Miðstýrð mengun

Greinar

Opnun Austur-Evrópu hefur leitt í ljós, að mengun er þar mjög mikil, margfalt meiri en á Vesturlöndum. Þetta hefur komið sumum á óvart, því að þeir töldu, að miðstýrð þjóðfélög gætu fremur ráðið við mengun en þjóðfélög, þar sem einkarekstur leikur lausum hala.

Þetta er eins og skólakerfið í Austur-Þýzkalandi, sem sumir töldu, að væri agaðra og betra en kerfið í Vestur-Þýzkalandi, af því að í skólamálum væri um að ræða samfélagslegt átak, er hentaði tiltölulega vel þjóðfélagskerfi, sem miðstýrt er með harðri hendi að ofan.

Í ljós hefur hins vegar komið, að nám í Austur-Þýzkalandi hefur ekki verið eins skilvirkt og nám vestan tjalds. Prófgráða að austan er til dæmis lítils virði í samanburði við hliðstæða prófgráðu að vestan, þrátt fyrir vestrænt agaleysi og truflandi áhrif freistinga.

Víðáttumikil svæði í Austur-Evrópu hafa eyðilagzt af mengun. Stórfljót renna fram eins og skolpræsi með fjallháum haugum af froðu og lituð úrgangsefnum. Skógar eru að falla úr súru regni. Helmingur drykkjarvatns er óhæfur til notkunar, að vestrænu mati.

Í iðnaðarhéruðum Póllands hafa rannsóknir á konum, sem ganga með barni, sýnt, að í vefjum þeirra hafa setzt að blý, kvikasilfur og önnur eiturefni, sem eru hættuleg ófæddum börnum, í miklu meiri mæli en talið væri verjandi í iðnaðarhéruðum Vesturlanda.

Meðalaldur í Austur-Evrópu er mun lægri en í Vestur-Evrópu, bæði vegna mengunar og slælegs heilbrigðiseftirlits. Raunar hefur meðalaldur víða farið lækkandi í Austur-Evrópu, meðal annars vegna mikils ungbarnadauða. Og þetta eru lönd félagslegrar hugmyndafræði.

Á Íslandi hafa margir áhyggjur af mengun frá álverum. Í fjölmiðlum er fólk oft að lýsa áhyggjum af, að ekki verði tryggilega gengið frá mengunarvörnum í nýju álveri, sem fyrirhugað er að reisa. Fólk óttast, að þorsti ráðamanna í álver verði fyrirhyggju yfirsterkari.

Það er einmitt þras af þessu tagi, sem hefur vantað í Austur-Evrópu. Þar hefur ekki verið neitt samtal milli yfirvalda og almennings, aðeins tilskipanir að ofan. Austantjalds var enginn, sem gegndi því hlutverki, sem frjálsir fjölmiðlar gegna með sóma á Vesturlöndum.

Miðstjórnir í Austur-Evrópu einangruðust í turnum sínum. Þær vissu ekki um hræringar og skoðanir í þjóðfélaginu. Þær höfðu allt vald í sínum höndum, líka til að gera góða hluti, en vissu ekki, hverjir voru góðu hlutirnir, af því að sambandið að neðan var ekkert.

Á Vesturlöndum er valdi hins vegar dreift á marga staði. Ríkisvaldið eitt hefur ekki allt vald. Atvinnulífið hefur vald, stéttarfélögin hafa vald, fjölmiðlarnir hafa vald og hagsmunasamtökin hafa vald. Þessar mörgu valdamiðstöðvar halda hver annarri í skefjum.

Til dæmis hafa fyrirtæki og samtök fyrirtækja á Vesturlöndum vald til að þráast gegn opinberum aðgerðum, sem valda fyrirtækjum kostnaði í mengunarvörnum; vald, sem hliðstæð fyrirtæki og samtök hafa ekki í Austur-Evrópu. Samt hefur Vesturlöndum tekizt betur til.

Það er dreifing valdsins og jafnvægi milli margra handhafa valds, sem ræður úrslitum um, að lýðræði er áhrifameira þjóðskipulag en eins flokks miðræði. Hámarki nær jafnvægið í, að fólk getur í kosningum haft skipti á þeim stjórnmálaflokkum, sem eru við völd.

Vegna þessa ráða ríki markaðsbúskapar og valddreifingar betur en miðstýrð ríki við samfélagsleg verkefni á sviði félagsmála, menntunar, heilbrigði og mengunar.

Jónas Kristjánsson

DV