Veðjað á rangan hest

Greinar

Innrás Sovétríkjanna í Litháen er innrás og valdbeiting, þótt skotum hafi ekki verið hleypt af. Það er Litháum að þakka, en ekki Rauða hernum, að mannfall hefur ekki orðið. Þeir hafa neitað að láta Rússa koma sér úr jafnvægi og neitað að gefa höggstað á sér.

Rauði herinn hefur flutt mikinn herafla inn í Litháen. Hann hefur hertekið nokkrar mikilvægar stofnanir, svo sem skrifstofu ríkissaksóknara og prentsmiðjur dagblaða. Hann hefur reynt að koma í veg fyrir útgáfu allra dagblaða, nema þess, sem styður innrás Rússa.

Rauði herinn hefur rænt tugum ungra Litháa, sem neita að gegna herþjónustu hjá hinu útlenda hernámsliði. Í því skyni hefur hann brotizt inn í sjúkrahús og kirkjur, þar sem þeir hafa falið sig. Allt eru þetta dæmigerð ofbeldisverk innrásarliðs, sem fer sínu fram.

Úr þyrlum hefur Rauði herinn dreift miðum, þar sem rússneskumælandi innflytjendur í Litháen eru hvattir til að reyna að koma illu af stað, svo sem með því að mæta á fjöldafundi og fara í mótmælagöngur. Þetta hefur ekki tekizt, en sýnir vel vinnubrögð ögrunar.

Samningar, sem kunna að vera gerðir í kjölfar slíkrar innrásar og valdbeitingar, eru ekki meira virði en samningarnir, sem gerðir voru 1940, þegar Litháen var innlimað í Sovétríkin í skjóli valdbeitingar. Sovétmenn viðurkenna sjálfir, að þeir samningar eru ógildir.

Opnunin í Sovétríkjunum er snögglega horfin. Gorbatsjov er með sífelldar hótanir og ógnanir. Fjölmiðlar í Sovétríkjunum tyggja upp eftir honum ósómann, nákvæmlega eins og í gamla daga, áður en Gorbatsjov fór að fitla við lýðræðiseldinn. Það var marklaust fitl.

Snögglega hefur sannazt gömul regla, sem vestrænir ráðamenn, einkum bandarískir, hafa ekki skilið nógu vel. Hún er, að persónuleg sambönd koma ekki í stað utanríkisstefnu. Sá, sem setur traust sitt á persónu í útlöndum, verður fyrir vonbrigðum, þegar á reynir.

Þannig hafa Bandaríkin sett traust sitt á langa röð ógæfumanna, svo sem Somoza í Nicaragua, Noriega í Panama, Reza keisara í Persíu, Marcos á Filippseyjum og loks Deng, sem Bush Bandaríkjaforseti heldur, eftir sendiherratíð sína í Beijing, að sé sinn maður í Kína.

Einu sinni var Krústsjov ljúflingur Bandaríkjamanna í Sovétríkjunum. Núna er það Gorbatsjov. Nær væri að taka mark á refnum Gromyko, sem segir, að Gorbatsjov hafi stáltennur, þótt hann brosi breitt. Gorbatsjov stefnir ekki til lýðræðis í Sovétríkjunum, heldur eigin einræðis.

Þegar Ceausescu riðaði af stalli í Rúmeníu, sendu Vesturlönd þau skilaboð til Kremlar, að hernaðarleg afskipti Rússa af rúmenskum innanríkismálum væru vel þegin. Þegar uppþotin urðu í Azerbajdzhan og Armeníu, fögnuðu Vesturlönd hernaðarafskiptum Rússa.

Þannig skrifuðu Vesturlönd, undir forustu Banda ríkjanna, formálann að innrás Rauða hersins í Litháen. Vesturlönd hafa veðjað á einn hest rangan í Sovétríkjunum og sætta sig við allt, sem hann gerir. Þessi hestur er Gorbatsjov og á eftir að valda miklum vandræðum.

Enn er ekki of seint fyrir Bandaríkin og Vesturlönd öll að viðurkenna formlega sjálfstæði og fullveldi Litháens. Enn er ekki of seint að kæra Gorbatsjov fyrir Alþjóðadómstólnum í Haag og leiða votta að því, að hernám Litháens hafi verið ólöglegt, bæði 1940 og 1990.

Fyrst og fremst verðum við að átta okkur á, að Gorbatsjov er einræðisherra, sem meinar ekkert með opnun, heldur notar hana til að hlaða undir sig völdum.

Jónas Kristjánsson

DV