálfstæðrar þjóðar. Hann hefur tekið skýra afstöðu með Ísrael gegn Palestínu og með Sovétríkjunum gegn Litháen.

Að venju er hundalógík notuð til varnar þessum málstað, sem fer okkur illa sem nýfrjálsri þjóð. Ráðherra skýlir sér á bak við, að árið 1920 hafi Danmörk fyrir okkar hönd viðurkennt sjálfstæði og fullveldi Litháens og ekki afturkallað viðurkenninguna árið 1940.

Auðvitað er það pólitísk ákvörðun ráðherra að beita þessum orðhengilshætti fremur en einhverjum öðrum. Ef menn vilja styðja við bakið á Litháum árið 1990, er það hægt, hver sem er lögfræðileg staða ákvarðana danskra stjórnvalda frá því fyrir 50 og 70 árum.

Svo er táknrænt, að utanríkisráðherra Íslands skuli nota ákvörðun gamals heimsveldis, Danmerkur, fyrir hönd þáverandi undirþjóðar, Íslendinga, til að styðja annað heimsveldi, Sovétríkin, gegn undirþjóðinni Litháum. Í báðum tilvikum var undirþjóðin ekki spurð.

Þótt hlutur okkar í máli þessu sé slæmur, er hlutur ýmissa annarra þó mun verri. Utanríkisráðherra Svíþjóðar er hallur undir Sovétríkin og hefur hrósað stjórn Gorbatsjovs í Sovétríkjunum fyrir varkárni í viðskiptum sínum við hina nýju stjórn í Litháen.

Utanríkisráðherra Svía var í haust búinn að segja, að það væri “minnihlutahópur öfgamanna”, sem síðan hefur unnið kosningar í Litháen og er þar við stjórnvöl. Hann er á sömu línu og Páll Pétursson þingflokksformaður, sem kallaði þetta fólk “mótþróalið”.

Utanríkisráðherra Svíþjóðar virðist hafa svipaða skoðun á forseta Litháen og hann hefur á utanríkisráðherra Danmerkur, sem hann hefur ráðizt að með fúkyrðum fyrir góð ráð í sambandi við Evrópubandalagið. Furðulegt er, að Svíar skuli geta notað ráðherrann.

Litháar gátu einna helzt vænzt stuðnings Norðurlanda, því að þau hafa ekki heimsveldishagsmuna að gæta og hafa löngum litið á Eystrasaltsríkin þrjú sem eins konar skjólstæðinga, er til greina geti komið að taka inn í veizlubandalag, sem heitir Norðurlandaráð.

Skemmst er frá því að segja, að Norðurlandabúar, með Svía í broddi fylkingar og Íslendinga í eftirdragi, hafa gersamlega brugðizt skyldum sínum við Litháa.

Jónas Kristjánsson

DV