Nýtt tjald er að myndast við austurjaðar Vestur-Evrópu í stað gamla járntjaldsins. Það er töluvert austar og sunnar. Austur-Þýskaland, Pólland, Tékkóslóvakía og Ungverjaland hafa varpað af sér kommúnisma og stofnað þingræðisleg fjölflokkaríki að vestrænum hætti.
Handan nýja tjaldsins eru Sovétríkin, Rúmenía og Búlgaría, sem kommúnistar ráða enn. Þetta eru ríkin, sem hafa fetað slóð Gorbatsjovs. Í þeim hefur frelsi verið aukið og kosningar haldnar, en kommúnistaflokkurinn og arftakar hans halda völdunum í sínum höndum.
Þetta var leiðin, sem Gorbatsjov ætlaðist til, að farin yrði í Austur-Þýzkalandi, Tékkóslóvakíu og Ungverjalandi, þegar hann var búinn að afskrifa Pólland sem vonlaust tilfelli. En opnunin fór úr böndum í þessum gömlu Habsborgaralöndum og þau urðu vestræn aftur.
Svipaður klofningur er innan Júgóslavíu. Í norðri og vestri eru gömlu Habsborgaralöndin Slóvenía og Króatía búin að hafna kommúnistaflokknum og taka upp vestræna stjórnarhætti. Í suðaustri er Serbía enn kommúnisk eins og Rúmenía, Búlgaría og Albanía.
Balkanskagalöndin, sem enn halda í kommúnisma, eru þau, sem lengst af voru undir stjórn Tyrkjasoldáns, allt frá miðöldum fram á nítjándu öld. Búlgaría varð raunar ekki sjálfstæð fyrr en árið 1908. Og Serbía og Albanía eru íslömsk lönd enn þann dag í dag.
Stórborgarbúar í þessum löndum eru vestrænir, en bændur í sveitum eru íhaldssamir og þýlindir. Stórborgarbúarnir eru fámennir í samanburði við sveitafólkið og hafa ekki mátt síns mikils í kosningum að undanförnu. Af þessu stafa uppþot og óeirðir í Búkarest.
Óánægja hinnar menntuðu miðstéttar í Búkarest og Sófíu með kosningaúrslitin og stjórnarfarið verður löndum þessum skaðleg. Fólkið, sem löndin þarfnast mest, gefst upp fyrir aðstæðum og reynir að freista gæfunnar í vestri. 80.000 Búlgarar hafa flutzt út á hálfu ári.
Í Sovétríkjunum hefur orðið klofningur milli Eystrasaltsríkjanna og Kremlarvaldsins. Eystrasaltsríkin voru fyrr á öldum undir stjórn og áhrifum Svía og þýzkra riddara. Þau eru vestræn í eðli sínu og munu sigla hraðbyri þá leiðina, ef heimsveldið linar á þeim tökin.
Eystrasaltsríkin hafa svipaða stöðu í Sovétríkjunum og Slóvenía og Króatía hafa í Júgóslavíu. Þau eru hluti af gömlu yfirrráðasvæði vestræns hugmyndaheims og eru að hverfa aftur í þann faðm. Hinn gamli, miðevrópski heimur Habsborgaraveldisins er að koma heim.
Þá má segja, að Moskva gegni í Rússlandi svipuðu hlutverki og Búkarest og Sófía gera í Rúmeníu og Búlgaríu. Í borgarstjórn Moskvu er komin til valda menntuð miðstétt í vestrænum stíl. Borgin er vin í eyðimörk sveitanna, þar sem keisarinn átti fólkið fyrr á öldum.
Samanburður Rússlands við Rúmeníu og Búlgaríu nær þó ekki lengra en svo, að Rússland á nærtækari von um aðild að Vesturlöndum. Í kosningum Rússlands sigruðu ekki kommúnistar, heldur sundurleit öfl, sem hafa sett hinn óþæga Boris Jeltsín á oddinn.
Það er góðs viti, að Rússlandsstjórn Jeltsíns hefur rétt höndina yfir til stjórna Litháens og annarra Eystrasaltsríkja, sem hafa sætt efnahagslegu ofbeldi af hálfu Sovétstjórnar Gorbatsjovs. Það bendir til, að Gorbatsjov verði að gefa eftir fyrir sjálfstæðisöflum landanna.
Tjaldið, sem skilur Rússland, Rúmeníu, Búlgaríu, Albaníu og Serbíu frá Vestur-Evrópu, er ekki úr járni. Það er þunnt tjald, sem getur rifnað hvenær sem er.
Jónas Kristjánsson
DV