Tvíhliða viðræður beztar

Greinar

Alvaran er byrjuð í viðræðum um tengsl Íslands og annarra ríkja Fríverzlunarsamtakanna við Evrópubandalagið. Samningamenn Evrópubandalagsins eru búnir að fá samningaumboð, sem fengið hefur misjafnar undirtektir í löndum Fríverzlunarsamtakanna.

Brezka tímaritið Economist, sem mest fjölmiðla hefur skrifað um Evrópubandalagið, telur, að viðræður um sameiginlegt efnahagssvæði í Evrópu muni ekki leiða til árangurs. Miklu vænlegra sé að stefna að tvíhliða viðræðum Evrópubandalagsins við einstök lönd.

Tvíhliða viðræður njóta vaxandi fylgis þessa dagana. Talað er um, að sérþarfir einstakra ríkja séu yfirleitt afmarkaðar og því umsemjanlegar. Ísland er tekið sem gott dæmi um slíkt. Íslendingar vilji bara tala um fisk og því megi tala afmarkað um fisk við Íslendinga.

Þegar hins vegar búið sé að raða mörgum og mismunandi sérþörfum nokkurra ósamstæðra ríkja saman í einn stóran og flókinn pakka, sem kallaður sé “sameiginlegt efnahagssvæði”, sé málið orðið miklu erfiðara viðfangs fyrir umboðsmenn Evrópubandalagsins.

Economist heldur fram, að Evrópubandalagið meini lítið með sameiginlegu viðræðunum, sem nú eru að hefjast. Bandalagið sé að nota viðræðurnar til að tefja fyrir aðild ríkja á borð við Austurríki, sem vilja komast inn, en bandalagið hefur ekki tíma til að taka við.

Economist vill í staðinn fara tvær leiðir. Annars vegar verði samið um skilyrðislausa og skjóta aðild ríkja eins og Austurríkis. Hins vegar verði gerðir tvíhliða viðskiptasamningar við ríki á borð við Sviss. Tímanum sé ekki eytt of mikið í evrópskt viðskiptasvæði.

Hér á landi hefur nokkrum sinnum, meðal annars í leiðurum DV, verið bent á að gott sé að leggja aukna áherzlu á að þreifa á nýjum viðskiptasamningi við bandalagið, þar sem ekki séu líkur á árangri í okkar hagsmunum undir regnhlíf Fríverzlunarsamtakanna.

Líkur eru að aukast á, að þokukenndir heildarsamningar náist ekki, heldur eigi ríki Fríverzlunarsamtakanna hvert fyrir sig kost á skilyrðislausri uppgjöf og inngöngu í Evrópubandalagið eða á tiltölulega einföldum, tvíhliða viðskiptasamningi við bandalagið.

Þetta hefur farið fyrir brjóstið á utanríkisráðherra Íslands, sem finnst í þessu felast vantraust á starfi hans í fyrra sem formanns samninganefndar Fríverzlunarsamtakanna. Svo er alls ekki. Það er bara söguleg tilviljun, að beinar, tvíhliða viðræður koma að meira gagni.

Til þess að þrýsta á tvíhliða viðræður þurfum við að óska formlega eftir tvíhliða viðræðum við Evrópubandalagið um takmarkaða útvíkkun á viðskiptasamningi, sem þegar er í gildi. Bandalagið getur ekki neitað svo einföldum viðræðum, ef formleg ósk er komin fram.

Flest bendir til, að við getum ekki lengi lagt mikið traust á ósamstæð Fríverzlunarsamtök, sem smám saman eru að gufa upp. Við verðum annað hvort að ná viðskiptasamningi við Evrópubandalagið eða hreinlega gefast upp og ganga í bandalagið á eftir Norðmönnum.

Síðari kosturinn er ekki girnilegur. Okkur mun vegna efnahagslega betur sem tiltölulega sjálfstæðri þjóð með vondum ríkisstjórnum innlendum, heldur en sem einum af landbúnaðarútkjálkum Evrópubandalagsins, jafnvel þótt við verðum áfram að sæta saltfisktollum.

Nýjasta umræðan í fjölmiðlum Evrópu bendir til, að tillögur um tvíhliða viðræður Íslands við Evrópubandalagið séu þær, sem líklegastar eru til að ná árangri.

Jónas Kristjánsson

DV