Glerþak á Laugavegi

Greinar

Einkaaðilar munu í sumar byrja að reisa glerþak yfir stutta kafla Laugavegar. Það er félag, sem heitir Gamli miðbærinn, er borgar þetta og hyggst ná peningunum til baka með auglýsingum. Í félaginu eru einkum miðbæjarkaupmenn, sem reyna að verjast Kringlunni.

Hér í leiðurum DV hefur árum saman verið hvatt til, að Laugavegurinn yrði yfirbyggður, svo að fólk geti rekið erindi sín og verzlað án tillits til skapferlis veðurguðanna. Nú er loksins hafin tilraun til að framkvæma þetta sjálfsagða framfaramál í borgarskipulaginu.

Athyglisvert er, að það er ekki borgin sjálf, sem hefur frumkvæði í málinu. Það er líka athyglisvert, að það er ekki heldur neitt baráttumál þeirra, sem vilja mynda nýjan meirihluta í borgarstjórn. Það eru aðilar utan stjórnmála, sem taka af skarið og fjármagna dæmið.

Aðstandendur glerþakanna segja, að þeir geti yfirbyggt allan Laugaveginn á þremur árum, ef tilraunin tekst næsta vetur og vel gengur að ná peningum. Þeir vilja þó af eðlilegum ástæðum, að borgin taki við verkefninu, þegar þeir hafa hrundið því á flot.

Í borgarskipulagi og byggðaskipulagi á Íslandi hefur aldrei verið tekið tillit til erfiðs og breytilegs veðurfars. Samt er auðvelt að sjá, að Íslendingar kjósa að þurfa ekki að fara út undir bert loft, ef eitthvað er að veðri. Þetta sýnir velgengni Kringlunnar meðal annars.

Þar hefur verið búin til göngugata á tveimur hæðum. Þar getur fólk rölt um í rólegheitum án þess að þurfa að vefja sig flíkum, setja undir sig höfuðið og leggja út í rokið og rigninguna. Þar hefur verið búið til miðbæjarandrúmsloft eins og sjá má í útlöndum.

Íslendingar vilja eiga innangengt úr húsi sínu í bílgeymsluna. Þeir vilja geta ekið einkabíl sínum í bílgeymslu vinnustaðar eða í bílgeymsluhús, þaðan sem innangengt er á vinnustað eða í verzlun og þjónustu, sem þeir þurfa að nota. Þetta er einföld krafa.

Ísland er raunar þannig í sveit sett, að heppilegast er, að verzlun og þjónusta sé sem þéttast saman undir þaki. Það hindrar ekki, að fólk geti haft vítt á milli heimila sinna, svo framarlega sem gangstéttir og götur eru upphitaðar, svo sem nú er víða farið að prófa.

Ef fólk notar strætisvagna, sem það gerir aðeins, ef það hefur ekki bílpróf, til dæmis vegna aldurs, vill það hafa stór og góð biðskýli, sem eru upphituð. Það vill fara úr vögnunum undir þaki og geta síðan komizt leiðar sinnar, án þess að klífa snjódyngjur og svellbunka.

Svæðið umhverfis Laugaveg og nágrannagötur hans á að skipuleggja þannig, að fólk geti annað hvort komið á einkabílum eftir breikkuðu Sætúni og ekið upp í bílageymslur rétt neðan við Laugaveginn eða komið í strætisvögnum beint inn á Laugaveg á nokkrum stöðum.

Markmiðið er, að fólk geti undir þaki gengið úr bíl sínum eða strætisvagni að Laugaveginum og að það geti gengið Laugaveg og Austurstræti undir glerþaki alla leið frá Hlemmi til Aðalstrætis. Þetta er framkvæmanlegt og endurreisir borgarlíf í gamla miðbænum.

Komið hefur í ljós, að Kringlan var það, sem fólk vildi. Þá reynslu má nýta til að endurreisa blómlegan og líflegan miðbæ í Reykjavík. Það gerist bezt með nægum bílageymslum undir þaki við Laugaveg og Austurstræti og með glerþaki yfir Laugaveg og Austurstræti.

Einkennilegt er, að borgarmálafólk í valdastólum og utan þeirra skuli ekki fjalla meira um þetta grundvallaratriði í borgarskipulagi á 64. gráðu norðlægrar breiddar.

Jónas Kristjánsson

DV