Grænar hremmingar

Greinar

Forstjóri alþjóðafyrirtækis grænfriðunga, David McTaggert, fékk verðlaun umhverfisverndarráðs Sameinuðu þjóðanna á umhverfisdegi samtakanna á þriðjudaginn var. Hann er Íslendingum kunnur vegna afskipta sinna af hvalveiðum og selveiðum í norðurhöfum.

Vísindanefnd Alþjóða hvalveiðiráðsins kemur saman á sunnudaginn til að undirbúa þing ráðsins, sem hefst um næstu mánaðamót. Á fundum þessum munu fulltrúar Íslands leggja til, að hvalveiðar verði leyfðar að nýju, eftir að veiðibann ráðsins rennur út á þessu ári.

Halldór Ásgrímsson hefur óbeint hótað í blaðaviðtali að segja Ísland úr Alþjóða hvalveiðiráðinu, ef það samþykki ekki að leyfa hvalveiðar að nýju. Því má búast við, að aftur skerist í odda með Íslendingum og grænfriðungum, sem nota andstöðu sína sem fjáröflunartæki.

Viðskiptaþvinganir eru orðnar að blómlegri atvinnugrein í Bandaríkjunum og hafa einnig reynzt nothæfar í Vestur-Evrópu. Vestanhafs eru aðferðir þrýstihópa af tagi grænfriðunga orðnar vel slípaðar og áhrifaríkar. Við megum því búast við þyngri kárínum en fyrr.

Andstæðingar túnfiskveiðimanna, sem fá höfrunga í net sín, hafa brotið á bak aftur fyrirtækin, sem sjóða niður túnfisk í dósir. Höfrungavinir beindu spjótum sínum að stærstu niðursuðuverunum og neyddu þau til að kaupa ekki túnfisk af höfrungaveiðimönnum.

Burger King lenti í klóm þeirra, sem vilja ekki, að flutt sé inn nautakjöt frá löndum, sem eyða regnskógum. Fyrirtækið varð að lýsa yfir, að það mundi framvegis ekki kaupa nautakjöt frá Suður-Ameríku. Það vissi, að ella mundi viðskiptaþvingun heppnast.

Þeir, sem eru andvígir tilraunum á smádýrum, hafa beint geiri sínum að snyrtivöruframleiðendum, hverjum á fætur öðrum. Fyrst kúguðu þeir Avon til hlýðni, næst Revlon og í ár er L’Oréal fórnarlambið. Með hverjum sigri safna þvingendur reynslu í sarpinn.

Pelsklæddar konur eiga ekki sjö dagana sæla á götum New York. Almenningur veitist að þeim með formælingum og hrækir jafnvel á þær. Á veggjum eru plaköt, sem sýna blóðuga loppu í dýraboga. “Fáðu tilfinningu fyrir pels. Skelltu bílhurð á hönd þína,” segir þar.

Ljóst er af viðbrögðum almennings í Bandaríkjunum, að framleiðendur refa- og minkaskinna eiga ekki mikla framtíð fyrir sér næstu áratugina. Eftirspurn skinna er lítil og mun fara minnkandi. Ekki er því unnt að telja horfur vænlegar hjá íslenzkum loðdýramönnum.

Spurt hefur verið, bæði í gamni og alvöru, hvenær dýravinir taki að sér fiskinn í sjónum og hvað verði þá um hina raunverulegu lífsbjörg Íslendinga. Þótt ekki komi að slíku, getum við búist við ýmsum vandræðum á fleiri sviðum en í loðdýrarækt og hvalveiðum.

Sem dæmi má nefna, að erlendir dýravinir kunna að telja sér trú um, að íslenzkir tamningamenn misþyrmi hestum sínum fyrir sýningar, svo sem dæmi eru raunar um. Ef við stöðvum það ekki, getur alveg eins farið svo, að hinn verðmæti hrossaútflutningur eyðileggist.

Sem betur fer er einskis misst í loðdýrarækt og hvalveiðum, því að hvorugt er hagkvæm iðja. Við getum þó, ef við erum nógu þrjózk sem þjóð og höfum nógu þrjózkan ráðherra til að líta upp til, magnað á okkur enn meiri vandræði af því tagi, sem við höfum þegar reynt.

Viðskiptaþvinganir grænfriðunga og annarra slíkra hafa gengið vel í Bandaríkjunum og raunar líka í Evrópu. Þjóð Halldórs Ásgrímssonar er því í vanda stödd.

Jónas Kristjánsson

DV