Ruglað saman reytunum

Greinar

Fjármálaráðherra hefur undanfarið verið á pólitískri áróðursferð um landið og borgarstjóri hefur gefið út pólitískan áróðursbækling. Fjármálaráðherrann lætur skattgreiðendur borga sína áróðursferð og borgarstjóri lætur útsvarsgreiðendur borga sinn áróðursbækling.

Hvort tveggja á sér langa hefð, sem helgast af, að kjósendur kippa sér ekki upp við rugling á reytum óskyldra aðila. Bláar bækur tíðkuðust í Reykjavík áratugum saman og ráðherrar hafa ferðazt flokkspólitískt á okkar kostnað lengur en elztu menn muna.

Við spillingu er unnt að bregðast á ýmsan hátt. Á Vesturlöndum þykir til siðs, að kjósendur reyni með atkvæði sínu að losna við hana. Hér á landi ber meira á, að menn reyni sjálfir að komast inn í hana. Menn vilja gerast aðilar að fyrirgreiðsluþjóðfélaginu.

Víða um land eru þingmenn vegnir og metnir eftir dugnaði við að færa björg í bú af herfangi byggðastefnunnar. Spurt er, hvort þeir geti útvegað opinbert fé til að koma á fót eða bjarga undan hamri tízkufyrirbærum eins og fóðurstöðvum, skuttogurum og laxeldisstöðvum.

Gengi ofangreindra flokksleiðtoga er misjafnt og ræðst ekki að neinu leyti af flokkslegri meðferð almannafjár. Annar er óvinsælasti stjórnmálamaður líðandi stundar og hinn er sá vinsælasti. Kjósendur kunna að meta framgöngu annars þeirra, en þola ekki hinn.

Í umræðum um notkun ráðherrabíla kom fram, að ráðamenn þjóðarinnar telja, að næstum öll notkun þessara bíla sé opinber, nema helzt heimsóknir til persónulegra kunningja. Þeir virðast til dæmis telja, að réttmætt sé, að ferðir í þágu flokks greiðist af ríkinu.

Sem betur fer er að byrja að vakna skilningur á, að flokkur og ríki eru stofnanir með óskyldum fjárhag. Ráðherrar eru orðnir feimnari en áður við að halda flokksveizlur á kostnað ríkisins og eru hættir að senda áfengi í afmælisboð mikilvægra flokksbræðra sinna.

Langt er þó enn í land. Forsætisráðherra upplýsti 14. febrúar, að það sé “svo fáránlegt, að það tekur engu tali”, að ráðherrar þurfi að borga hlunnindaskatt vegna notkunar á ríkisbíl. Þetta var svar ráðherrans við afskiptum ríkisskattstjóra af líklegu skattsvikamáli.

Forsætisráðherra og öðrum valdamönnum fannst sjálfsagt, að forstjórar fyrirtækja borguðu hlunnindaskatt vegna notkunar á bíl fyrirtækis, þegar sett voru lög og reglur um meðferð slíkra mála. Sömu reglur eru svo sagðar “fáránlegar”, þegar þær verða óþægilegar.

Ráðherrar fá hjá ríkinu sömu dagpeninga og embættismenn, þegar þeir eru á ferðalögum í útlöndum. Síðan komast ráðherrarnir upp með að senda ríkinu reikninga fyrir öllum ferðakostnaði, svo sem gistingu og uppihaldi. Dagpeningar ráðherra eru því hreinn kaupauki.

Á þessum sérkennilegu kjörum eru ráðherrar ekki aðeins, þegar þeir eru í erindum ríkisins. Þeir nota þetta líka, þegar þeir eru í ferðum á vegum flokks síns. Komið hefur fram, að forsætisráðherra telur slíkt sjálfsagt, enda er hann ekki í stjórnarandstöðu að þessu sinni.

Ráðherrar skammta sjálfum sér nokkrum sinnum betri lífeyrisrétt en tíðkast hjá öðrum stéttum ríkiskerfisins og þjóðfélagsins í heild. Með þessari sérstöðu einni hefur forsætisráðherra náð sér í aukatekjur, sem jafngilda 138.000 krónum á mánuði fyrir utan aðrar tekjur.

Valdamenn munu halda áfram að rugla saman reytum skattgreiðenda, stjórnmálaflokka og sínum eigin, unz kjósendur ákveða, að slíkt sé ekki lengur við hæfi.

Jónas Kristjánsson

DV