Skýrar línur ­ sterkir menn

Greinar

Það var fyrst og fremst á höfuðborgarsvæðinu og í Keflavík og Vestmannaeyjum, sem Sjálfstæðisflokkurinn vann hinn mikla sigur sinn í byggðakosningunum. Annars staðar á landinu stóð flokkurinn í stórum dráttum í stað, tapaði manni hér og vann mann þar á víxl.

Einn flokkanna í fjögurra eða fimm flokka kerfi íslenzkra stjórnmála hefur náð 60­70% fylgi í nokkrum sveitarfélögum á höfuðborgarsvæðinu, Reykjavík, Mosfellssveit, Seltjarnarnesi, Garðabæ og Álftanesi. Þessi meirihluti er ekki bara mikill, heldur hrikalegur.

Freistandi væri að álykta, að Sjálfstæðisflokkurinn væri orðinn flokkur höfuðborgarsvæðisins, þótt hann hafi náð góðum árangri sums staðar utan svæðisins. En hann hefur samt ekki meirihluta í Kópavogi og er í miklum minnihluta í Hafnarfirði, bæ Alþýðuflokksins.

Sjálfstæðisflokknum gekk mun betur, þar sem andstæðingar hans tefldu fram gegn honum sameiginlegu framboði tveggja eða fleiri stjórnmálaflokka. Slíkir listar voru einkum í boði á höfuðborgarsvæðinu og skýra að hluta til fylgismun Sjálfstæðisflokksins á svæðinu.

Lakast gekk Sjálfstæðisflokknum í því bæjarfélagi svæðisins sem bauð upp á einn sterkan andstöðuflokk með sinn eigin Davíð. Það var í Hafnarfirði, þar sem Alþýðuflokkurinn vann mikinn sigur, er endurspeglaðist alls ekki í kosningasigri annars staðar á landinu.

Af þessu má ráða, að kjósendur á höfuðborgarsvæðinu séu fyrir hreinar og skýrar línur. Þeir vilji sterka menn í stjórnmálin og hreina meirihluta eins flokks. Á þessu græðir Sjálfstæðisflokkurinn, nema í Hafnarfirði, þar sem Alþýðuflokkurinn hefur svipaða stöðu.

Alþýðuflokkurinn hefur nú fengið formannsefnið og í þetta sinn á silfurfati. Þegar flokkurinn sannfærist um, að ástir A-flokkanna hafi ekki náð árangri, verður núverandi formanni refsað, af því að hann er formaðurinn og af því að hann hafði frumkvæði að rauða ljósinu.

Alþýðubandalagið vantar sinn Guðmund Árna út úr byggðakosningunum. Það býr við lamaðan formann, sem gat ekki stutt eigin flokk í stærsta kjördæmi landsins og getur ekki útskýrt rústir ástarsambandsins við Alþýðuflokkinn. Það hefur þó sinn Steingrím Sigfússon.

Alþýðubandalagið hefur fjarlægzt upprunann. Það hefur um skeið haft formann úr Framsóknarflokknum. Þegar honum verður ýtt til hliðar, er líklegast, að við taki nýr formaður, sem er meiri framsóknarmaður en flestir þeir, sem formlega eru í Framsóknarflokknum.

Sjálfstæðisflokkurinn var búinn að fá sinn Davíð fyrir kosningar. En staða hans í flokknum er orðin svo sterk eftir þessar kosningar, að hann þarf ekki annað en að benda litla fingri til að fá formannsembætti flokksins og verða næsta forsætisráðherraefni flokksins.

Þannig má búast við, að úrslit byggðakosninganna hafi nokkur áhrif á skipan manna í forustuhlutverk stjórnmálaflokka. Rauði þráðurinn í þeim breytingum verður svipaður og í kosningaúrslitum höfuðborgarsvæðisins. Tími hinna sterku manna er kominn.

Hætt er við, að flokkar, sem stuðla að valddreifingu í röðum sínum og hafna hugmyndinni um sterka menn, hafi á brattann að sækja meðal kjósenda. Augljóst fórnardýr þessa verður Kvennalistinn, sem fór fremur halloka í kosningunum, einkum í vígi sínu í Reykjavík.

Kjósendur á höfuðborgarsvæðinu hafa beðið um persónur og skýrar línur. Flokkar munu setja á oddinn sterka menn og skipta ört um þá, ef illa gengur.

Jónas Kristjánsson

DV