Sigurinn var ósigur

Greinar

Fleiri voru atvinnulausir hér á landi í síðasta mánuði en verið hafa í þeim mánuði í rúman áratug. Ástandið er meira að segja verra en í fyrra. Sem dæmi má nefna, að atvinnulausu skólafólki hefur fjölgað úr 600 í 800 milli ára. Var þó talað um neyðarástand í fyrra.

Efnahagsbatinn, sem fjármálaráðherra heldur fram, að orðið hafi hér á landi, hefur ekki komið fram í þenslu á vinnumarkaði. Margir reiknuðu með, að umsvif í þjóðfélaginu færu að lifna við með vorinu, en sú von hefur algerlega brugðizt. Við erum á leið í vaxandi kreppu.

Efnahagsbatinn, sem fjármálaráðherra heldur fram, að orðið hafi hér á landi, hefur ekki komið fram í aukinni framleiðslu í landinu. Efnahags- og framfarastofnunin segir, að landsframleiðsla Íslands hafi í fyrra dregizt saman um 3,4% og muni ekki aukast á þessu ári.

Efnahagsbatinn, sem fjármálaráðherra heldur fram, að orðið hafi hér á landi, hefur ekki komið fram í aukningu þjóðarauðs á hvern íbúa landsins. Seðlabankinn hefur birt tölur, sem sýna, að skuldlaus þjóðarauður hefur raunar minnkað á mann allan níunda áratuginn.

Efnahagsbatinn, sem fjármálaráðherra heldur fram, að orðið hafi hér á landi, hefur ekki komið fram í minnkuðum lántökum Íslendinga í útlöndum. Í fyrra var raunar slegið Íslandsmet, þegar erlend lán urðu 51,3% af landsframleiðslu, en höfðu mest áður numið 51,1%.

Af áróðursferðum fjármálaráðherra um landið og auglýsingum hans í fjölmiðlum mætti ætla, að þjóðarhagur væri á uppleið. Svo er ekki. Erlendar skuldir eru vaxandi byrði, framleiðsla fer heldur minnkandi og atvinnuleysi fer heldur vaxandi. Kreppan stendur enn.

Eini árangurinn, sem náðst hefur, er, að verðbólga hefur minnkað og er núna innan við 10%. Það er að sumu leyti eðlileg afleiðing þess, að samdráttur hefur leyst þenslu af hólmi. Að hinu leytinu er þetta að þakka þjóðarsáttinni, sem gerð var um kjarasamninga í vetur.

Fjármálaráðherra getur auðvitað þakkað sér og ríkisstjórninni fyrir þjóðarsáttina, því að stjórnvöld áttu þátt í henni. Það er hins vegar séríslenzkt fyrirbæri að telja slíka þjóðarsátt vera af hinu góða. Efnahags- og framfarastofnunin hefur varað okkur við þeim.

Við gerðum þjóðarsátt um fátækt. Við gerðum þjóðarsátt um að taka ekki á vanda, sem við höfum verið að safna. Við gerðum þjóðarsátt um að halda mistökunum áfram og borga fyrir þau með lakari lífskjörum. Við gerðum þjóðarsátt um framhald á sjálfspyndingum.

Samkvæmt þjóðarsáttinni verður haldið áfram að kasta á glæ fimmtán milljörðum króna á ári með stuðningi við hefðbundinn landbúnað. Samkvæmt þjóðarsáttinni verður haldið áfram að kasta á glæ milljörðum með opinberum fyrirgreiðslusjóðum handa gæludýrum.

Samkvæmt þjóðarsáttinni höldum við áfram að vinna eins og skepnur til að standa undir lífskjörum, sem við neitum okkur um að fá á auðveldari hátt með því að beita skynsemi. Samkvæmt þjóðarsáttinni sættum við okkur við svimandi verðlag á innlendum matvælum.

Þannig hefur ríkisstjórn, með hjálp stéttarfélaga og þjóðar, tekizt að halda verðbólgunni í skefjum án þess að leysa nein vandamál með því. Þannig hefur tekizt að koma lífskjörum á Íslandi, miðað við vinnuframlag og verðlag, niður í það, sem er í Portúgal.

Sigurinn á verðbólgu var sigur þjóðarsáttar um fátækt og minnkandi þjóðarauð, ofanstýrt kvótakerfi og ráðherrastýrðar fyrirgreiðslur. Sigurinn var ósigur.

Jónas Kristjánsson

DV