Þrumufleygur ráðherrans

Greinar

Sumir græddu og aðrir töpuðu, þegar sjávarútvegsráðherra skipti snögglega um skoðun á miðvikudaginn og leyfði útflutning á ferskum fiskflökum. Þeir græddu ekki eða töpuðu á dugnaði sínum eða dugleysi, snilli sinni eða vangetu, heldur á ráðherraúrskurði að ofan.

Áður hafði ráðherra tekið hliðstæða og snögga ákvörðun, þegar hann bannaði þennan sama útflutning. Þá hafði hann feiknarleg áhrif á afkomu margra fyrirtækja og fjölskyldna í landinu. Þannig er lýðveldið Ísland í vaxandi mæli starfrækt sem ráðherraveldi.

Í heilbrigðu þjóðfélagi markaðsbúskapar eru leikreglur öllum ljósar. Mikill fjöldi fyrirtækja og fjölskyldna getur gert skynsamlegar áætlanir og hnikað þeim til eftir aðstæðum á hverjum tíma. Þeir blómstra, sem taka réttar ákvarðanir í traustum ramma leikreglna.

Í heilbrigðu þjóðfélagi markaðsbúskapar byggist velgengni manna á góðum hugmyndum um vöru eða þjónustu, sem kemur kaupendum að gagni; á hagkvæmum aðferðum við að koma upp framleiðslu á þessari vöru og þjónustu; og á skynsamlegri fjármögnun dæmisins.

Í sjúku þjóðfélagi ráðherraeinræðis byggist velgengni fyrirtækja og fjölskyldna á því, hvort unnt sé að fá valdagráðuga ráðherra til að setja reglugerðir, annað hvort um bann við einhverju eða um leyfi til einhvers, og allra helzt um hvort tveggja til skiptis.

Í sjúku þjóðfélagi ráðherraeinræðis byggist velgengni fjölskyldna og fyrirtækja á því, hvort þau hafa í tæka tíð og á undan öðrum upplýsingar úr kerfinu um, hvar þrumustaf ráðherrans beri niður næst. Menn spá í hugsanlegar reglugerðir, en ekki hugsanlega markaði.

Þetta minnir á gamla daga, þegar Samband íslenzkra samvinnufélaga græddi töluvert á gengisbreytingum. Þá virtist Sambandið vita fyrirfram um ákvarðanir, sem ráðherrar tóku skyndilega. Spádómar um gerðir ráðherra voru og eru arðbærasti rekstur á landinu.

Gerræðislegar ákvarðanir ráðherra þarf ekki endilega að setja fram með dólgslegum yfirlýsingum að hætti Ólafs Ragnars Grímssonar. Þær geta verið settar fram á hæglætislegan og syfjulegan hátt Halldórs Ásgrímssonar. En þær eru ekki skaðminni fyrir það.

Á söguöld var sagt um Íslendinga til aðgreiningar frá öðrum þjóðum, að engan vildu þeir hafa yfir sér, nema lögin. Þá sögðu menn, að með lögum skuli land byggja. Nú gildir, að með ráðherraorði skuli land byggja. Ráðherrar hafa tekið við af lögum sem hornsteinn Íslands.

Niðurstaða skoðanakönnunar um daginn benti til, að meirihluti okkar teldi rétt af ráðherra að setja fyrri reglugerðina um bann við útflutningi á ferskum fiskflökum. Ef nú yrði spurt, mundi meirihluti vafalaust líka fylgja síðari reglugerðinni. Fólk styður guð sinn.

Sjávarútvegsráðherra er vinsælasti stjórnmálamaður landsins um þessar mundir. Hann hefur líka gengið lengst í að gera útgerð á reglugerðir að höfuðatvinnuvegi í landinu. Hann hefur byggt upp gífurlega flókið ríkiskerfi kvóta og aflamiðlunar, boða og banna.

Þetta er einmitt, sem meirihluti þjóðarinnar vill. Hún telur hag sínum bezt borgið með sem flestum reglugerðum. Hún vill boð og bönn. Hún velur sér þingmenn, bæjarstjóra, framkvæmdastjóra og formenn, sem líklegir eru til að sækja gull í greipar ráðherranna.

Trúin á mátt og megin ráðherra, á þrumufleyg hins pólitíska guðs, sem malar mér gull, dregur úr líkum á, að þjóðin sæki sér ekta gull í greipar markaðarins.

Jónas Kristjánsson

DV