Sjónhverfingamenn

Greinar

Donald Trump er gott dæmi um, hversu langt er unnt að komast á ímynd, sem byggð er upp, án þess að innihald sé að baki. Hann hefur um nokkurra ára skeið baðað sig í frægðarljóma auðsöfnunar og látið bankastjóra lána sér án trygginga. Nú er spilaborgin að hrynja.

Töluvert er til af listamönnum af þessu tagi. Saksóknarinn í London heldur því fram, að íslenzkur maður, Jósafat Arngrímsson, hafi náð rúmlega milljarði króna út úr ekki minni stofnun en National Westminster Bank, meira eða minna með ævintýralegum sjónhverfingum.

Við höfum heyrt þjóðsögur um, að Einar Benediktsson skáld hafi vafið brezkum fjármálamönnum um fingur sér, meira eða minna með höfðinglegri framkomu sinni. Þeir fengu honum stórfé í hugmyndir, sem voru ef til vill góðar, en náðu ekki fram að ganga.

Ágætt dæmi um klókan sjónhverfingamann er hinn ítalski Giancarlo Paretti. Hann náði 40 milljarða íslenzkra króna tryggingu út úr stærsta fjölmiðlafyrirtæki heims, Time Warner, svo að hann gæti keypt kvikmyndaverin Metro Goldwyn Mayer og United Artists.

Paretti hefur notað hvert tækifæri til að auglýsa, hversu ríkur hann sé og hversu góð sambönd hann hafi. Hann taldi Steve Ross, forstjóra Time Warner, trú um, að hann væri einkavinur Jóhannesar Páls páfa. Í Páfagarði hefur þessu verið harðlega mótmælt.

Komið hefur í ljós, að Paretti hefur fimm sinnum verið dæmdur á Ítalíu fyrir útgáfu á gúmmítékkum og fölsun á bókhaldi og meðal annars til þriggja ára fangavistar fyrir gjaldþrotasvik. Ennfremur hafa blaðamenn rekið augun í tengsl hans við mafíumenn.

Þegar hitnaði undir Paretti á Ítalíu, fór hann til höfuðstöðva ímyndaframleiðslunnar, Hollywood. Þar sneri hann Time Warner svo um fingur sér, að það stórfyrirtæki er nú komið á skrá yfir þau fyrirtæki, sem önnur fyrirtæki beri að umgangast með fjárhagslegri varúð.

Donald Trump erfði einn og hálfan milljarð króna eftir föður sinn og taldi umheiminum trú um, að hann hefði breytt arfinum í sextíu milljarða króna með einstakri fjármálasnilli sinni. Nú er komið í ljós, að hann taldi bara eignirnar, en ekki skuldirnar á móti.

Donald Trump skrifaði metsölubók, sem fjallaði um, hversu ofsalega klár í fjármálum hann væri. Hann sagðist ennfremur vera tilvalið forsetaefni fyrir Bandaríkin. “Enginn fertugur maður hefur afrekað annað eins og ég,” sagði hann. Fólk féll unnvörpum fyrir honum.

Sérgrein Donalds Trump hefur verið að ná lánsfé úr bönkum gegn veði í of hátt metnum fasteignum. Fjármálaritið Forbes telur, að hann hafi tapað hálfum þriðja milljarði á ári og að vafasamt sé, að hann eigi fyrir skuldum. Ímyndin, sem hann byggði upp, er að hrynja.

Þegar menn geta komizt svona langt á ímyndinni í New York, Hollywood og London, er engin furða, þótt unnt sé að byggja upp smáveldi á Íslandi, án þess að nokkuð áþreifanlegt sé að baki. Sumir muna kannski eftir Ávöxtun og Grundarkjöri, sem flugu hátt um tíma.

Hér var einu sinni stórfyrirtæki, sem talið var traustara en ríkið sjálft. Nú liggur Samband íslenzkra samvinnufélaga í rúst. Allt í einu hafa menn áttað sig á, að það á lítið nema skuldir. Bláeygur Landsbanki og nokkrir útlendir bankar sitja eftir með verðlausa pappíra.

Enn þann dag í dag er veröldin vettvangur sjónhverfinga í viðskiptum og stjórnmálum. Kraftaverkamenn koma og fara og skilja eftir sig spennandi lesefni.

Jónas Kristjánsson

DV