Engin sjálfsvirðing

Greinar

Ömurlegt var að sjá þrjá ráðherra lýsa því yfir svipbrigðalaust, að þeir ætluðu að svíkja kjarasamninga, sem þeir höfðu sjálfir gert. Ömurlegt var að horfa á skort sjálfsvirðingar hjá helztu valdamönnum þjóðar innar, þar á meðal vinsælasta stjórnmálamanni hennar.

Samfélag manna byggist á samningum, sem staðið er við. Menn semja um kaup og sölu og geta treyst, að undirskriftir standi. Í viðskiptalífinu gildir meira að segja, að orð skuli standa, þótt þau séu ekki fest á pappír. Þannig hefur viðskiptaþjóðfélag nútímans orðið til.

Stundum lenda menn í vandræðum og geta ekki staðið við skuldbindingar sínar. Fórnardýr þeirra leita þá á náðir dómstóla og fá leiðréttingu sinna mála eða þá, að vanefndamenn eru gerðir gjaldþrota. Sem betur fer er þetta sjaldgæft. 99 af hverjum 100 samningum standa.

Ef fólk sér fram á, að það lendi í vandræðum með að standa við skuldbindingar sínar, reynir það venjulega að semja um málið. Það fer í bankann og fær framlengingu á einhverjum hluta þess, sem er að falla í gjalddaga. Það leitar samkomulags og sátta við mótaðilann.

Einsdæmi er, að viðskiptabófar lýsi því yfir, að þeir ætli ekki að standa við gerðan og undirritaðan samning, svo sem ráðherrarnir þrír hafa nú gert. Til þess þarf einstæðan skort á heiðarleika og sjálfsvirðingu, sem hlýtur að skaða samskiptareglur í þjóðfélaginu.

Í einstaka tilviki getur risið ágreiningur um, hvernig beri að túlka samning. Menn setjast þá niður og reyna að semja um slíkt, áður en þeir tilkynna, að grundvallaratriði samningsins gildi ekki. Allt er þetta liður í að virða leikreglur, svo að unnt sé að halda áfram leik.

Fólk hlýtur að spyrja, hvernig ráðherrar hyggist semja næst um kjör við starfsmenn sína. Eftir yfirlýsingu ráðherranna hefur ríkisstjórnin glatað trausti sem samningsaðili. Munu viðsemjendur næst heimta, að ríkið leggi fram fasteignaveð fyrir fjögurra ára launum?

Viðsemjendur úti í heimi, svo sem í Evrópubandalaginu og Fríverzlunarsamtökunum og Alþjóðlega tollaklúbbnum, hljóta að efast um, að það hafi nokkurt gildi að undirrita samninga við íslenzka ráðherra, sem hafa rúið sig sjálfsvirðingu og almennu viðskiptasiðferði.

Sagnfræðileg vissa er fyrir, að valdið spillir. Íslenzkir ráðherrar eru valdamiklir, valdameiri en stéttarbræður þeirra í lýðræðisríkjunum. Okkar menn hafa látið valdið spilla sér. Þess vegna geta þeir svipbrigðalaust lýst því óbeint yfir, að þeir séu réttir og sléttir bófar.

Sem bófar halda þeir áfram að gefa vinum, flokksbræðrum og skólafélögum áfengi á kostnað ríkisins. Sem bófar halda þeir áfram að fara flokkslegar áróðursferðir um landið á kostnað ríkisins. Sem bófar láta þeir önnur skattalög gilda um sig en um annað fólk í landinu.

Skortur ráðherra á sjálfsvirðingu birtist meðal annars í, að þeir halda áfram að haga sér á spilltan hátt, þótt upp hafi komizt. Þeir halda áfram að láta borga sér tvisvar fyrir kostnað á ferðalögum, þótt uppvísir séu að svindli. Þeir kunna einfaldlega ekki að skammast sín.

Því miður styður þjóðin siðleysi ráðherra. Einn þeirra, sem lengst gekk í hundalógík í vörn fyrir þau samningssvik, sem hér hafa verið til umræðu, hefur um nokkurra mánaða skeið verið sá ráðherra, sem fær í skoðanakönnunum hæsta einkunn fólks fyrir traust.

Því meira sem fækkar leikreglum, sem unnt er að treysta, þeim mun meira verður tjónið af siðleysi þjóðar og ráðherra hennar. Brottfall sjálfsvirðingar hefnir sín.

Jónas Kristjánsson

DV