Begijnensteeg
Við yfirgefum fortíðina í Historisch Museum og höldum áfram suður Kalverstraat. Næsta hliðargata til hægri er Begijnensteeg, þar sem við beygjum til hægri. Þar er skemmtileg bjórkrá, Pilsener Club (sjá bls. 49). Einnig er þar rómantískt veitingahús, Bistrogijn, með steindum gluggum, gamalhollenzkum húsbúnaði og kertaljósum. Gatan stefnir beint að hliðinu á Begijnhof.
Við hefðum líka getað komizt hingað beint úr safninu bakdyramegin. Þá hefðum við farið um Varðmannasalinn, sem er tveggja hæða glerskáli með stórum málverkum af hetjum Amsterdam, er söfnuðust saman 1580 til að verja borgina fyrir hertoganum af Alba.
Begijnhof
Begijnhof er kyrrlátur unaðsreitur mitt í ys og þys stórborgar-innar. Þar kúra saman smáhýsi í kringum stóra garðflöt og kirkju. Þetta var öldum saman heimili kristilegra kvenna, sem þó voru ekki vígðar sem nunnur. Slík kristileg kvennaþorp hafa hvergi varðveitzt nema hér og í Breda.