Gæfulausir sjóðir

Greinar

Stjórar og stjórnir fjárfestingarsjóða ríkisins telja sig ekki bera neina ábyrgð á gerðum sínum. Þessir aðilar hafa hagað sér á svo óábyrgan hátt, að ríkið verður senn að koma til skjalanna með nýju fjármagni til að bjarga flestum fjárfestingarsjóðum sínum frá gjaldþroti.

Opinberir sjóðir eiga meira en sex milljarða hjá fyrirtækjum í fiskeldi og loðdýrarækt. Áður en peningarnir voru lánaðir fyrirtækjunum, var vitað, að töluvert af þeim mundi ekki skila sér aftur til baka. Og nú er ljóst, að mest af lánsfénu er þegar horfið út í veður og vind.

Þrír sjóðanna eru gjaldþrota, þótt það hafi ekki verið bókfært. Það eru Framkvæmdasjóður, Byggðastofnun og Stofnlánadeild landbúnaðarins. Sem dæmi má nefna, að eigið fé Framkvæmdasjóðs nemur ekki nema 416 milljónum króna á móti 1.867 milljón króna fiskeldislánum.

Álitamál er, hvenær á að afskrifa vonlausar skuldir. Framkvæmdasjóður hefur afskrifað 410 milljón króna hlutafjáreign sína í Álafossi, en hefur áfram inni í bókum sínum allt það fé, sem hann á inni hjá fiskeldinu, þar á meðal hjá fyrirtækjum, sem eru að hætta rekstri.

Jafnvel þótt sjóðir séu eign ríkisins á að vera hægt að ætlast til, að stjórar þeirra og stjórnir hagi sér varfærnislega í lánveitingum, setji ekki öll egg sín í eina körfu og kanni, hvaða líkur séu á árangri hjá ýmsum bjartsýnismönnum í hópi væntanlegra skuldunauta.

Ef ofangreindir sjóðir væru starfræktir í alvöruþjóðfélagi, hefðu stjórar þeirra og stjórnir sagt af sér, þegar ábyrgðarleysi þeirra var orðið lýðum ljóst. Hér í siðleysinu geta menn hins vegar spásserað um þjóðfélagið með allt á hælunum eins og ekkert hafi í skorizt.

Ríkisábyrgðin á sjóðunum er hluti vandamálsins. Hún stuðlar að ábyrgðarleysi stjóra og stjórnarmanna sjóðanna. Slíka ábyrgð þarf að afnema, því að óþarfir eru sérstakir sjóðir með sérstökum stjórum og stjórnarmönnum, ef ábyrgðin er hvort sem er öll á öðrum stað.

Ofangreinda sjóði ber að gera upp og leggja niður, en fela verkefni þeirra öðrum aðilum, sem kunna með fé að fara. Afnema þarf stjórasæti og stjórnarsæti, sem litið er á eins og einhvers konar félagsmálastofnun fyrir velklædda aumingja á framfæri stjórnmálaflokkanna.

Fleiri sjóðir góðra áforma eru á veginum til vítis. Mesta afrek núverandi ríkisstjórnar er að brenna tíu milljörðum í Atvinnutryggingasjóði og Hlutafjársjóði, sem beinlínis voru stofnaðir til að veita fjármagni í vonlaus fyrirtæki undir stjórn vonlausra forstjóra.

Harmsaga opinberra fjárfestingarsjóða er orðin of löng. Tímabært er, að ríkið hætti að spenna upp lánsfjárskort og vexti með eyrnamerkingu fjármagns til gæluverkefna og feli heldur sæmilega traustum aðilum á borð við bankakerfið að sjá um lán til fjárfestinga.

Einnig er tímabært, að ríkisbankarnir verði gerðir enn ábyrgari en þeir eru nú með því að afnema þá ábyrgð ríkisins á gerðum þeirra, sem er umfram stofnfé ríkisins, alveg eins og framlag hluthafa í fyrirtækjum á að takmarkast við hlutaféð, sem þeir reiða af hendi.

Á fáum árum hefur ríkisstjórnin brennt um sextán milljörðum króna í fiskeldi og loðdýrarækt annars vegar og í sérstökum skussasjóðum hins vegar. Þjóðin verður meira en áratug að jafna sig eftir þessa skuldasöfnun, sem virðist ekki vera á nokkurs manns ábyrgð.

Fjárfestingarsjóðir á vegum ríkisins bera ógæfuna í sér. Þeir hafa óhjákvæmilega orðið að leikvelli gæludýra á framfæri stjórnmálaflokka. Gildir það jafnt um stjóra, stjórnarmenn og viðskiptavini sjóðanna.

Jónas Kristjánsson

DV